26.04.1966
Neðri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

160. mál, tollskrá o.fl.

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þessari síðustu ræðu hæstv. fjmrh. Hann segir, að það sé ekki hægt að koma til móts við þessar till. okkar hv. 1. þm. Norðurl. v. vegna þess, að það sé svo mikill tekjuliður í fjárl. tollarnir af byggingarefni. Eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, var mér ljóst, að hér mundi verða um nokkra tekjuskerðingu hjá ríkissjóði að ræða, án þess að ég hefði tölur um, hverju það mundi nema. En ég vil í þessu sambandi leyfa mér að minna á, að ef það á að verða gagn að því til lækkunar á byggingarkostnaði að flytja inn tilbúin íbúðarhús, efni og vinnu, hlýtur afleiðingin af því að verða sú, að þetta sé í nokkuð stórum stíl, og þá mundi efalaust draga úr innflutningi á öðru byggingarefni, þannig að það frv., sem hér er til umr., sýnist mér, ef það er nokkuð annað en pappírsgagn, hljóta að verða til þess, að ríkissjóður verði fyrir tekjutapi. Ég veit ekki til þess, að í framkvæmd laganna, a.m.k. er það ekki í frv., að þar séu nein ákvæði um það, hversu miklu þessi innflutningur megi nema, og ef svo er, að verð á innfluttum íbúðarhúsum er til mikilla muna hagkvæmara en verð þeirra húsa, sem byggð eru hér af íslenzkum iðnaðarmönnum úr innfluttu byggingarefni, sýnist mér, að það megi fastlega gera ráð fyrir því, að mjög margir, sem byggja sér hús, noti sér af þessari heimild. Og er þá ekki komin þessi tekjuskerðing ríkissjóðs, sem er þess valdandi, að hæstv. fjmrh. getur ekki fallizt á okkar till., a.m.k. að einhverju mismunandi miklu leyti, sem enginn okkar, hygg ég, veit í dag, hve mikil verður?

Ég vil svo aðeins segja það þessu til viðbótar, að ég tel, að það sé vafasamt, hversu langt eigi að ganga í því að innheimta ríkistekjurnar með innflutningsgjöldum af byggingarefni. Ég veit, að þetta hefur verið gert og gert lengi og að hér er ekki um flokkspólitískt mál að ræða og ég ræði það ekki út frá þeim sjónarhóli. En hitt veit ég, að allir viðurkenna nú, að hinn hái byggingarkostnaður sé ein af meginástæðum til þeirrar miklu verðbólgu, sem við eigum nú við að fást, og þess vegna fagna ég því, að hæstv. fjmrh., þó að hann vilji ekki fallast á brtt. mína að þessu sinni, lýsti því hér áðan yfir, að heildarendurskoðun tollalöggjafarinnar stæði fyrir dyrum, og þó að hann vildi ekki lofa neinu um það, ræddi hann a.m.k. um það sem möguleika, að lækkun á innflutningsgjöldum af byggingarefni yrði eitt af því, sem þar kæmi mjög til athugunar. Ég hygg, að 9. tölul. 3, gr. laga um húsnæðismálastofnun ríkisins lúti að þessu, þó að það sé ekki sagt berum orðum, en í þeim tölulið segir, með leyfi hæstv. forseta, að húsnæðismálastjórn eigi að beita sér fyrir lækkun á verði byggingarefnis með því m. a, að stuðla að hagkvæmari innkaupum. En það er greinilega fleira, sem skv. anda laganna og tilgangi löggjafans kemur þarna til greina, og þá leiðir það að sjálfsögðu hugann mjög fljótlega að því, að hægt verði að lækka innflutningsgjöld af byggingarefni.

Ég harma það, að hæstv. fjmrh. sér sér ekki fært að samþykkja þessa brtt., sem ég hef hér talað fyrir, en ég tek því náttúrlega sem staðreynd, að hún muni þar með vera fallin, og þegar það vígi er tapað, þá er að snúa sér að því næsta, og ég vil þess vegna leyfa mér að láta að síðustu þá von í ljós, að sú endurskoðun á tollalöggjöfinni, sem fram á að fara skv. fyrirmælum hæstv. ráðh., muni verða til þess, að þessi till. verða framkvæmd, þótt síðar verði.