26.04.1966
Neðri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það verður að afsaka við nýliða í þinginu, að þeir eru ekki fyllilega búnir að gera sér ljóst, hversu röggsamur forseti Nd. er, og kveðja sér þá e.t.v. ekki eins snögglega hljóðs og skyldi og þörf er á.

Ég skal koma á móts við forseta og reyna að vera stuttorður og ekki tefja þær umr., sem hér hafa farið fram um þessi mál.

Ég vil strax lýsa því yfir, að ég tel, að frv. það, sem hér liggur fyrir um tekjustofna sveitarfélaga og samkomulag er um innan Sambands ísl. sveitarfélaga, er til bóta fyrir sveitarfélögin almennt. Það, sem vakir fyrir okkur flm. þeirrar brtt., sem er á þskj. 579, er að bæta nokkuð hag og aðstöðu tveggja sveitarfélaga, Siglufjarðar og Skagastrandar. Það er ekkert launungarmál, og þessar brtt. bera það með sér. Við berum þær fram skv. áskorun frá bæjarstjórn Siglufjarðar. Og ég veit ekki betur en þar hafi fulltrúar allra stjórnmálaflokka, sem eiga sæti í bæjarstjórninni, staðíð að þeim till. Ég vil vekja athygli á því, sem ég held að hv. alþm. viti ekki, að meðalútsvar, sem Síldarverksmiðjur ríkisins greiddu Siglufjarðarkaupstað frá 1952—1961, er hvorki meira né minna 150 þús. kr. á ári. Það sjá náttúrlega allir hv. alþm., hversu fjarstæðukenndar þessar upphæðir eru: 150 þús. kr., meðalútsvar á ári frá 1952—1961 frá einu stærsta fyrirtæki landsins. Það skal að sjálfsögðu viðurkennt og vakin athygli á því, að hér var um að ræða síldarleysisár. En það ber líka að hafa í huga, að á þessum síldarleysisárum þurfti Siglufjarðarkaupstaður að setja hundruð þúsunda í gatnagerðir. m.a. vegna þessara verksmiðja. Það þarf að halda uppi brunavörnum, sem kosta tugi þúsunda fyrir svo lítið bæjarfélag. Og þó að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi greitt og greiði skv. lögum vatnsskatt, þá er það sáralítil upphæð, ég hef þá upphæð ekki hér tiltæka og man hana ekki nákvæmlega, en það er lítil upphæð, sem verksmiðjurnar hafa greitt í skatta. En verksmiðjustjórnin hefur engu að síður sagt við Siglufjarðarkaupstað: Ef vatnsból eru ekki nægileg til að tryggja vinnslu í verksmiðjunum, ef nægileg síld berst, þá er Siglufjarðarkaupstaður ábyrgur fyrir slíkri stöðvun. Og á árunum kringum 1950—1955 lagði Siglufjarðarkaupstaður í vatnsvirkjunargerð vegna síldarverksmiðja á staðnum, sem kostaði hundruð þúsunda, til að tryggja fyrir sitt leyti rekstrargrundvöllinn.

Ég vil bara vekja athygli á þessu til að benda hv. alþm. á það, hvernig viðskipti Siglufjarðarkaupstaðar og síldarverksmiðjanna hafa verið. Ég hef hér í höndunum tölur, sem sýna, að landsútsvar til Siglufjarðar var árið 1965, eftir breytinguna, 421 þús. kr. En 1961, áður en landsútsvarsfyrirkomulagið kom til sögunnar, greiddu þó S.R. 425 þús. kr. Hvað ætli tilkostnaður allur hjá Siglufjarðarkaupstað 1965 eða 1966 sé á móts við það, sem hann var 1961? Það sjá allir, að þessar tölur tala sínu máli.

Það er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. benti hér á, að Siglufjarðarkaupstaður hefur fengið allmikið fé úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. En ég held, að ef dæmið yrði gert upp, hvað Siglufjarðarkaupstaður hefur fengið frá jöfnunarsjóði sem framlag og frá Síldarverksmiðjum ríkisins í útsvar, kæmi það í ljós, að bæjarsjóður Siglufjarðar hafi farið frekar halloka í viðskiptum við Síldarverksmiðjur ríkisins.

Ég geri mér það ljóst, að þessar till., sem við flytjum á þskj. 579, verða felldar, þær verða felldar eftir þær umr., sem hér hafa farið fram. En ég fagna hins vegar þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh., þar sem hann sagði, að endurskoðun muni fara fram á landsútsvarslögunum á þessu ári.