13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1966

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. vakti athygli á því í ræðu sinni hér áðan, að þau fjárlög fyrir næsta ár, sem nú verða senn afgreidd, muni gera ráð fyrir ríkistekjum að upphæð um það bil 3800 millj. kr. Vilji menn bera þetta saman við fyrri tíma, má bæta hér við stórum fjárhæðum, sem nú eru utan við fjárl., svo sem álögunum til vegasjóðs. Hækkun frá síðustu fjárl. er um 270 millj. kr., og fjárl. fyrir næsta ár verða um 1100 millj. kr. hærri en fjárl. fyrir árið 1964. Þetta er stórkostleg hækkun ríkisteknanna á tveimur árum, 1100 millj. kr. Menn skyldu ætla, að með svo miklum tekjuauka og svo gífurlegum heildartekjum ríkisins væri auðvelt að afgreiða hallalaus fjárlög og verja þó verulegu fjármagni til nauðsynlegustu opinberra framkvæmda. En þótt undarlegt megi virðast, er ríkisstj. og hennar lið í hreinustu vandræðum með að afgreiða fjárl. hallalaus og grípur til þess óheillaráðs að synja um fjárveitingar til allra brýnustu þarfa.

Ég vil með fáum orðum nefna aðeins eitt dæmi um þetta, það eru framlögin til skólamála, og var þó um það rætt allýtarlega af frsm. 1. minni hl. fjvn.; hv. 3. þm. Vesturl. Hér liggja fyrir till. frá fjvn. um framlög til skólabygginga. Um allt land er mikil vöntun á barnaskólum og framhaldsskólum, til þess að mögulegt sé að framkvæma fræðslulögin og veita ungu fólki þá menntun, sem hverjum manni er nauðsynleg. En þegar við lítum yfir till. fjvn., sem telja má að séu till. hæstv. ríkisstj., og sjáum, hvað þar er smátt skammtað, verður naumast hjá því komizt að álykta, að með þeim sé verið að gera grín að því fólki, sem vantar skóla fyrir börn sín og bíður þess með óþreyju, að úr þeirri þörf verði bætt, eða hvað segja menn um þá ákvörðun stjórnarmeirihl. að veita 200–400 þús. kr. til skólabygginga, sem kosta munu nokkrar millj., og 20 þús. til skólastjóraíbúða? Hér við bætist svo það, að þeir, sem fá slíkar fjárveitingar, eru um byrjunarframkvæmdir háðir samþykki og ótilteknum skilyrðum menntmrn. Slíkt er frelsið hér á bæ. En hér með er ekki öll sagan sögð. Utan dyra standa enn fjöldamargir aðilar, sem hafa ekki fengið neina áheyrn hjá fjárveitingavaldinu, ekki svo mikið sem 20 þús. kr. framlag og því síður 200 þús.

Ég hef kynnt mér það nokkuð, hve margar umsóknir hafa legið fyrir hjá fjvn. um framlög til skólabygginga. Mér reiknast svo til, að þar liggi nú fyrir umsóknir um framlög til barnaskóla og skólastjóraíbúða 16 að tölu frá 12 sýslufélögum, og þessu er öllu ýtt til hliðar, án þess að það fái nokkra afgreiðslu. Og þá munu liggja fyrir umsóknir um framlög til byggingar gagnfræðaskóla frá a. m. k. 3 kaupstöðum og auk þess frá öðrum stöðum. Hvenær skyldi þá röðin koma að þessum, sem öllum er synjað nú? Ég hygg, að það hafi ekki komið fyrir áður, að svo mörgum umsóknum um framlög til skólabygginga hafi verið synjað. En þörfin fyrir þessar byggingar fyrir menntastofnanirnar er sívaxandi. Því veldur m.a. mikil fólksfjölgun í landinu og einnig hitt, að það eru gerðar meiri kröfur til menntunar nú en áður var. Þá eru einnig nú á tímum gerðar kröfur um miklu fullkomnari skólahús en áður var. Þessar ástæður valda því, að þörfin fyrir byggingar skólahúsa er langtum meiri en hún áður var, og sú þörf fer ört vaxandi.

En hvað segir hæstv. menntmrh. um þetta stóra mál? Telur hann ekki ástæðu til þess að gefa Alþ. upplýsingar um það, hvernig ríkisstj. hugsar sér að leysa þann vanda, sem hér er fyrir höndum, ef stjórnin hefur gert sér einhverjar hugmyndir um það? Samkv. till. fjvn. um framlög til skólabygginga, sem nú eru fram bornar við 3. umr. fjárlfrv., og einnig vegna þess, sem fyrir liggur, að fjöldamörgum héruðum, sem vantar menntastofnanir, er algerlega synjað um framlög til að koma þeim upp, er ærin ástæða til að gera þær kröfur til hæstv. menntmrh., að hann geri grein fyrir fyrirætlunum stjórnarinnar í þessum málum. Hæstv. menntmrh. er ræðuglaður maður, og honum ætti að vera ljúft að gefa okkur slíkar upplýsingar, enda má segja, að honum sé það skylt. Og þó að litlar líkur séu til, að núv. hæstv. ríkisstj. endist aldur til að leysa þennan vanda með viðunandi hætti, er eigi að síður hægt að ætlast til þess, að hæstv. menntmrh. geri grein fyrir málunum, meðan hann situr í ráðherrastóli.

Þó að ástæða væri til að gera einnig að umtalsefni fjárveitingar til annarra nauðsynlegra framkvæmda, svo sem sjúkrahúsabygginga, hafnargerða og fleiri framkvæmda, en þær eru vitanlega langtum minni en þær þyrftu að vera, mun ég ekki gera það að þessu sinni.

Hinir eldri tekjustofnar ríkissjóðs, svo sem aðflutningsgjöld og rekstur ríkisstofnana, hafa gefið margfalt meiri tekjur síðustu árin heldur en áður. Sama er að segja um söluskattinn, enda hækkaði núv. stjórn hann ákaflega. En þessi mikli tekjuauki hefur reynzt núv. stjórn algerlega ófullnægjandi. Hún hefur lagt í það mikla vinnu að finna upp nýja skatta til að leggja á landsfólkið, og henni hefur orðið vel ágengt í þeirri leit, jafnvel leitað til útlanda og reynt að finna þar hugmyndir um nýja skatta. Fyrir því Alþ., er nú situr, liggja nokkur frv. frá stjórninni um nýjar skattaálögur, eins og jafnan áður á stjórnarárum hennar. Þrátt fyrir allt þetta, stórhækkun tekna af eldri stofnum og fjölda nýrra skatta, gat ríkisstj. ekki komið saman fjárlfrv. á næstliðnu sumri nema með því að bregða á nýtt ráð, og ráðið, sem hún fann upp, var að strika út af fjárlfrv. framlag til vegasjóðs, sem hún hafði þó lofað hátíðlega á Alþ., að ekki skyldi niður fellt. Með þessu tiltæki sparaði hún 47 millj. Það var matsverðið á mannorði ríkisstj. Og matið var framkvæmt af henni sjálfri.

Þegar hér er komið, er ríkisstj. svo djúpt sokkin, svo aum orðin, að mér sýnist tæplega hægt að skamma hana, hún er komin niður fyrir það mark.