02.11.1965
Efri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

3. mál, lántaka vegna vega- og flugvallargerða

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Það voru aðeins tvö atriði í ræðu hv. 6. þm. Sunnl., sem gáfu mér tilefni til að segja örfá orð.

Annað þessara atriða var það, að ér hefði verið óeðlilega að farið og túlkuð nokkuð frjálst heimild til útgáfu brbl. í sambandi við lántökuheimild þessa, þar eð í ljós hefði nú komið, að verulegur hluti hennar væri ónotaður. Ég skal játa, að í fljótu bragði lítur það einkennilega út. Það er rétt, sem hv. m. segir, að það er enn ónotaður að forminu til verulegur hluti af þessari heimild, en ástæðan fyrir því er sú, að eins og ég gerði grein fyrir við 1. umr. þessa máls, þá höfðu verið af vegamálastjórninni tekin bráðabirgðalán til greiðslu kostnaðar við Keflavíkurveg, og þegar þessi brbl. voru gefin út í sumar, lá fyrir, að það þyrfti að ganga formlega frá þessum lánum. Ég taldi ekki með nokkru móti auðið að gera það, þar sem vantaði lántökuheimild fyrir þeim, og þess vegna væri fyrst nauðsynlegt að afla þeirrar heimildar. Það kom hins vegar á daginn því miður, að enn hafa ekki náðst samningar um hagstæð lán í þessu sambandi, sem nauðsynlegt hefur verið talið að fá, til þess að það geti verið í samræmi við þá fjármálaáætlun, sem gerð hefur verið út af Reykjanesbraut og hæstv. samgm h. hefur gert hér grein fyrir í sambandi við mr. um það mál. Þetta er ástæðan til þess, að þessi lántökuheimild er enn þá að forminu til ónotuð.

Það má auðvitað segja sem svo, að að hefði mátt bíða með þetta allt saman, þar til Alþ. kom saman, og láta þessi bráðabirgðalán standa. Það var ekki hægt að gera varðandi Vestfjarðaáætlunina með nokkru móti, og þess vegna fannst mér ekki óeðlilegt, af því að fyrir lá samþykki allra hv. þm. á því að leggja Reykjanesbraut og afla nauðsynlegs fjár til hennar, að þá yrði þetta fellt saman. En það er rétt, sem hv. þm. sagði, að þetta litur ekki vel út að þessu leyti, að lántökuheimildin varðandi Reykjanesbraut hefur ekki verið notuð. Þetta er sem sagt orsökin.

Varðandi hitt atriðið, sem hv. þm. minntist á, að hér væri farið inn á óeðlilegar brautir varðandi þessar lántökur, þar sem eðlilegt væri, að þetta fé væri greitt af tekjum ríkissjóðs, þá get ég nú ekki verið honum alls kostar sammála um það atriðl. Það er rétt út af fyrir sig, að varðandi samgöngumál væri auðvitað æskilegast sem meginstefna, að það væri hægt á hverjum tíma að greiða kostnaðinn víð þau af framkvæmdafé ríkisins hverju sinni. Hins vegar er sérstaklega ástatt með þessar framkvæmdir báðar, sem hér er um að ræða. Það á á stuttum tíma að leggja Reykjanesbraut, og ég held, að engum hv. þm. geti hugkvæmzt það, enda hefur það aldrei komið fram, að það hafi verið imprað á þeirri skoðun, að þessa braut ætti að kosta með fjárveitingum úr ríkissjóði. Hana á að leggja á 2—3 árum, og hér er um geysilega framkvæmd að ræða, sem kostar 270 millj. kr., og auðvitað með öllu óeðlilegt, að þeirri framkvæmd sé ekki dreift á miklu fleiri ár. Hér er um að ræða að gera í skyndi stærra átak en áður hefur þekkzt í okkar vegamálum, þannig að það er auðvitað óeðlilegt, ef ætti að greiða slíka vegaframkvæmd með fjárveitingum í fjárl. hverju sinni.

Varðandi Vestfjarðamálið er í rauninni ástatt á svipaðan hátt, að þar hefur verið fengið lánsfé til þess að hraða framkvæmdum í landshluta, sem hefur verið mjög aftur úr varðandi samgöngur, og það fé hefur fengizt úr erlendum sjóði gegn því skilyrði, að á móti komi visst framlag úr ríkissjóði. Ég held, að eins og það mál er til komið, þá væri með öllu móti óeðlilegt líka að hugsa sér, að þessi lántökuheimild væri ekki notuð, úr því að hún býðst, enda hef ég ekki heldur heyrt neina rödd í þá átt, að það hafi ekki verið rétt, og ég býst ekki heldur við, að hv. þm. meini það í rauninni, að ekki sé rétt að nota þá möguleika, sem hér gefast. Við eigum sannarlega nógu mikið ógert í samgöngumálum fyrir því, þannig að ég mundi segja, að þrátt fyrir það, þótt ég geti tekið undir með hv. þm., að það beri að fara varlega í að taka mikið af lánum til samgöngubóta sem þessara, þannig að ekki verði lagður óeðlilegur baggi á herðar framtíðinni um greiðslur slíkra fjárskuldbindinga, þá getur vissulega staðið þannig á, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að taka slík lán, og ég held einmitt, að í báðum þessum tilfellum, sem hér er um að ræða, þá sé sú sérstaða fyrir hendi.