02.11.1965
Efri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

3. mál, lántaka vegna vega- og flugvallargerða

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta frv., kvaddi mér aðeins hljóðs til þess að láta þess getið, af því að ég hef skrifað undir nál., sem hér liggur fyrir, án fyrirvara, að það þýðir ekki það, að ég vilji á nokkurn hátt falla frá eða láta hjá líða að taka undir þá gagnrýni, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. við 1. umr. þessa máls, heldur mæli ég með samþykkt frv. eingöngu vegna þess, að ég óttast, að úr því sem komið er verði þeim nauðsynlegu framkvæmdum, sem þarna er um að ræða, ekki komið áleiðis nema með þeim hætti að taka það fé að láni, sem hér er gert ráð fyrir. Ég vil hins vegar taka undir þá gagnrýni, sem komið hefur fram um það, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa gefið út þessi brbl. á sínum tíma. Túlkun hæstv. ríkisstj. á ákvæðum stjórnarskrárinnar um brbl. virðist vera orðin ákaflega frjálsleg, þegar farið er að gefa út brbl. um lánsheimildir, sem kemur svo í ljós, að ekki er nein nauðsyn á að nota nema að örlitlu leyti fyrr en eftir að þing er aftur komið saman. Það hlýtur einnig að vera okkur öllum nokkurt áhyggju- og umhugsunarefni, að ýmiss konar framkvæmdir, sem áður var talið sjálfsagt að greiða af fjárlögum, er nú farið að vinna í vaxandi mæli fyrir lánsfé. Það samir óneitanlega heldur illa fyrir okkur, sem búum við þau skilyrði í landinu, sem hér eru á þessum á um, góðæri og óvenjuleg aflabrögð, að við örum að færa almennar framkvæmdir, sem áður hafa verið greiddar af fjárlögum, í vaxandi mæli yfir á lánsgrundvöll. Hins vegar eigum við væntanlega ekki annars kost en að samþykkja slíkar lánsheimildir eins og þessa, þar sem hér er um að ræða framkvæmdir, sem nauðsynlegt er að vinna, en hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til að borga í ríkari mæli en raun ber vitni með samtíma tekjum.