22.02.1966
Efri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Meginefni þeirra breytinga, sem hér er lagt til, að gerðar verði á l. um tekjustofna sveitarfélaga, er það, að lagt er til, að tiltekin ríkisfyrirtæki skuli hér eftir greiða gjöld til sveitarfélaga svo sem um einkafyrirtæki væri að ræða. Þau ríkisfyrirtæki, sem hér er átt við, eru í fyrsta lagi síldarverksmiðjur ríkisins. Viðtækjaverzlun ríkisins, Landssmiðjan og Ríkisprentsmiðjan Gutenberg. Ástæðan til þess, að formlega séð er gerður greinarmunur á þessum fyrirtækjum og t.d. fyrirtækjum í b-lið 17. gr., Áburðarverksmiðjunni og Sementsverksmiðju ríkisins, er fyrst og fremst af því, að hin áðurnefndu fyrirtæki eru í flestum greinum í samkeppnisaðstöðu eða starfa hliðstætt sambærilegum einkafyrirtækjum, en aftur á móti er þannig sérstaklega ástatt, svo sem hv. þdm. er kunnugt, um bæði Áburðarverksmiðju og Sementsverksmiðju ríkisins, að þar er um ríkisfyrirtæki að ræða, þar sem ekki eru nein önnur sambærileg fyrirtæki í þeirri grein til í landinu.

Meginástæðan til þess, að frv. er flutt, eru mjög eindregnar óskir frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem hefur átt viðræður við rn. og kjörið sérstaka n. til þess að kanna, hvort ekki væri grundvöllur fyrir að fá breytingu í þá átt á tekjustofnalögunum, sem hér er gert ráð fyrir. Og það hefur þótt rétt að fallast á þessar till. Sambands ísl. sveitarfélaga. Fyrst og fremst er höfuðröksemd sveitarfélaganna einmitt sú, að þessi ríkisfyrirtæki, og er þá raunverulega átt við Síldarverksmiðjur ríkisins, greiði gjöld eftir allt öðrum reglum heldur en einkafyrirtæki, þannig að verksmiðjur, sem starfi hlið við hlið í sama sveitarfélagi, greiði gjöld með mjög mismunandi hætti, og jafnframt að þau sveitarfélög, þar sem aðeins eru síldarverksmiðjur í eigu ríkisins starfandi, séu miklum mun verr sett en þau sveitarfélög, þar sem einkaaðilar eiga slíkar verksmiðjur. Í grg, með frv. er birtur samanburður varðandi nokkrar verksmiðjur, sem glöggt leiðir í ljós, hversu mikilvægt atriði er hér um að ræða.

Svo sem hv. þdm. mun verða ljóst af 3. gr. frv., er gert ráð fyrir, að stofnanir þær, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. Síldarverksmiðjur ríkisins og hin önnur tilteknu ríkisfyrirtæki, haldi áfram að greiða landsútsvar eins og verið hefur, en hins vegar að landsútsvar þeirra verði ákvarðað með sama hætti og tekjuútsvar, þannig að það skuli á hverjum tíma við það miðað, að á þær sé lagt eftir útsvarsstiga, þó án álags og/eða án frádráttar, þannig að miðað sé við þann fastákveðna útsvarsstiga, og enn fremur er heimilað í 1. gr. laganna, að á þessi fyrirtæki skuli sömuleiðis heimilt að leggja aðstöðugjald. Fram höfðu komið raddir um það frá ýmsum, að það væri ástæða til þess að breyta þeim reglum, sem í gildi hafa verið í l. um tekjustofna sveitarfélaga varðandi skiptingu landsútsvara milli einstakra sveitarfélaga og jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. En þessi hugmynd mætti mjög eindreginni mótspyrnu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, og af hálfu rn. var að sjálfsögðu engin sérstök áherzla á það lögð, heldur talið rétt að fara að óskum Sambandsins hvað þetta varðar.

Frv., eins og það liggur hér fyrir, er, svo sem í inngangi þess segir, flutt í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, og markast efni þess því af þeim viðhorfum, sem þar hafa verið ráðandi. Það er mjög rík skoðun hjá sambandinu, að jöfnunarsjóður sveitarfélaga sé til mikils gagns og það eigi ekki að hagga því kerfi, sem hann er byggður á. Í annan stað var það einróma skoðun þessara aðila, að sanngjarnt væri, svo sem hér er lagt til, að þessi ríkisfyrirtæki greiddu gjöld sem um einkarekstur væri að ræða. Aftur á móti er rétt að taka það fram í þessu sambandi til upplýsinga fyrir hv. þdm., að frv. var, áður en það var flutt, sent til umsagnar stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, því að það eru að sjálfsögðu fyrst og fremst þær, sem hér eiga hlut að máli, og er enda ljóst, að útsvarsgreiðslur síldarverksmiðjanna munu hækka mjög verulega, verði þetta frv. að lögum. Af þessum ástæðum þótti sjálfsagt fyrir fram að heyra viðhorf stjórnar síldarverksmiðjanna og að hve miklu leyti þær gætu fallizt á frv. Stjórn síldarverksmiðjanna samþykkti, fyrir sitt leyti að fallast á þá hugmynd, sem í frv. felst, að það væri eðlilegt, að Síldarverksmiðjur ríkisins greiddu útsvar sem einkafyrirtæki, og er því ekki andstaða frá þeim varðandi þetta atriði. Mér þykir hins vegar rétt að láta það koma fram, að það var nokkur skoðanamunur í stjórn síldarverksmiðjanna varðandi það atriði, hvernig þessari útsvarsálagningu skyldi hagað, og komu fram þær skoðanir þar, að rétt væri að breyta þessu með öðrum hætti, þannig að ekki yrði eingöngu farið eftir veltu síldarverksmiðjanna á hverjum stað og tekjum þeirra af hverri einstakri verksmiðju, heldur yrðu jafnframt þessum breytingum, sem hér eru gerðar, fundin úrræði til þess að jafna á milli sveitarfélaga með öðrum hætti en mundi verða gert með venjulegum útsvarsálagningarreglum, þannig að það væri hægt að láta meiri hluta útsvarsins heldur en samkv, almennum reglum mundi verða renna til sveitarfélaga, þar sem rekstur verksmiðjanna væri, að segja má, óeðlilega lítill. Mundi þetta t.d. valda því, þessi skoðun stjórnar síldarverksmiðjanna eða meiri hl. hennar, að staðir eins og Siglufjörður og Skagaströnd, sem hafa ekki fengið nema sáralitla síld, mundu fá hlutfallslega mun meira af aðstöðugjaldi verksmiðjanna heldur en þeim bæri samkv. rekstri á þessum viðkomandi stöðum.

Þessar hugmyndir stjórnar síldarverksmiðjanna voru bornar undir Samband ísl. sveitarfélaga, sem snerist mjög öndvert gegn þessum hugmyndum og taldi, sem vitanlega ér rétt, að með þessu móti væri verið að breyta grundvellinum undir útsvarsheimtu og þeim grundvallaratriðum, sem útsvarsheimta byggðist á, ef væri farið að nota útsvarslögin til þess að jafna þannig útsvörum á milli staða, enda þótt sambandsstjórnin teldi það aftur á móti rétt, að þessir tveir tilteknu staðir ættu við erfiðleika að stríða nú um þessar mundir, þó að menn auðvitað viti ekkert varðandi framtíðina, hverjir það verða hverju sinni, sem við slíka erfiðleika kunna að eiga að stríða. Það dæmi getur snúizt við.

Ég tel rétt, eins og ég áðan sagði, að þetta sjónarmið stjórnar síldarverksmiðjanna um skiptingu útsvarsins, reglurnar varðandi það komi hér fram strax við 1. umr. málsins, sem að sjálfsögðu verður svo kannað í nefnd. Rn. hefur fyrir sitt leyti ekki neina fastmótaða skoðun um þetta efni aðra en þá, sem það hefur talið sjálfsagt að fylgja, að styðjast við skoðun Sambands ísl. sveitarfélaga, sem fer með hin sameiginlegu mál sveitarfélaganna og átti upptökin að því, að þetta mál var tekið til athugunar, og þótti því ekki eðlilegt annað en frv. yrði a.m.k. lagt fyrir Alþ. í því formi, sem sambandið teldi æskilegast, að það væri. Hvort Alþ. telur rétt að breyta að einhverju leyti til, skal ég ekkert um segja, það verður að skoðast. En ég vil þó mjög biðja menn að íhuga, að það verði ekki gert nema í samráði við félmrn. annars vegar og Samband ísl. sveitarfélaga hins vegar, vegna þess að það veit ég, að öllum hv. þdm. er kunnugt, að þessi mál eru mjög flókin og margþætt og þarf að gera sér til hlítar grein fyrir öllum afleiðingum slíkra breytinga, sem kynnu að verða gerðar. En ég vænti þess hins vegar, að í meginefnum geti hv. þdm. fallizt á frv. og þá hugsun, sem í því felst, og telji hana ekki óeðlilega miðað við þær aðstæður, sem ég hef lýst.

Tel ég ekkí ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið að þessu sinni, en legg til, herra forsetl. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr: og félmn.