26.04.1966
Neðri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi láta koma hér fram í tilefni af flutningi þessara brtt.

Ég skil fullkomlega vel þá hugsun, sem að baki þeim liggur að leysa vandamál, sérstaklega Siglufjarðarkaupstaðar, sem á við mjög mikinn vanda að stríða, og sömuleiðis Höfðahrepps eða Skagastrandar, sem á einnig við mikla atvinnuörðugleika að etja. Ég get hins vegar ekki komizt hjá því að benda á, að þau vandamál verða ekki leyst með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, þ.e.a.s. með þeim reglum, sem lagt er til að lögfesta hér um skiptingu útsvara Síldarverksmiðja ríkisins, ekki vegna þess, að það mætti ekki með nokkrum hætti ná auknu fé á þennan hátt, heldur vegna hins, að ef ætti að samþ. reglur sem þessar, er þar gersamlega brotið gegn öllum grundvallarreglum, sem gilda um útsvarsheimtu. Og þó að ég virði fullkomlega þá mætu menn, sem sitja í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, fæ ég ekki séð, að afstaða þeirra í þessu máli geti verið neinn grundvöllur að flutningi slíkrar till., vegna þess að raunar má segja, að sú afstaða hafi verið mjög einkennileg, að fara að leggja til, hvernig þeir gætu mælt með því, ef þessu væri skipt eftir tilteknum reglum. Út í þá sálma skal ég ekki fara. Ég veit, að fyrir þeim, sem að þessu stóðu, hefur gott eitt vakað, en get þó ekki annað en bent á það, sem hv. flm. láðist að vísu að segja, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins væri ekki sammála um þessa afstöðu, þannig að það var ekki einhuga till. um þetta.

En það, sem er þó kjarni málsins, hvað sem líður hennar afstöðu, er það, sem ég vona að hv. flm. geti í raunveruleika fallizt á, þó að þeir hreyfi þessu máli, að fyrri till. þeirra felur í sér svo mikla gjörbyltingu á þeim grundvallarsjónarmiðum, sem gilda varðandi útsvarsálagningu, að það þarf a.m.k. miklu nánari athugun til að gera sér grein fyrir, hvort hægt er að taka upp slíka aðferð, vegna þess að hún gæti auðvitað aldrei gilt eingöngu um Síldarverksmiðjur ríkisins. Það eru mörg fyrirtæki til í landinu. sem hafa starfsemi á fleiri en einum stað, og það hlyti þá að verða að koma til athugunar sem almenn regla, hvort það ætti að taka upp einhverja slíka skiptireglu, sem hér er gert ráð fyrir, og sannast sagna er skiptireglan, — og velt ég, að hv. flm, gera sér grein fyrir því, svo óljós, að ég hygg, að það yrði hárla erfitt að finna, hvernig að ætti að fara.

Varðandi það, að þetta komi ekki að gagni Skagaströnd eða Siglufirði, vil ég ekki fallast á Það, vegna þess að ég vil mega vænta þess og tek alveg undir það, sem ég veit að vakir fyrst og fremst fyrir flm., að það verði reynt að stuðla að því, að þessar síldarverksmiðjur gangi og til þeirra verði flutt hráefni og þær borgi þá með eðlilegum hætti sín útsvör, þannig að málið, eins og það liggur fyrir, er auðvitað mikið hagsmunamál þessara staða, jafnvel þó að þessi brtt. verði ekki samþykkt.

En með hliðsjón af því, sem ég áðan sagði, að hér er um mjög teknísk vandamál að ræða í sambandi við útsvarsálagningu og þær reglur, sem um það gilda, vil ég enn einu sinni ítreka það, sem ég hef áður sagt hér í samþandi við þetta frv., að ég tel það miklu varða, að breytingar séu ekki gerðar í tekjustofnamálum í grundvallaratriðum nema í samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég gerði jafnframt í hv. Ed. grein fyrir því og get gert það hér, að ég mundi vilja beita mér fyrir því, að endurskoðun yrði framkvæmd nú á þessu sumri á landsútsvarsreglunum yfirleitt, til þess að gera sér grein fyrir, hvort ástæða væri til þess að breyta þeim. Og á það þá að sjálfsögðu einnig við síðari lið till., þar sem gert er ráð fyrir, að skiptaprósentunni verði breytt úr 3/4 í 1/2, sem renni til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, að það er einnig svo mikið grundvallaratriði, að Samband ísl. sveitarfélaga hefur á þessu stigi ekki treyst sér til þess að mæla með þeirri breytingu, enda mundi það að sjálfsögðu einnig rýra mjög verulega aðstöðu jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem er til hagsbóta fyrir allt landið. Einmitt vegna tilkomu jöfnunarsjóðs hefur tekizt að hlaupa undir bagga með bæði Siglufjarðarkaupstað, Höfðakaupstað og fleiri sveitarfélögum á s.l. ári, m.a. á þann hátt, að Siglufjarðarkaupstaður fékk sem beint framlag úr jöfnunarsjóði 3 3/4 millj. kr. til þess að leysa sinn mikla vanda og Skagaströnd fékk þar 800 þús. kr. og tvö önnur sveitarfélög, sem í rauninni njóta einskis góðs af því, sem hér er verið að ræða um og hafa ekki slik fyrirtæki innan sinna vébanda, fengu einnig framlag úr þessum sjóði, þannig að það er áreiðanlegt, að jöfnunarsjóðurinn sem slíkur og landsútsvörin og hugsunin, sem bak við þau liggur, er það þýðingarmikið, að við megum ekki verða til þess að spilla þeirri hugsun, þó að okkur þyki kannske ekki allt hafa náðst með þeirri breyt., sem hér er gert ráð fyrir, sem einstaka þm. hefðu viljað óska fyrir sína staði. Ég hef því mjög viljað leggja áherzlu á það, að hv. d. geti fallizt á að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir óbreytt.