19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

154. mál, Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið úr hv. Nd. og var þar samþ. með shlj. atkv. að fengnum shlj. meðmælum hv. fjhn. deildarinnar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að um langt skeið hafa starfað stofnlánadeildir í þágu höfuðatvinnuveganna, landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar. En verzlunarstéttin, kaupsýslustéttin, hefur ekki átt kost á stofnlánum hjá stofnun, sem hafi haft það sérstaka hlutverk að veita stofnlán í þágu verzlunarrekstrar landsmanna. Þessu frv. er ætlað að bæta úr þessu. Um það hafa verið uppi mjög almennar og að mínu viti alveg eðlilegar óskir af hálfu kaupsýslumanna, að slíkri stofnun verði komið á fót. Að sjálfsögðu er ekki síður þörf á fjárfestingu í þágu verzlunar en hinna annarra höfuðatvinnuvega landsmanna og þess vegna öldungis eðlilegt, að slíkri fjárfestingarlánastofnun eða slíkum stofnlánasjóði verði komið á fót. Einkum og sér í lagi er þetta eðlilegt, eftir að verzlunarmenn hafa sjálfir komið á fót sérstökum banka til þess að sinna rekstrarfjárþörf verzlunarinnar, Verzlunarbanka Íslands h/f.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að Verzlunarbanka Íslands h/f verði heimilað að koma á fót innan sinna vébanda, ef svo mætti segja, sérstakri stofnlánadeild, sem hafi það sem höfuðverkefni að sinna lánbeiðnum til fjárfestingar í þágu verzlunarrekstrar. Þetta frv. er sniðið eftir þeim öðrum lögum, sem gilda um stofnlánasjóði eða stofnlánadeildir, og er aðalfyrirmyndin nýjustu lögin um iðnlánasjóð frá 1963. Hér er samt á sá veigamikli munur, að ekki er óskað eftir neins konar ríkisábyrgð, enda er Verzlunarbanki Íslands h/f einkafyrirtæki. Er gert ráð fyrir því, að stofnlánadeildin verði sjálfstæð deild í Verzlunarbankanum með sjálfstæða fjárhagsábyrgð, sérstakar fjárreiður og sjálfstætt bókhald. Tengsl við Verzlunarbankann eru hins vegar alveg skýr. Stjórn bankans er jafnframt stjórn stofnlánadeildarinnar og tekur ákvarðanir um lán úr deildinni. Stofnlánadeildin er til húsa í bankanum og nýtur fyrirgreiðslu hans í hvívetna. Fjárhagsgrundvöllur stofnlánadeildarinnar er hugsaður þannig, að Verzlunarbanki Íslands h/f sjálfur leggi árlega fram stofnfé, og jafnframt er heimilað, að deildin afli sér stofnfjár með sölu vaxtabréfa og enn fremur öðrum lánum, eins og nánar er kveðið á um í 3. gr. frv. Þetta vona ég, að nægi til skýringar á málinu, og vona, að hér í hv. Ed. verði eins og í hv. Nd., að málið nái fram að ganga án nokkurs ágreinings.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.