22.04.1966
Efri deild: 67. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál er búið að vera nokkuð lengi hér til meðferðar í hv. d., og það er ástæðulaust að leyna því, að það stafar af nokkrum ágreiningi, sem verið hefur varðandi viss atriði málsins. Breytingin, sem í þessu frv. felst, er, eins og hv. þdm. er kunnugt, sú, að gert er ráð fyrir, að viss fjöldi fyrirtækja verði skattlagður hér eftir sem um einkafyrirtæki væri að ræða, en að öðru leyti er ekki breytt grundvallarreglum, sem um landsútsvör gilda varðandi skiptingu og önnur atriði. Þá eru eftir tvö fyrirtæki, sem skilin voru eftir í b-flokki b-lið 17. gr., Áburðarverksmiðjan og Sementsverksmiðja ríkisins. Og á það hefur mjög verið sótt, einkanlega af talsmönnum Akraneskaupstaðar, að þarna yrði nokkur breyting á gerð með það í huga, að þetta sveitarfélag fengi nokkru meira í sinn hlut, og að sanngjarnt yrði að teljast, að skattgreiðslur þessara tveggja verksmiðja yrðu einnig eitthvað hækkaðar. Ég skal ekki langt út í það mál fara, en það kom í ljós við athugun málsins, sem hv. þdm. mun vafalaust vera ljóst öllum, sem að meira og minna eru kunnugir sveitarstjórnarmálum og sveitarstjórnartekjustofnalögum, svo að ég noti langt orð, að þetta var ekki einfalt í framkvæmd og flestar till., sem fram voru bornar til úrbóta um það efni, rákust á það grundvallaratriði, að þær hefðu leitt til þess, að haggað yrði meginundirstöðum þeim, sem landsútsvör hvíla á. Það hefur hins vegar orðið niðurstaða málsins eftir viðræður bæði fulltrúa Akraneskaupstaðar og félmrn. við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, að það væri auðið að gera á þessu eina breyt., án þess að hagga neinum grundvallaratriðum, að vísu breytingu, sem þessar tvær verksmiðjur eru út af fyrir sig ekki mjög hrifnar af, því að það eykur þeirra útgjöld, en mundi ekki hagga þeirri undirstöðu, sem landsútsvarskerfið byggist á. Og þessi breyting er í því einfaldlega fólgin, að landsútsvar þessara stofnana tveggja, Áburðarverksmiðju og Sementsverksmiðju, verði hækkað úr 1 1/2% af heildarsölu stofnananna í 2%. En það er það hámark, sem er á aðstöðugjöldum. Ég hef fyrir mitt leyti talið, að það væri auðið að fallast á þessa breytingu, þar sem hún raskaði ekki neinum grundvelli löggjafarinnar, og jafnframt vil ég taka það fram, að ég mun í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga beita mér fyrir nánari athugunum á landsútsvörunum yfirleitt vegna ýmissa aths., sem fram hafa komið, og þeirra breyt., sem hér er um að ræða og gera það nauðsynlegt, að það kynni að þurfa að athuga fleiri þætti þessa máls, og verður að því stefnt, að þeirri heildarathugun yrði lokið fyrir næsta þing.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að sú breyt. verði á frv. gerð nú, að í staðinn fyrir 1 1/2% í 3. gr. frv., staflið b, þ.e.a.s. varðandi þessi tvö fyrirtæki, sem ég nefndi, komi 2%. Því miður hefur ekki unnizt tími til þess að prenta þessa till. og útbýta henni og verð ég því að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni. En ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. þdm. geti fallizt á þessa breytingu, úr því að hún getur leitt til þess, að samkomulag að öðru leyti náist við þá aðila, sem telja sig hér hafa borið skarðan hlut frá borði, miðað við þær breyt. aðrar, sem hv. þd. er sammála um að gerðar verði á lögunum um tekjustofna sveitarfélaga.