18.04.1966
Neðri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

109. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið til þessarar hv. d. frá Ed., þar sem það var afgreitt með lítils háttar breyt. Frv. er samið að tilhlutan dómsmrh. vegna ábendingar í ályktun Alþ. frá 13. maí 1964. Hafa athuganir í sambandi við frv. beinzt að því að fá upplýst, hvort á yrði talið skorta um hæfilegan hraða í meðferð dómsmálanna, og að því leyti sem sú yrði niðurstaðan, að leita ráða til þess að koma fram úrbótum, eins og segir í grg. með þessu frv. Þar segir enn fremur, að athuganir, sem gerðar hafa verið á gangi og meðferð opinberra mála, þyki sýna, að á því sviði séu viðfangsefni til úrbóta tiltölulega takmörkuð. Hin stærri sakamál virðast yfirleitt hafa eðlilega, greiða og örugga meðferð fyrir dómstólum. Nauðsyn á umfangsmikilli reikningslegri endurskoðun verður þó stundum til verulegrar tafar, en dómstólarnir hljóta að meta, hvers réttaröryggi krefst í slíkum efnum.

Þá segir enn fremur í grg. með frv. um hinn sívaxandi fjölda minni háttar mála, einkum vegna brota í umferðinni, að þar sé brýn þörf á úrbótum, bæði til þess að létta álag á dómstólunum og fá skjótari málalok fyrir sakborninga og auka á varnaráhrif refsinganna, með því að viðurlögum sé komið fram sem skemmstum tíma eftir að brot er framið.

Þeir, sem unnið hafa að samningu þessa frv. með dómsmrn., eru saksóknari ríkisins, lögreglustjórinn í Reykjavík og yfirsakadómarinn í Reykjavík, og þeir vinna áframhaldandi að tillögugerð um þetta efni, og munu þær till. koma síðar fram. En helztu breyt. á l. um meðferð opinberra mála nr. 82/1961, sem fram koma í þessu frv., eru við 112. gr. laganna og eru þessar:

Lögreglustjórum eru heimilaðar sektargerðir fyrir brot gegn umferðarlögum, áfengislögum og lögreglusamþykktum, allt að 5000 kr. sektum. Sakborningi er í sjálfsvald sett, hvort hann gengst undir sektarákvörðun lögreglustjóra. Geri hann það, er máli hans þar með lokið. Geri hann það ekki, gengur málið fyrir dómstóla. Í gildandi lögum er einungis slík heimild til sektarákvörðunar fyrir lögreglumann þann, er stendur vegfaranda að broti gegn umferðarlögum eða lögreglusamþykkt, og sektarupphæð takmörkuð við 300 kr. Sú hámarksupphæð er að vísu í frv. hækkuð í 1000 kr. Þess er þó e.t.v. ekki að vænta, að beiting lögreglumanna á sektarheimild þessari muni verða mikið notfærð. Hins vegar eru raunhæfari möguleikar á, að hagnýtt verði heimild lögreglustjóra til sektarákvörðunar, til verulegs léttis fyrir dómstólana.

Önnur veigamesta breyt. frv. á gildandi ákvæðum er sú að heimila dómara ákvörðun allt að eins árs ökuleyfissviptingar án málshöfðunar, ef brot er skýlaust sannað. Með þessari heimild er talið, að verulegum hluta mála vegna ölvunar við akstur bifreiða muni verða lokið á mun einfaldari og fljótlegri hátt en nú er mögulegur, til mikils léttis fyri dómstólana, þar sem þessi mál eru nú langstærsti flokkur opinberra mála, sem lokið er með dómi. Verður ekki séð, segir í grg., að réttaröryggi sé hætt með þessari breyt., þar sem þessi meðferð skal aðeins heimil, ef brot er skýlaust og sakborningur játast undir ákvörðun, enda saksóknara heimilt að kæra málið til hæstaréttar, ef hann telur rangt með farið, sbr. síðustu mgr. gr., en svo sem áður um ræðir í 5. mgr., skal senda skrá um öll slík mál til saksóknara. Skv. 5. mgr. 81. gr. umferðarl., nr. 26 2. maí 1958, skal svipting ökuleyfis, eða réttar til að öðlast það, gerð með dómi. Til samræmis við þessar breytingar þarf að gera till. um breyt. á því lagaákvæði í frv. til breyt. á umferðarlögum.

Þriðja breyt., sem felst í frv., er sú að setja reglur um afskipti saksóknara ríkisins af sektaraðgerðum lögreglustjóra og lögreglumanna, sem til þess eru fallnar að gera sektargerðirnar einfaldari í meðförum og skapa samræmi í beitingu þeirra.

Allshn. hefur farið yfir þetta frv. og leggur einróma til, að það verði samþykkt óbreytt.