15.04.1966
Efri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Eins og fram kemur í aths. við lagafrv. þetta og rakið var af hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins í þessari hv. þd., er með frv. þessu lagt til, að reglum um álagningu landsútsvara á nokkur ríkisfyrirtæki verði breytt þannig, að þau verði sett á bekk með hliðstæðum fyrirtækjum, sem rekin eru af einstaklingum eða félögum þeirra, að því er varðar gjaldagreiðslur til sveitarfélaga. Í b-lið 17. gr. l. nr. 51 frá 1964, um tekjustofna sveitarfélaga, eru talin upp ýmis ríkisfyrirtæki, sem ber að greiða 11/2% af heildarsölu sinni í landsútsvar. Fyrirtæki þau, sem þarna er um að ræða, eiga öll að undanskilinni Sementsverksmiðjunni og Áburðarverksmiðjunni hliðstæður í einkarekstri. Hefur af þessu leitt mikið misræmi í gjaldagreiðslum þessara ríkisfyrirtækja annars vegar til sveitarfélaganna og hins vegar greiðslum sams konar fyrirtækja í einkarekstri og þetta hefur þó orðið sérstaklega áberandi hvað snertir síldarverksmiðjurnar. Í c-liðum 2. og 3. gr. í frv. er því lagt til, að þessi fyrirtæki, sem eru nánar tiltekið Síldarverksmiðjur ríkisins, Viðtækjaverzlun ríkisins, Landsmiðjan og Ríkisprentsmiðjan Gutenberg, skuli greiða landsútsvör, sem ákveðin séu með sama hætti og tekjuútsvör félaga, þó þannig, að um útsvör þeirra gildi hinn lögboðni útsvarsstigi án álags eða afsláttar, þó að slíku kunni að vera til að dreifa um útsvör almennt í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Jafnframt því, að þessum ríkisfyrirtækjum er skipað á bekk með einkafyrirtækjum varðandi útsvarsgreiðslur, er í 1. gr. frv. lagt til, að svo verði einnig um greiðslur aðstöðugjalds, en samkv. núgildandi l. eru þessi fyrirtæki undanþegin aðstöðugjaldi. Í 1. gr. frv. er sem sé lagt til, að heimilað verði að leggja aðstöðugjöld á þessi fyrirtæki.

Eins og frá greinir í nál., sendi heilbr.- og félmn. frv. stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga til umsagnar, og enn fremur mættu á fundi n. ráðuneytisstjórinn í félmrn., Hjálmar Vilhjálmsson, og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Jónas Guðmundsson, og ræddu nm. við þá ýmis atriði, sem á góma hafði borið í n. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sendi svo frv. til umsagnar fulltrúaráðsfundi sambandsins, sem var haldinn hér í Reykjavík dagana 10. og 11. marz, og í bréfi formanns þess til n., dags. 15. f. m., skýrir hann frá því, að fundurinn hafi gert um það svofellda samþykkt:

„Fulltrúaráðsfundur Sambands ísl., sveitarfélaga, haldinn 10. og 11. marz 1966, mælir með því, að Alþ. samþ. frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 51 1964, sem nú liggur fyrir Alþingi.“

Heilbr.- og félmn. hefur rætt frv. á nokkrum fundum og leggur til, að það verði samþ. með einni breytingu, sem n. flytur till. um og prentuð er í nál. á þskj. 468, og skal ég nú gera nokkra grein fyrir þeirri brtt. Brtt. er flutt að beiðni Sambands ísl. sveitarfélaga og er við 15. gr. tekjustofnalaganna. Í þeirri gr. ræðir um hlutverk jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Efni brtt. er það, að inn í e-lið gr. bætist ákvæði um, að greiða skuli 1/2% af árlegum tekjum jöfnunarsjóðs til Sambands ísl. sveitarfélaga vegna starfsemi sambandsins. Í bréfi formanns sambandsins til n., dags. 14. f.m., er frá því skýrt, að á fundi fulltrúaráðs sambandsins, þeim sem ég áður nefndi, hafi verið samþ. einróma að fara þess á leit við heilbr.- og félmn. Ed., að hún flytti þessa brtt. við frv., og fylgdi bréfinu grg. um þörf sambandsins fyrir þær tekjur, sem þarna er farið fram á að sambandið fái vegna starfsemi sinnar. Tekna til að standa undir starfsemi sambandsins er nú að langsamlega mestu leyti aflað með ákveðnu gjaldi frá sveitarfélögunum, sem í sambandinu eru, sem eru svo að segja öll sveitarfélög á landinu, og þetta gjald nemur nú 3 kr. á hvern íbúa í sveitarfélagi. Þetta gjald er ákveðið á landsþingum sambandsins, sem haldin eru á fjögurra ára fresti, árið eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar, og er bundið 4 ár fram í tímann. Breytingu á þessu gjaldi yrði fyrst hægt að gera á næsta ári eða á landsþingi 1967, og breytingar kæmu ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1968. Reyndin hefur orðið sú, að þetta gjald verður allsendis ófullnægjandi, þegar fer að líða á fjögurra ára tímabilið, og það þó að starfsemi sambandsins sé í rauninni langtum þrengri stakkur skorinn en æskilegt er. S.l. ár var rekstrarhalli sambandsins þannig á 2. hundrað þús. kr., og í fjárhagsáætlun sambandsins fyrir yfirstandandi ár, sem afgr. var á fulltrúaráðsfundinum í s.l. mánuði, er reiknað með rekstrarhalla á 2. hundrað þús. kr. Það var þó ljóst öllum fulltrúum, sem á fundinum voru, að áætlunin var óraunhæf, nema horfið yrði þá að því ráði að draga verulega úr starfsemi sambandsins. En þar sem engin vissa var fyrir meiri tekjum en þar voru áætlaðar, taldi fundurinn þó rétt að samþykkja áætlunina, svo naum sem hún var, því að óráð mætti telja, að stofnað yrði til meiri rekstrarhalla en þar er áætlaður. Hins vegar vildi fundurinn treysta því, eins og segir orðrétt í samþykkt frá fundinum, „að Alþ. verði við tilmælum fulltrúaráðsins um að lögfesta tillag úr jöfnunarsjóði til sambandsins þegar á þessu ári, svo ríflegt, að stjórn þess fái þar fé til ráðstöfunar, sem rýmkað geti starfsmöguleika sambandsins á árinu frá því, er áætlunin leyfir, og orðið einnig viðunanlegt framlag vegna húsnæðismála þess.“

Ég skal nú rekja nokkuð aðalatriði rökstuðnings sambandsins fyrir aukinni tekjuþörf, en í grg. segir m.a.:

„Störf sambandsins í þágu sveitarfélaganna fara sífellt vaxandi, og sambandið tekur að sér meira og meira af fyrirsvari sveitarfélaganna, sem áður var hjá einstökum sveitarfélögum eða sýslunefndum, þar sem miklu handhægara er að afla gagna og upplýsinga á vegum þess en með því að snúa sér til margra aðila um sama málefnið. Þetta hefur óhjákvæmilega í för með sér aukinn kostnað, sem ekki verður annars staðar tekinn en úr sjóðum sveitarfélaganna sjálfra. Þá telur Samband ísl. sveitarfélaga það einnig skyldu sína að beita sér fyrir framkvæmd ýmissa verkefna. sem óhjákvæmilegt er að leysa af hendi og aðrir mundu tæpast beita sér fyrir, svo sem útgáfu nauðsynlegra handbóka fyrir sveitarstjórnir og útgáfu tímarits um sveitarstjórnarmálefni, ráðstefnuhaldi, fundum og námskeiðum um einstök málefni sveitarfélaganna. Það fer stöðugt í vöxt, að sambandinu sé gert að nefna menn í stjórnir eða nefndir til ýmissa starfa, svo og að láta í té umsagnir um ýmis málefni sveitarfélaga, ýmist fyrir innlenda aðila, þar með Alþ. og ríkisstj., eða erlenda, svo sem sveitarstjórnaþing Evrópuráðsins, alþjóðasamband sveitarfélaga o.fl. Fylgir þessum verkefnum oft verulegur kostnaður, því að greiða verður fyrir þessi störf og hafa verulegt umstang vegna gagnasöfnunar og loks að kosta þýðingu þeirra á erlend mál, þegar erlendir aðilar eiga hlut að máli. Þá skal enn fremur á það bent, að árið 1972 er 100 ára afmæli sveitarstjórnar á Íslandi í þeirri mynd, sem nú er. Telur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sjálfsagt, að gefin verði út af því tilefni saga íslenzkrar sveitarstjórnar og vandað til verksins, svo sem föng eru á. Stendur það engum nær en sveitarfélögum landsins að standa undir því verki og Sambandi ísl. sveitarfélaga að hafa þar um forgöngu. Loks skal það tekið fram, að sambandið býr við alls kostar ófullnægjandi húsnæði og verður með einhverjum hætti að leita á náðir sveitarfélaganna um lausn þess vandamáls nú þegar á yfirstandandi ári.“

Til þess að leysa þau fjárhagsvandamál sambandsins, sem hér hafa verið talin, og önnur, sem ótalin eru eða síðar koma fram, telur stjórn sambandsins eðlilegustu og umsvifaminnstu leiðina vera þá að nota heimild þá, sem veitt er í e-lið 15. gr. tekjustofnalaganna, með því að ákveða til frambúðar vissa prósentu af þeim tekjum sveitarfélaganna, sem í jöfnunarsjóð renna. En í e-lið 15. gr. l. um tekjustofna sveitarfélaga segir, að verja megi fé úr sjóðnum til að styrkja eftir ákvörðun ráðh. tilraunir til að koma betra skipulagi og meira samræmi í framkvæmdir sveitamálefna og samstarf sveitarfélaga. Síðan er að því vikið, að engu fé hafi verið varið samkv. þessu síðasta lagaákvæði, sem nefnt var, til þess að styrkja samstarf sveitarfélaga, en hins vegar sambandinu tvisvar verið veittur smástyrkur, í annað skiptið til að gefa út sveitarstjórnarmannatal. en í hitt skiptið handbók sveitarstjórna. Þá bendir sambandið á, að það sé ekki verið að biðja um neinn styrk af ríkisfé, heldur að Alþ. veiti heimild til, að sveitarfélögin taki af sínu eigin fé í jöfnunarsjóði brot af hundraðshluta til að standa undir útgjöldum, sem sameiginleg samtök þeirra hljóta óhjákvæmilega að hafa. Þá er vakin athygli á því, að síðan 1963, þegar landsþing sambandsins ákvað gjaldið 3 kr. á íbúa, hafi tekjur og gjöld sveitarfélaganna í sambandinu stórlega aukizt, en á sama tíma hafi aftur á móti tekjur sambandsins frá sveitarfélögunum ekki hækkað nema sem svarar fólksfjölgun. Greinargerð þessari lýkur svo með þessum orðum:

„Af því, sem nú hefur verið sagt, er ljóst, að yfir starfsemi sambandsins vofir svo til alger stöðvun, verði ekki úr fjárhagsörðugleikum þess bætt með einhverjum hætti nú þegar.“

Það er ástæða til að vekja athygli á því, að húsnæðismál sambandsins, sem þarna eru einmitt nefnd í grg., eru þau mál, sem valdið hafa stjórn þess hvað mestum áhyggjum upp á síðkastið, og verður nú ekki undan því komizt, að sambandið geri ráðstafanir til þess að komast í viðunandi húsnæði til frambúðar eða m.ö.o. að ná eignarhaldi á húsnæði fyrir skrifstofur sínar og starfsemi. Þær tekjur, sem hér er lagt til að sambandið fái, munu nema um það bil 1 millj. kr. á ári, miðað við tekjur jöfnunarsjóðsins, eins og nú háttar. Það kæmi þá að sjálfsögðu til kasta landsþings sambandsins á næsta ári að ákveða, hvað verða skuli um 3 kr. nefgjaldið. eftir að sá tekjustofn er fenginn, sem hér er lagt til að sambandið fái.

Eins og fram kemur í nál., voru þrír nm., þeir hv. 9. þm. Reykv., hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 8. landsk., fjarstaddir, þegar málið var afgr. í n., og eru þeir að sjálfsögðu óbundnir af nál. og þeirri brtt., sem á þskj. 468 greinir frá.