25.04.1966
Efri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

154. mál, Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um stofnlánadeild verzlunarfyrirtækja, 154. mál Nd., hefur verið til umsagnar hjá fjhn. N. hefur orðið sammála um að mæla með frv. Frv. gefur Verzlunarbanka Íslands h/f rétt til að stofna sérstakan verzlunarlánasjóð innan Verzlunarbankans, sem er sérstaklega ætlað að aðstoða verslunarfyrirtæki við byggingu eða endurbyggingu verzlunarhúsnæðis.

Verzlunarbanki Íslands h/f er stofnaður samkv. heimild í l. nr. 46 frá 1960. Samkv. þeim 1. var ábyrgðarmönnum Verzlunarsparisjóðsins heimilað að beita sér fyrir stofnun hlutafélags til bankarekstrar, er jafnframt yfirtaki alla starfsemi Verzlunarsparisjóðsins, en hann hóf starfsemi sína á árinu 1956 og náði þegar í byrjun góðum árangri í starfsemi sinni. Það má segja, að með stofnun Verzlunarbankans hafi rætzt gamall draumur margra kaupsýslu og verzlunarmanna um, að verzlunarstéttin ætti eigin banka. Er það raunar sams konar þróun og átt hefur sér stað með öðrum þjóðum, nema hvað hér gerist það miklu síðar en annars staðar, og liggja til þess ýmsar ástæður. Hins vegar hefur það sannazt þann skamma tíma, sem bankinn hefur starfað, að fullkominn grundvöllur var fyrir bankann og brýn nauðsyn, að hann yrði stofnaður. Máli mínu til stuðnings vil ég benda á, að innistæður í Verzlunarsparisjóðnum námu 160 millj. kr., þegar Verzlunarbankinn yfirtók starfsemi hans á öndverðu ári 1961, en innistæður námu í lok síðasta árs 545 millj. kr., og voru heildarútlán bankans þá 429 millj. Hinn öri vöxtur Verzlunarbankans sýnir betur en nokkuð annað, hve mikil gróska hefur verið í allri starfsemi verzlunar hin síðari ár.

Nú hafa forráðamenn bankans uppi áætlanir um stofnun sérstakrar stofnlánadeildar við bankann, svo sem fram kemur í frv. þessu. Er þar gert ráð fyrir, að bankanum sé heimilt að stofna sérstaka deild, verzlunarlánasjóð, er hafi það að meginmarkmiði að veita verzlunarfyrirtækjum stofnlán. Er hér um algera nýjung að ræða, því að enn hafa verzlunarfyrirtæki ekki haft aðgang að neinum sérstökum sjóðum til stofnlána, en í flestum tilfellum hafa þau orðið að skerða rekstrarfé sitt, þegar þau hafa ráðizt í endurbætur eða uppbyggingu. Samkv. 3. gr. frv. er gert ráð fyrir, að Verzlunarbankinn leggi fram árlegt gjald til verzlunarlánasjóðs.

Skal það gjald ekki vera lægra en 2 millj. á ári fyrstu 5 árin, sem sjóðurinn starfar. Ekki er gert ráð fyrir, að sjóðnum berist annað ákveðið fé, en gert er þó ráð fyrir, að sjóðurinn hafi heimild til þess að gefa út bankavaxtabréf, svo og heimild til lántöku til endurlána. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir fjárhagslegri fyri greiðslu ríkisvaldsins eða ríkisábyrgð.

Verzlunarstéttin leggur mikla áherzlu á, að frv. þetta nái fram að ganga, en það ætti að geta orðið mikilvægt til stuðnings því, að verzlunarfyrirtæki byggist meira upp í nútímahorf og veiti landsmönnum betri og ódýrari þjónustu. Er þess vænzt, að hv. þdm. veiti þess frv. um verzlunarlánasjóð stuðning.