26.04.1966
Neðri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég má til með að taka það fram, vegna þess að ég á sæti í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og rætt var nokkuð um það áðan, hver afstaða síldarverksmiðjustjórnarinnar væri til þessa máls, að ég mælti með þessu frv. í síldarverksmiðjustjórninni óbreyttu, eins og það liggur hér fyrir, og tel langskynsamlegast að samþ. frv. óbreytt.

Ég vil benda á, að forráðamenn þeirra bæjarfélaga, sem hér eiga hlut að máli, hafa á undanförnum árum barizt fyrir því, að það yrði breytt reglunum um greiðslur af rekstri Síldarverksmiðja ríkisins til bæjar- og sveitarsjóðanna. Og ég veit ekki betur en forráðamenn þessara sveitarfélaga hafi verið sammála um að reyna að fá það í lög, að þessar stofnanir greiddu eftir hliðstæðum reglum og annar atvinnurekstur á hverjum stað til sveitarsjóðanna.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í aðaldráttum byggt á þessari hugsun, að þessi atvinnufyrirtæki greiði hliðstætt og annar atvinnurekstur á staðnum og þá til þess hrepps eða þess kaupstaðar, þar sem hver verksmiðja um sig starfar. Þetta sýnist mér og sýndist líka, þegar þetta var til meðferðar í síldarverksmiðjustjórninni, vera eini réttláti grundvöllurinn, og ef farið væri út af þessum grundvelli, mundi verða mjög erfitt að finna jörð til þess að standa á, og þá yrðu það ekki aðeins, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, síldarverksmiðjur, sem ættu að koma undir slíkt, heldur ætti það þá einnig að gilda um ýmis fyrirtæki, sem hafa rekstur á mörgum stöðum í landinu, að ekki væri greitt á hverjum stað miðað við þann rekstur, sem þar er.

Ég skal ekki fara út í meting á milli héraða um þessi málefni, en mér hefur alltaf sýnzt reglan í frv. vera eina reglan, sem væri sanngjörn, og sú eina, sem hugsanlegt væri að fóta sig á, og ég hygg, að hún sé alveg í samræmi við þann anda, sem upphaflega hefur ríkt í þessum málum, sem sé að þessi fyrirtæki greiddu hliðstætt við önnur fyrirtæki á staðnum.

Ég vil svo vísa til þess, sem reyndar hefur komið hér áður fram í sambandi við þetta mál, að það mun hafa orðið samkomulag um það hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga að mæla með þessu frv. eins og það liggur fyrir, og þar munu vera fulltrúar frá öllum þeim byggðarlögum, sem hér eiga hlut að máli. Ég vil leggja áherzlu á það, sem kom fram hjá hv. fyrra flm. brtt., að þetta frv. er stór ávinningur fyrir bæjarfélögin og sveitarfélögin, hvernig sem fer um skiptingartill. þeirra félaga. Ég mæli með því, að frv. verði samþ. óbreytt, og tek undir með hæstv. fjmrh.