14.10.1965
Efri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

3. mál, lántaka vegna vega- og flugvallargerða

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera þá aths. í sambandi við þetta mál, að það hefði verið í alla staði eðlilegra, að lántökuheimildar þessarar hefði verið leitað fyrir fram á Alþ. og hún fengin með almennum lögum í stað brbl. Og ég vil bæta því við, að til þess var fullt tilefni, vegna þess að Alþ. fjallaði á síðustu dögum um heimild til lántöku vegna vegamála. Ég hygg, að það hafi verið 11. maí s.l., sem samþ. voru hér á Alþ. lög um lántökuheimild fyrir ríkisstj. til tiltekinna vegagerða. Og meðal þeirra lána, sem þar voru heimiluð, var lántaka vegna Reykjanesbrautar eða Keflavíkurvegar, um 115 millj. rúml., ef ég man rétt. Líka má geta þess í þessu sambandi, af því að hér er um að ræða lántökuheimild vegna samgöngubóta eða til vegagerða á Vestfjörðum, að einmitt þá var felld till. um það að veita heimild til lántöku vegna vegagerðar í Árneshreppi. En sá vegur hefur nú, góðu heilli, skilst mér, verið lagður fyrir lánsfé, og er það náttúrlega góðra gjalda vert. En þegar þess er gætt, hefði verið eðlilegra, að þessar lántökuheimildir, sem þarna er um að tefla, hefðu verið athugaðar betur og hefðu þá verið hafðar það rúmar, til þess að þeirra hefði verið aflað á Alþ. í sambandi við þau lög, sem um þetta voru sett á sínum tíma. Þó að það sé sagt, að það hafi ekki verið vitað þá, að tiltekin lán mundu fást, er það vitaskuld ekkert svar, því að þarna er aðeins um heimild að ræða og eðlilegt, að stjórnin aflaði sér fyrir fram með atbeina Alþ. þeirra heimilda, sem hún taldi, að til mála gæti komið að nota.

Þetta vildi ég nú gera aths. við og þá því fremur, að hér stendur nokkuð sérstaklega á, vegna þess að í vegal. eru settar ákveðnar reglur um vegáætlun. Og í vegal. segir um vegáætlun í 11. gr., að um nýbyggingar skal vera sundurliðuð áætlun um heildarkostnað hvers mannvirkis, kostnað þess á öllu áætlunartímabilinu og á hverju ári þess. Og í 10. gr. sömu laga segir: „Skal áætlunin annars vegar gera grein fyrir þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru á tímabilinu, en hins vegar þeirri fjáröflun, sem gert er ráð fyrir þeirra vegna.“ Og í 16. gr. vegal. segir: „Heimilt skal ráðh. að ákveða, að fengnum meðmælum vegamálastjóra, að ráðizt skuli í framkvæmdir, sem ekki er gert ráð fyrir í vegáætlun, ef til hefur komið tjón á vegum, t.d. vegna vatnavaxta, eldgosa eða annarra náttúruhamfara.“

Í samræmi við þessi ákvæði vegl. eru ákvæði síðustu vegáætlunar um framkvæmdir þær, sem fyrirhugað er að afla lánsfjár til, og þ. á m. er í vegáætluninni á bls. 12 tekið sérstaklega fram um Reykjanesbraut, og þar er gert ráð fyrir hennar vegna á þessu ári 62 1/2 millj., ef ég man rétt. Á þetta vildi ég benda vegna þess, að það er augljóst, að ef farið er inn á þessa braut, sem er mörkuð í þessu frv., er opnuð leiðin til þess að gera vegáætlun gagnslitla, vil ég segja. Það er opnuð leið til þess að fara alveg í kringum hana. Ég dreg ekki í efa, að Alþ. geti auðvitað með nýjum lögum breytt vegal. og þ. á m. með slíkum l. sem þessum. En ég fullyrði, að það er ekki í samræmi við anda vegal., það er ekki í samræmi við það, sem þá var látið uppi um það, sem vekti fyrir mönnum með samningu vegáætlunarinnar. En það er sýnilegt, að ef svona á að fara að, með brbl. á að afla, eftir að vegáætlun hefur verið samþ. og án þess að þar hafi nokkuð verið gerður fyrirvari um að, lánsfjár til hinna eða þessara framkvæmda, sem Alþ. hefur ekki fjallað um, er algerlega hægt að fara í kringum vegáætlunina. Það hefur vitaskuld ekki verið meiningin.

Þessar aths. vildi ég gera, en vil jafnframt taka það skýrt fram, að það er síður en svo, að ég með þessum orðum sé að telja eftir þær samgöngubætur, sem hér er um að efla. Það eru sjálfsagt allir sammála um, að Reykjanesbrautin eða Keflavíkurvegurinn sé nauðsynleg framkvæmd og það sé sjálfsagt að ljúka henni og afla þess fjár til hennar, sem þarf, og því fremur eru auðvitað allir sammála um það, að Vestfirðingum veiti sízt af samgöngubótum. Og ég dreg ekki í efa, að þær samgöngubætur, sem hér er um að tefla, séu allar þarfar og nauðsynlegar. En aðeins vil ég ekki láta þetta mál fram hjá mér fara án þess að gera aths. við þessa afgreiðslu, af því að mér sýnist , að með þessu sé byrjunarspor stigið til þess að ganga alveg á svig við vegáætlunina og brjóta niður það kerfi, sem átti að byggja upp með henni. Það kann vel að vera, að reynslan sýni, að það kerfi sé ekki þess virði að láta það standa, ég skal engu spá um það. En þetta er fyrsta sporið í þá átt.