15.04.1966
Efri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gat þess, að Samband ísl. sveitarfélaga hefði ekkert haft við þetta frv. að athug, og það er rétt hjá hæstv. ráðh. Það er í sjálfu sér ekki undarlegt að mínum dómi. Samband ísl. sveitarfélaga fer með heildarmálefni sveitarfélaganna, sameiginleg mál sveitarfélaganna allra í landinu, og féð, sem um er að ræða, rennur hvort eð er óskipt í jöfnunarsjóð sveitarfélaga. En í þessu sambandi datt mér í hug að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort álits þeirra sveitarfélaga hefði verið leitað, sem þetta mál skiptir mestu. Það er vitanlegt, að það eru a.m.k. nokkrir kaupstaðir, kannske önnur sveitarfélög, þar sem ríkisrekin fyrirtæki af þessu tagi eru, en þessi sveitarfélög eru tiltölulega fá. Hefur þeirra álits verið leitað í sambandi við samningu þessa frv., og hvað hafa þau til málanna að leggja? Ég er ekki að segja, að það eigi endilega að fara eftir því, sem einstök sveitarfélög óska í þessu efni. en mér finnst a.m.k. vera rétt, að þeirra álits sé leitað og aðilar kynni sér viðhorf þeirra til þessa máls. Þess vegna vil ég hér með beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., hvort álits þessara sveitarfélaga hafi verið leitað og hvert álit þeirra hafi þá verið.