14.10.1965
Efri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

3. mál, lántaka vegna vega- og flugvallargerða

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það kann vel að vera, að skýringar mínar á frv. þessu hafi ekki verið nægilega ljósar, þar eð ræða sú, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti hér áðan, byggist algerlega á misskilningi.

Hér er ekki um neinar nýjar lántökur að ræða. Fjárframlag það, sem átti a fara til vega á Vestfjörðum samkv. vegáætlun, er þegar í vegáætlun. Það kom hins vegar í ljós, að það er engin lántökuheimild til þess að taka fé að láni, og það er ástæðan til þess, að þessarar heimildar er hér aflað. Ég get vel fallizt á, að það hefði verið æskilegt, að það hefði verið gert fyrir þinglok. Um það þýðir ekki að sakast, það hafði ekki verið gert, og það var ekki talið, að það gæti valdið neinum ágreiningi eða deilum, að nauðsynlegt væri að afla þess fjár, sem Alþ. hafði þegar samþ. og ráðstafað vegáætlun, að skyldi varið til vega á Vestfjörðum.

Í öðru lagi er um Keflavíkurveginn það að segja, að hér er ekki heldur um nýjar lántökur að ræða. Þessi bráðabirgðalán höfðu þegar verið tekin til fyrri framkvæmda vegarins. Það kom hins vegar í ljós við nánari athugun, þegar átti að fara að semja um þessi lán, að það skorti lántökuheimild til þess að tak þau. Það er því alveg á sama hátt með það, að hér er ekki um nýjar framkvæmdir að ræða, heldur er hér verið að breyta lánum, sem þegar höfðu verið tekin. Ég skal ekkert um það segja, skal hins vegar taka það fram strax varðandi Keflavíkurveginn, hvort með þessum fjárhæðum hefur verið reiknað í grg. með vegáætluninni, ég man það ekki, en það skiptir ekki efnislega máli að því leyti til, að þar var gerð grein fyrir því, hvað Keflavíkurvegur mundi kosta, og þetta lán, sem hér er um að ræða, hafði verið tekið, áður en gengið var frá vegáætluninni, og voru bráðabirgðaskuldir við verktaka. Til þess hins vegar að geta um það samið, svo sem gert hafði verið ráð fyrir, með eðlilegum hætti var alveg nauðsynlegt að fá þessa lántökuheimild. Kjarni málsins er sem sagt sá, að hér er ekki verið að brjóta niður eða ákveða neitt nýtt, sem hafi ekki verið gert ráð fyrir í vegáætlun, heldur aðeins tryggja það, að þessar lántökur geti verið með lögformlegum hætti.