13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austf. beindi til mín tveimur fsp., sem mér er að sjálfsögðu ljúft að svara, að því leyti sem þeim er nákvæmlega hægt að svara á þessu stigi málsins.

Hann vék hér fyrst að dráttarbrautum og þeirri stefnuyfirlýsingu, sem fólst í framkvæmdaáætlun fyrir árið 1965, og raunar öðrum yfirlýsingum, sem um það mál hafa verið gefnar af hálfu ríkisstj., og spurðist fyrir um, hvort nokkrar breytingar hefðu orðið á þeirri stefnu með hliðsjón af því, að engar sérstakar fjárhæðir væru í fjárl. til þess að mæta þessum vanda. Á þessari stefnu hefur engin breyting orðið. Það hefur verið rætt um ákveðnar leiðir til þess að leysa þann vanda, sem hér er um að ræða. Það voru ákveðnar dráttarbrautir, sem rætt var um sérstaklega í þessu sambandi og ég veit, að hv. þm, mun vera kunnugt um, og þau mál eru nú til athugunar. Í sumum tilfellum hefur verið um að ræða nokkra söfnun fjármuna í þessu skyni vegna fjárveitinga á undanförnum árum. Mun það þó vera fyrst og fremst Akureyri, sem þar er um að ræða nokkurt fé. En hitt er rétt, að þeir fjármunir draga ekki langt með svo dýr mannvirki, og verður þar af leiðandi að gera ráðstafanir til þess að afla fjár með öðrum hætti. Þessar dráttarbrautir þurfa að komast upp á skömmum tíma, og er vitanlega útilokað að taka fjárveitingar til þeirra að fullu jafnóðum í fjárlög, heldur verður að dreifa þeim eða hluta ríkissjóðs í þeim framkvæmdum á miklu lengri tíma.

Ég get ekki á þessu stigi málsins svarað því, hver verður endanleg niðurstaða í þessu efni, hvaða úrræða verður hér leitað, en vil aðeins taka fram, að það hefur engin breyting orðið á því viðhorfi ríkisstj., að unnið verði að þeim dráttarbrautum með þeim eðlilega hraða. sem rætt var um í ár og á s.l. ári, að yrði aflað fjár til nú á árunum 1965 og 1966. Ég vona, að hv. þm. sætti sig við þessar upplýsingar í bili, því að ég get ekki nákvæmlega sagt á þessu stigi, það mun koma í ljós í sambandi við framkvæmdaáætlunina, hvernig áformað verður eða ákveðið síðar meir að afla fjár til þessara framkvæmda.

Varðandi sjávarútveginn gætti nokkurs misskilnings hjá hv. þm., sem hefur þó kannske ekki grundvallarþýðingu varðandi málið. Hann gat þess, að söluskattshækkun, sem samþ., var hér á Alþ. í des. 1964 og tók gildi í byrjun þessa árs, hefði að hluta til átt að verja til sjávarútvegsins, til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem ríkið tók á sig í byrjun þessa árs. Þetta er misskilningur. Ekkert af söluskattinum átti að renna til þessara þarfa. Það var ekki vitað um þessar þarfir, þegar söluskattshækkunin var ákveðin. Það var fyrst með lögum í byrjun þessa árs, sem því var slegið föstu, hver þessi útgjöld yrðu, og það var reiknað með, að þar væri um 55 millj. kr. að ræða, og fyrir þeim útgjöldum var ekki séð með neinum hætti í fjárl. Við þetta bættust að auki 65 millj. kr., sem voru launauppbætur til opinberra starfsmanna. Það var ekki heldur gert ráð fyrir neinni krónu til þessara þarfa í fjárl. ársins 1965. Til þess að mæta þessum tveimur fjárhæðum, sem námu 120 millj. kr., var gripið til þess ráðs að nota heimild fjárl. til þess að skera niður opinberar framkvæmdir um 20%. Það var reiknað með, að þetta gæfi um 120 millj. kr., en því miður varð reyndin allt önnur, því að þetta hafði verið athugað, má segja, í nokkrum flýti, og kom á daginn, þegar átti að fara að framkvæma þennan niðurskurð, að það var ekki auðið, vegna þess að í mörgum tilfellum var hér um algerlega lögbundnar greiðslur að ræða, sem ómögulegt var að skjóta sér undan, og sparnaður á þessu sviði varð því ekki nema 85 millj. kr., þannig að ríkið varð hér beinlínis fyrir halla af þessum ráðstöfunum, sem nam 35 millj., sem ekki voru gerðar neinar ráðstafanir til þess að afla, og það er m.a. þáttur í þeim erfiðleikum, sem nú er við að stríða. Í fjárl. nú hafa því ekki verið teknir neinir tekjustofnar, sem áttu að renna til sjávarútvegsins, nema að því leyti, að niðurskurði opinberra framkvæmda hefur að nokkru leyti verið haldið, þó ekki nema að nokkru leyti. M. a. hækka ýmsar opinberar framkvæmdir, svo sem skólamannvirki, allverulega, og þegar þess er jafnframt gætt, að 65 millj. kr., sem fóru til launauppbóta í ársbyrjun, eru nú allar teknar inn í fjárlög, sjá menn af þessu, að það hefur ekki verið tekinn neinn tekjustofn, sem hefði að öðru leyti átt að renna til þess áframhaldandi að greiða þessa aðstoð til sjávarútvegsins.

Þetta er aðeins til skýringar og hefur að sjálfsögðu ekki áhrif á það, sem var höfuðatriði hjá hv. þm., að spyrjast fyrir um það, hvort ríkisstj. gerði ekki ráð fyrir því að þurfa að veita sjávarútveginum einhverja aðstoð á árinu 1966, eins og í ár. Það er gert ráð fyrir því, að það muni þurfa að veita einhverja slíka aðstoð, og ég vék að því í framsöguræðu minni við 1. umr. fjárl. Hins vegar væri það í senn svo, að þessi aðstoð hefði verið veitt, ef segja má, utan fjárl., þannig að hún hefði verið ákvörðuð með sérlögum, en ekki í fjárl. fyrir árið í ár, takmarkaðist algerlega við árið í ár, þessi lög rynnu út nú um áramót, og enn fremur hitt, að það væri ómögulegt á því stigi, þegar fjárlög voru undirbúin, að gera sér grein fyrir því, hvert kynni að verða framhald þessara mála. Það var þá ekkert vitað um afkomu bátaútvegsins né hraðfrystihúsanna á þessu ári. Að þessum athugunum hefur síðan verið unnið, og fer að sjálfsögðu að nálgast endalok þess, að menn fái heildarmynd af þessum vanda. En enn þá er ekkert um þetta vitað og því jafnerfitt nú að taka einhverja upphæð í fjárlög til þess að mæta þessum væntanlegu útgjöldum, sem við vitum ekkert, hver verða.

Það er hins vegar rétt, að ríkisstj. hefur ekki látið þessi mál lönd og leið, heldur hafa farið fram athuganir á því, hvernig mætti mæta þessum vanda. Ég tel hugsanlegt að mæta vandanum, ef ekki verður um nein aukin útgjöld að ræða í þessu skyni, án þess að þurfa að grípa til nýrra skattahækkana. Ef hins vegar hér verður um einhverjar verulegar fjárhæðir að ræða til viðbótar, skapast nýtt viðhorf, sem að sjálfsögðu verður þó að horfast í augu við, þegar þar að kemur, og íhuga úrræði til þess að mæta þeim vanda. En fyrir því hefur ekki sérstaklega verið hugsað, heldur eingöngu að mæta vandanum, ef hann yrði af svipaðri stærðargráðu og hann er í ár.

Að öðru leyti get ég því miður ekki á þessu stigi skýrt nánar frá því, hvaða úrræði hér er um að ræða, en þetta sem sagt hefur verið fullkomlega íhugað og vonazt til, að hægt verði að leysa þann vanda án þess að grípa til nýrra skattahækkana, ef hann fer ekki fram úr því, sem hann er á þessu ári.