23.04.1966
Neðri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, er, svo sem grg. frv. ber með sér, samið og flutt í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Rökin fyrir frv. eru þau, að ýmsum aðilum innan samtaka sveitarfélaganna hefur þótt hafa komið í ljós óeðlilegt misræmi í sambandi við gjöld til sveitarfélaganna frá ýmsum ríkisstofnunum, miðað við sambærileg einkafyrirtæki, og á þetta fyrst og fremst við Síldarverksmiðjur ríkisins. Í grg. frv. eru tekin dæmi þess, hversu geysilegur munur er á útsvarsgreiðslum, annars vegar einkaverksmiðja á tilteknum stöðum, einkanlega hefur þetta komið fram á Austurlandi, og ríkisverksmiðja á sömu stöðum. Þetta hefur leitt til þess. að innan Sambands ísl. sveitarfélaga var sett á laggirnar sérstök n. bæjarstjóra og annarra forráðamanna sveitarfélaga, sem í samráði við félmrn. útbjó frv., sem hér liggur fyrir. Með frv., eins og það liggur hér fyrir, er ekki sagt, að þjónað sé öllum þeim áhugamálum, sem fram komu af hálfu einstakra sveitarfélaga, en niðurstaðan varð engu að síður sú innan þeirra samtaka, að samkomulag var um það að mæla með því af þeirra hálfu, að sú breyting yrði gerð á útsvarsl., sem hér er farið fram á. Ég hef lagt á það áherzlu og vil gera það enn hér í þessari hv. d., að breytingar á útsvarsl. eða tekjustofnamálum sveitarfélaga verði ekki gerðar án samráðs við sveitarfélögin, og hef ég því talið eðlilegt að fallast á að flytja frv. í því formi, sem varð ofan á í sveitarfélagasambandinu að mæla með.

Breytingin. sem frv. felur í sér, er sú frá gildandi l., að nokkur ríkisfyrirtæki eru sett við sama borð og einkafyrirtæki mundu vera og eru í sambærilegum starfsgreinum. Hér er sem sagt um að ræða ríkisfyrirtæki, þar sem til eru í landinu sambærileg einkafyrirtæki, og er gert ráð fyrir, að þessi ríkisfyrirtæki sitji þá framvegis við sama borð, þannig að þau greiði tekjuútsvar eins og um einkafyrirtæki væri að ræða og sömuleiðis aðstöðugjald, í stað þess að þau greiða nú landsútsvar, sem er 1 1/2% af heildarsölu. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því, að breyting verði á þeirri reglu, að þessi fyrirtæki greiði, svo sem áður hefur verið, landsútsvar, þannig að hin álögðu útsvör renna eftir sem áður að 3/4 hlutum í jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það mál er miklu víðtækara en svo, að talið hafi verið fært að breyta því eins og nú standa sakir. Það er ekki langt síðan landsútsvör voru tekin upp, og það er mjög rík skoðun hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga, að rétt sé að athuga bað mál mjög vendilega, áður en yrði horfið frá hví að breyta þeim reglum, sem nú gilda um landsútsvör, þar eð það megi segja, að reynslan af þeim hafi yfirleitt verið mjög góð.

Þetta var efni frv., þegar það var lagt fram, og þau rök, sem að baki því lágu. Frv. hefur alllengi verið til meðferðar í hv. Ed., og stafar það fyrst og fremst af því, að fram komu mjög eindregnar óskir frá forráðamönnum Akraneskaunstaðar um það, að reynt yrði að fá svipaða breytingu fram varðandi Sementsverksmiðju ríkisins, en tvö fyrirtæki hafa verið tekin út úr þessum flokki ríkisfyrirtækja, Áburðarverksmiðjan og Sementsverksmiðjan, þar sem þau hafa ekki neinn sambærilegan aðila sér við hlið í einkarekstrinum í landinu, þannig að eðlilegt þótti, að um þau giltu áframt sérreglur. Niðurstaðan hefur orðið sú, að til þess að þurfa ekki að breyta þeim meginreglum, sem landsútsvörin hvíla á og jöfnunarsjóðsákvarðanir, lagði ég til í Ed., eftir að samráð hafði verið haft um það við Samband ísl. sveitarfélaga, að sú breyting yrði gerð varðandi þessi tvö fyrirtæki, Áburðarverksmiðjuna og Sementsverksmiðjuna, að aðstöðugjald fyrirtækjanna, sem er um leið landsútsvar þeirra, hækki úr 1 1/2 í 2%, en önnur breyting verði þar ekki á gerð. Um þetta varð algert samkomulag í hv. Ed., og vildi ég leyfa mér að vonast til, að það gæti einnig orðið hér í þessari hv. deild.

Þá var enn fremur gerð í Ed. sú breyting á frv., sem var eftir mjög ákveðnum óskum Sambands ísl. sveitarfélaga, að 0.5% af árlegum tekjum jöfnunarsjóðs renni beint til Sambands ísl. sveitarfélaga vegna rekstrar sambandsins eftir nánari ákvörðun ráðh. Hér er því um fé að ræða, sem sveitarfélögin raunverulega eiga, og það þótti því sanngjarnt og á það var einróma fallizt í Ed. að verða við þessum óskum sveitarfélaganna. Ástæðan til þess, að þau fóru fram á þetta, er sú, að þetta þótti einfaldari leið til þess að afla þeirra tekna, sem sveitarfélögin að öðrum kosti hefðu orðið undir að standa með ákveðnum tillögum til sambandsins, heldur en þurfa að standa í því að innheimta þessi tillög árlega.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um málið, nema sérstakt tilefni gefist til, en vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.