21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

154. mál, Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Af hálfu kaupsýslumanna og samtaka þeirra og af hálfu Verzlunarbanka Íslands h/f hafa verið uppi óskir um það, að komið yrði á fót stofnlánadeild fyrir verzlunina, þ.e. stofnlánadeild eða stofnlánasjóði, sem hefði það sérstaka hlutverk að lána til bygginga í þágu verzlunar og viðskipta, með líkum hætti og til eru stofnlánasjóðir, sem hafa það verkefni að lána til framkvæmda á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar. Ríkisstj. barst fyrir nokkru málaleitun frá Verzlunarbanka Íslands h/f um að flytja þetta frv., sem nú hefur verið lagt fyrir þessa hv. d., um Stofnlánadeild verzlunarfyrirtækja eða verzlunarlánasjóð. Frv. er ætlað að vera eins konar hliðstæða við iðnlánasjóðinn, en gildandi lög um hann eru nr. 45 frá 1963. Samt er sá mikli munur á þessu frv. og gildandi l. um t.d. iðnlánasjóðinn, að Verzlunarbankinn óskar ekki ríkisábyrgðar í sambandi við stofnun þessa verzlunarlánasjóðs og ekki heldur neins konar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu ríkisvaldsins, engrar styrkveitingar eða annarrar fyrirgreiðslu. Verzlunarbankinn er einkastofnun, og væri að sjálfsögðu ekki eðlilegt, að ríkið tæki neina ábyrgð á sig í sambandi við skuldbindingar hans, né heldur að slíkt einkafyrirtæki væri beinlínis styrkt af opinberu fé. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að það fé, sem stofnlánadeildin fær til umráða, komi beinlínis sem framlag frá Verzlunarbanka Íslands h/f eða þá, eins og frv. gerir ráð fyrir, að Verzlunarbankanum verði heimilt að afla sérstaklega fjár til þessarar nýju stofnlánadeildar. Henni er ætlað að hafa sérstakar fjárreiður og hafa sérstakt bókhald og hafa sjálfstæða fjárábyrgð, en stofnlánadeildin verður hins vegar hluti af Verzlunarbanka Íslands og undir sömu stjórn og hann.

Ríkisstj. hefur talið eðlilegt að stuðla að því, að Verzlunarbankinn geti með þeim ráðstöfunum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, ef að lögum verður, aukið stuðning sinn við verzlun og viðskipti í landinu með því að auka lánveitingar til bygginga í þágu verzlunarinnar, en það hefur verið bagalegt, að engin sérstök stofnun hefur talið það verkefni sitt að veita lán til bygginga í þágu verzlunar og viðskipta. Þessu frv. er ætlað að bæta úr þeirri þörf.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.