13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1966

Fjmrh (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn, fyrir rösklega afgreiðslu hennar á fjárlfrv., sem veldur því, að við getum nú lokið afgreiðslu þess óvenjulega snemma fyrir áramótin. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða sérstaklega um þær ræður, sem hv. frsm. minni hl. fjvn. fluttu hér. Þær gefa ekki tilefni til sérstakra aths. umfram það, sem rætt var við 2. umr. fjárl. Það voru efnislega sömu atriði, sem þar komu fram, og ástæðulaust að fara að endurtaka gagnrökin þar á móti.

Ég get þó ekki stillt mig um að segja það, að ég er ósköp hræddur um, að það yrði stutt í lungnabólguna, ef yrði farið að þeim ráðum hv. síðasta ræðumanns að hverfa frá þeirri stefnu, sem hann sagði að væri til hins mesta ófarnaðar, að lækka framkvæmdir og hækka skatta, ef það ætti í senn að fara hina leiðina: að hækka framkvæmdir og lækka skatta, þá er ég hræddur um, að það yrði eitthvað skrýtin útkoma af því heilsufari þjóðarbúsins. En sleppum því.

Ástæðan til þess, að ég stóð hér á fætur, var fyrst og fremst að gera grein fyrir því, að af hálfu ríkisstj. eru ekki fluttar við afgreiðslu fjárl. nú neinar lántökuheimildir. Ég gerði ráð fyrir því við 2. umr. fjárl., að við 3. umr. þeirra mundi verða leitað heimilda til þess að taka lán til ýmissa framkvæmda, sem fyrirhugað er að taka lán til, en úr því mun ekki verða. Ástæðan er sú, að unnið er nú að framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir næsta ár, og þeirri áætlun er enn ekki það langt komið, að það sé auðið að sjá, hvaða fé er hægt að hafa til ráðstöfunar til ýmissa framkvæmda á vegum ríkisins. Það mun verða lögð áherzla á það, að framkvæmdaáætluninni verði lokið að mestu um áramót eða a. m. k. það snemma árs, að það ætti að vera ljóst, þegar þing kemur saman að nýju, hvernig horfur eru í þeim málum, og er þá fyrirhugað, eftir því sem tilefni gefst til skv. niðurstöðu þeirrar áætlunar, að leita þá með sérstöku frv. heimildar Alþ. til að taka lán til þeirra framkvæmda, sem sjáanlegt er að auðið verður að afla fjár til.

Ég tek þetta m.a. fram vegna þeirrar till., sem hér liggur fyrir frá hv. frsm. 2. minni hl. fjvn. að taka sérstakt lán til flugvallagerða. Í fjárl. ársins í ár er slík lántökuheimild, en hún var felld niður nú, — ekki vegna þess, að það sé ekki fyrirhugað að taka neitt slíkt lán, heldur vegna hins, að óskirnar um það frá flugmálayfirvöldum eru svo miklar, að það er augsýnilega ekki hægt að verða við þeim óskum nema að takmörkuðu leyti, en hins vegar á þessu stigi ekki séð, hvaða tölu raunverulega ætti að velja í því sambandi. Þar koma einnig til greina óskir, sem hafa verið uppi, og raunverulega óumflýjanlegt er að vissu marki að taka lán til vegagerða og skólabygginga á vegum ríkisins, og sömuleiðis mun þurfa viðbótarheimild til þess að taka lán til sjúkrahúsabygginga. Í fjárlfrv. nú er sú upphæð, sem heimilað var að taka lán til þeirra mála á þessu ári, en engin breyting hefur verið á því gerð og ekki enn þá séð, hver niðurstaðan verður í þessu efni.

Ég vildi hins vegar láta þetta koma hér fram, að ástæðan til þess, að þessara lántökuheimilda er ekki aflað nú, er sú, að það þykir eðlilegra að leita heimilda til hinna raunverulegu lántaka, þegar þar að kemur, heldur en að afla heimilda með einhverjum óvissum áætlanatölum án þess að hafa gert sér grein fyrir, hvort þar er um raunverulega lánsfjármöguleika að ræða. En kjarni málsins er að sjálfsögðu sá, að það mun vitanlega verða lagt fyrir Alþingi á sínum tíma og þá hægt að taka afstöðu til þess, hvort þingið vill veita slíkar heimildir, og tel ég þá eðlilegt, að samtímis væri hægt að gera grein fyrir framkvæmdaáætluninni í heild fyrir árið 1966.