04.04.1966
Efri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

160. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frá því að frv. það, sem hér liggur fyrir, var til 2. umr. í þessari hv. d., hefur fjhn. borizt erindi frá fjmrn., þar sem farið er fram á það, að n. flytji brtt. við frv., við 35. lið þess, eins og það er nú varðandi tollun bifreiða í jeppaflokki. Erindi þetta var tekið til meðferðar á fundi n., sem haldinn var rétt áður en þessi deildarfundur hófst, og var fallizt á það af viðstöddum nm., að við tilmælum rn. yrði orðið í þessu efni, en tveir hv. nm., þeir hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 4. þm. Norðurl. e., tóku þó fram, að þeir hefðu óbundnar hendur við atkvgr. um málið.

Brtt. sú, sem hér er um að ræða, gengur út á það að rýmka nokkuð skilyrði fyrir því, að bifreiðar komist í tollflokk jeppa. Þessi skilyrði hafa að vísu verið rýmkuð talsvert með frv. frá því, sem áður var, þannig að bilið milli miðdepla ása, sem er skilyrði fyrir því, að bifreiðarnar séu settar í þennan tollflokk, sem áður var 94 þml., var hækkað upp í 100 þml. Nú hefur komið í ljós, að hér eru á markaðnum jeppar, þar sem þetta bil er 101 þml., og taldi fjmrn. því sanngjarnt, að þessar bifreiðar greiddu sama toll og aðrir jeppar. Skv. þessu flytur fjhn. d. eftirfarandi brtt. við frv., eins og það nú liggur fyrir, að við 1. gr. 35. lið er gerð sú breyt., að nr. 870237 hljóði svo: „Bifreiðar í jeppaflokki með ekki meira bil en 101 þml. milli miðdeplaása“ — en þetta var 100 þml. í frv., eins og það nú liggur fyrir. Ég vil því biðja hæstv. forseta að leita afbrigða í hv. d. fyrir því, að þessi till. megi koma hér til umr., og afhendi honum hér með till.