14.10.1965
Efri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

3. mál, lántaka vegna vega- og flugvallargerða

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar brbl., sem sett voru nú í sumar, þar sem ríkisstj. var heimilað að taka lán vegna vega- og flugvallargerða.

Það kom í ljós við nánari athugun, eftir að Alþ. lauk störfum, að ekki mundu vera fyrir hendi nægilegar lántökuheimildir, annars vegar í sambandi við Keflavíkurveg og hins vegar í sambandi við vegagerðir á Vestfjörðum, vegna láns þess, sem ákveðið hafði verið að taka hjá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins. Samtals námu þessar fjárhæðir, sem um var að ræða, milli 50 og 60 millj. kr., og eru brbl. við það miðuð. Sérstakar heimildir höfðu ekki verið veittar í l. vegna lántöku hjá viðreisnarsjóðnum, að öðru leyti en því, að í fjárl. var veitt almenn heimild til lántöku vegna flugvallargerða, og var hægt að nota þá heimild í sambandi við flugvallargerðirnar á Vestfjörðum, og notuð voru hin almennu ákvæði hafnarlaga til þeirrar lántöku, sem átti að renna til hafnargerðanna. Lántaka vegna veganna var hins vegar ekki fyrir hendi. Vegna Keflavíkurvegar höfðu safnazt fyrir allverulegar lausaskuldir, sem nauðsynlegt var að breyta í lán, og var um þær fjárhæðir að ræða í sambandi við heimildina, að því er varðar Keflavíkurveginn.

Ég tel ekki, herra forseti, nema frekara tilefni gefist til, ástæðu til frekari skýringa á frv., en legg til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.