17.03.1966
Neðri deild: 56. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

109. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mál þetta hefur hlotið afgreiðslu í Ed. Það hefur farið fram að tilhlutan dómsmrn. töluvert víðtæk athugun á meðferð dómsmála í landinu. Það hefur lengi verið uppi gagnrýni um, að það sé of mikill seinagangur í meðferð dómsmálanna, og á Alþ. 1964 var samþ. ályktun um að beina því til stjórnarinnar að athuga möguleika á því að hraða meðferð dómsmála. Um það, hvort seinagangur er á meðferð dómsmála eða ekki, lágu hins vegar ekki fyrir nein gögn í dómsmrn., engin „statistik“ yfir þessa hluti. Ég hlutaðist þess vegna til um það haustið 1964, að dómsmrn. ritaði öllum dómurum landsins og lagði fyrir þá að gera grein fyrir, hvernig gangur dómsmála hefði verið, hvað þau hefðu verið lengi til meðferðar, dómsmál. á árunum 1961, 1962 og 1963. Það tók nokkuð langan tíma að fá svör við þessum spurningum, en þau bárust á sínum tíma til rn. og voru sundurliðuð í einkamál og opinber mál og á annan hátt, eftir því sem fyrir hafði verið lagt. Úr þessu var svo á s.l. hausti unnið, úr þessum upplýsingum, og gerðar um það skýrslur. Þær skýrslur fela í sér töluvert miklar upplýsingar um meðferð dómsmálanna í landinu.

Nú hef ég látið ráðuneytið skrifa dómurunum að nýju og biðja þá um að gera áframhaldandi skýrslur um gang málanna 1964 og 1965. Eftir að þær skýrslur hafa borizt, sem ætti að vera í vor, — ég held það hafi verið til 1. maí, sem frestur er, — þá höfum við yfirlit yfir meðferð dómsmála í landinu, bæði einkamála og opinberra mála, um 5 ára skeið. Úr þessum skýrslum er áreiðanlega hægt að lesa mjög verulegar vísbendingar um það, hvar skórinn kreppir og hvort þörf er löggjafar, sem ég reyndar geri nú ekki ráð fyrir að verði í verulega stórum mæli, eða þá bæta þurfi úr í framkvæmdinni með betri aðbúnaði að dómurum og dómaraembættunum, til þess að málin geti gengið fljótar fram, og af hvaða höfuðsökum málin dragast.

Ég mun fyrir næsta þing gera þingheimi nánari grein fyrir niðurstöðum þeirra rannsókna, sem hér hafa átt sér stað, og skal ég ekki á þessu stigi málsins fara nánar út í það. En það þótti ástæða til þess að flytja þetta frv., sem snertir vissa grein opinberra mála. Þó að það sé sannast, að yfirleitt er ekki seinagangur á, það sýna skýrslur, að það er ekki neinn seinagangur á opinberum málum, það eru þá helzt hin stærri sakamál. sem dragast, þegar um er að ræða umfangsmiklar reikningslegar endurskoðanir, sem taka mjög langan tíma, — en fjöldi umferðarmála og ýmissa minni mála er orðinn svo gífurlega mikill, að það virðist þörf á því að skapa þeim einhvern auðveldari farveg til þess að geta gengið fljótar í gegn, og að því stefnir þetta frv.

Það eru þrjú atriði má segja, sem eru meginefni frv.

Lögreglustjórum eru heimilaðar sektargerðir fyrir brot gegn umferðarlögum, áfengislögum og lögreglusamþykktum allt að 5000 kr. sektum, og þá er sakborningi í sjálfsvald sett, hvort hann gengst undir sektarákvörðun lögreglustjóra, og ef hann gerir það, er máli hans þar með lokið, geri hann það ekki, gengur málið fyrir dómstóla. Með þessu móti gerum við ráð fyrir, að það sé hægt að draga töluvert mikið úr þeim málum, sem fyrir dómstólana þurfa að fara, en þau fá engu að síður sína fullkomnu afgreiðslu. Þessi heimild hefur verið áður um sektargerðir, en í mjög litlum mæli. Það hafa verið heimildir til sektarákvörðunar fyrir lögreglumann, sem stendur vegfaranda að broti gegn umferðarlögum eða lögreglusamþykkt, og sektarupphæðin var þá takmörkuð við 300 kr., og sú sektarupphæð er nú hækkuð upp í 1000 kr. að hámarki í þessum lögum.

Þá er annað veigamesta atriðið eða breyting á gildandi ákvæðum í þessu frv. að heimila dómara ákvörðun allt að eins árs ökuleyfissviptingar án málshöfðunar. Það hefur ekki verið um að ræða hingað til sviptingu ökuleyfis nema með dómi. En ef brotið er skýlaust sannað og sakborningur játast undir ákvörðunina, þá er með þessu frv. heimiluð ökuleyfissvipting allt að einu ári, án þess að það gangi fyrir dóm, og verður þá með sátt á milli dómarans og viðkomandi aðila, sem fellst á að láta svipta sig ökuleyfinu í eitt ár, án þess að málið þurfi að ganga til dóms. Það er enginn vafi á því, að í fjöldamörgum tilfellum er aðilum alveg fullkomlega ljóst, að þeir vinna ekkert á því að draga málið og láta það fara til dóms, brotið er algerlega skýlaust, og í umferðarlögunum er ákvæði um það, að ef áfengismagnið er svo og svo mikið, þá verður að svipta mann ökuleyfi, ég held, að það sé 0.5 %, ef ég man rétt, og ef það er yfir 1.2 %, þá missir viðkomandi ökuleyfi a.m.k. í eitt ár, svo að þetta er aðilum ljóst. Ökumaður veit að hverju hann gengur, það er búið að standa hann að brotinu, honum er í langflestum tilfellum ljóst sjálfum, að það er skýlaust, það er búið að mæla áfengismagnið í blóðinu, og það liggur fyrir og hann veit það sjálfur, að hverju hann gengur. Ég hygg, að með þessu móti verði hægt að draga mjög mikið úr þeim fjölmörgu málum, sem hafa svo farið til dóms, svo að þau hafa beðið í dómi. Viðkomandi hefur kannske ekki verið sviptur ökuleyfinu til bráðabirgða, en heldur sínu ökuleyfi, ekur í eitt ár, á annað ár, í sumum tilfellum kannske lengur, þá loksins fellur dómur í þessu blessaða máli um það, að nú skuli hann sviptur ökuleyfi um svo og svo langan tíma. Það er út af fyrir sig mjög slæmt að geta ekki sem allra fyrst látið framkvæma þau viðurlög, sem eiga að koma fram í sambandi við misfellur í umferðinni, og þetta mundi stefna að því og einnig gera greiðari gang á afgreiðslu málanna. Það mætti segja, að málin kannske hlytu ekki þá athugun, sem þau þyrftu, með þessu móti. En það eru í frv. einnig reglur um afskipti saksóknara ríkisins af sektargerðum lögreglustjóra og lögreglumanna, sem ég vék að áðan, og eru þá ríkissaksóknara gefnar rýmri heimildir en áður til þess að grípa inn í, ef honum finnst einhverjar misfellur í framkvæmd þessara ákvæða.

Ég vil leyfa mér að vona, að þær stuðli að nokkrum umbótum í sambandi við umferðarmálin, þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði, og leyfi mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.