26.04.1966
Neðri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

160. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var aðeins til nokkurra upplýsinga í tilefni af þessari síðari ræðu hv. 11. þm. Reykv. Ég er honum að sjálfsögðu alveg sammála um, að það er mjög vafasamt, hvað á að leggja mikil aðflutningsgjöld á byggingarefni, þannig að okkur greinir ekki á um það. Þetta hefur verið, eins og hann sagði, langalengi gert, og það er einn þáttur í því vandamáli, sem við eigum við að fást, að yfirleitt eru aðflutningsgjöld okkar á mörgum vörum ákaflega há, og þess vegna þarf að rannsaka það til hlítar, hvort hægt er að koma því fyrir með öðrum hætti. Vitanlega er hinn mikli byggingarkostnaður hér mjög alvarlegt vandamál og á sinn stóra þátt í okkar dýrtíðarspennu, þannig að þótt ég vilji ekki gefa nein loforð um það, tel ég það engum efa bundið, að það verði að sjálfsögðu að kanna það mál mjög rækilega við endurskoðun á tollakerfi okkar í heild, sem nú fer fram, að hve miklu leyti hægt er að koma á lækkun aðflutningsgjalda af þessari vöru.

Varðandi hitt atriðið í ræðu hans, að ríkissjóður mundi tapa við þá breytingu, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þá hygg ég, að það sé á nokkrum misskilningi byggt, vegna þess að þar er hvergi gert ráð fyrir því, að farið sé með tolla niður fyrir það, sem hið innflutta efni mundi vera tollað, ef það yrði flutt inn sem hráefni, þannig að hagnaðurinn, sem hugsaður er við að opna fyrir þessum innflutningi, er sá, að það er mjög sennilegt, þótt ekki sé meira sagt, að erlendis sé beitt meiri tækni við framleiðslu tilbúinna húshluta og ég tala nú ekki um fullgerðra húsa heldur en hér, enda hefur það komið í ljós við athugun á þeim málum hjá ýmsum aðilum, að það hafa jafnvel verið fluttir inn hingað tilbúnir húshlutir, innréttingar, með þeim mjög háu tollum, sem á þeim eru, og hefur þótt þó hagkvæmt, þannig að þótt greitt væri fyrir því og innflutningur hráefnisins að þessu leyti dragist saman á móti, þá mun það ekki hafa neina tekjurýrnun í för með sér fyrir ríkissjóð. Það, sem hér er um að ræða, er að hagnýta sér þá meiri tækni, sem kann að vera erlendis í þessum efnum, og því miður er það svo, að hér hefur ekki komizt á nein fjöldaframleiðsla, t.d. í tilbúnum húsum, og vissulega væri það mjög mikils virði, ef væri hægt að stuðla að því, að sú fjöldaframleiðsla gæti hafizt, og það kann vel að vera, ef sú framleiðsla fer í gang, að þá sé of lítil tollvernd fyrir slíka framleiðslu með þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að gera, og þá þarf að sjálfsögðu að kanna það mál. En einmitt þessi ráðstöfun, sem hér er verið að gera, að opna fyrir þessum möguleikum, hygg ég, að gæti e.t.v. orkað í þá átt, og væri það vel, að það yrði af innlendum byggingarmönnum hafizt handa um að reyna að koma á hagkvæmari framleiðslu húshluta, ég tala nú ekki um tilbúinna húsa, heldur en nú á sér stað.