14.03.1966
Efri deild: 49. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

13. mál, vélstjóranám

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. hafa verið gerð rækileg skil við 1. umr., enn fremur fylgir þessu frv. allýtarleg grg. og skýringar við einstakar greinar þess. Þar kemur í raun og veru allt það fram, sem segja þarf í þessu sambandi, en það er þó rétt að rifja hér upp nokkur aðalatriði.

Lög um vélfræðinám eru frá 1936, og þessi löggjöf er því á yfirstandandi ári 30 ára gömul. Sú löggjöf er fyrir löngu orðin mikið á eftir tímanum, og það var orðin brýn þörf á að endurbæta hana með tilliti til hinnar miklu tækniþróunar, sem átt hefur sér stað í landinu síðustu þrjá áratugi, með tilliti til hins mikla vélstjóraskorts, sem alls staðar ríkir, og með tilliti til þeirra breytinga, sem orðið hafa á skólakerfi þjóðarinnar þessa þrjá áratugi, og svo breytinga á skólakerfinu, sem eru alveg á næsta leiti. Það hefur verið reynt að endurskoða löggjöfina um vélfræðslu frá 1936, en þá tókst ekki samstaða um það, menn greindi svo mikið á, að sú endurskoðun eiginlega fór út um þúfur. En þessi endurskoðun, sem liggur fyrir í þessu frv., hefur sem betur fer tekizt þannig til, að bæði varð sú n., sem samdi þetta frv., sammála um málið og enn fremur þær stofnanir og stéttasamtök, sem þetta mál varða sérstaklega og haft var samráð við um samningu þessa frv.

Það má segja, að það séu þrjú undirstöðuatriði í þessu frv. Í fyrsta lagi það, að öll vélstjóramenntun á landinu er samræmd og er látin heyra undir eina stofnun, vélskólann í Reykjavík og hins vegar mótorfræðinámskeið Fiskifélags Íslands, sem hafa verið tvö, hið minna námskeið og hið meira námskeið. En milli þessara tveggja kennslustofnana, ef svo má segja, hefur ekki verið neitt samstarf, þannig að maður, sem hefur lokið þessum námskeiðum Fiskifélagsins, hefur ekki fyrir það öðlazt neinn rétt til inngöngu í vélskólann, og einnig voru reglurnar þær, að sá, sem hafði lokið hinu fyrra námskeiði Fiskifélagsins, varð gjarnan að bíða í 4 ár og starfa sem vélstjóri, áður en hann fékk rétt til þess að taka hið síðara námskeið. Og auðvitað var sú regla afar óheppileg að hafa námið ekki samfellt. Úr þessu er reynt að bæta með þessu frv. Þessi námskeið Fiskifélagsins voru þannig, að hið minna námskeið fór fram úti um landið á ýmsum stöðum, þar sem Fiskifélagið hafði komið sér upp aðstöðu, en hið meira námskeið fór einvörðungu fram í Reykjavík. En á hinu leitinu var svo vélskólinn með sína þrjá bekki. Eftir þessu frv. verður kerfið þannig, að þessi námskeið Fiskifélagsins eru alveg úr sögunni, og það er gert með fullu samþykki Fiskifélagsins og fiskiþings, en fyrsta námsstigið verður fimm mánaða námskeið, sem halda skal í Reykjavik og eitt eða fleiri eftir þörfum úti á landi til þess að ljúka fyrsta stigi vélstjóranáms. Þetta fimm mánaða námskeið verður hið fyrsta stig vélfræðslunnar skv. þessu frv., og segja má, að þetta fimm mánaða námskeið komi í stað hins minna námskeiðs Fiskifélags Íslands, sem var fjögurra mánaða námskeið. Síðan, þegar þessu námskeiði lýkur, tekur vélskólinn við, 1. bekkur, síðan 2. og 3. bekkur, en reyndar er það svo, að inn í 1. bekk geta menn þó komizt á annan hátt en að ljúka þessu 5 mánaða námskeiði, og skal ég síðar víkja að því. En það má því reyndar segja, að eftir þessu frv. gegni 1. bekkur vélskólans ekki einvörðungu sínu gamla hlutverki sem 1. bekkur vélskólans, heldur hafi hann einnig tekið við hlutverki meira námskeiðs Fiskifélags Íslands, og það er tvímælalaust til bóta, að vélstjórafræðslan í landinu sé þannig komin í hendur einnar stofnunar.

Annað undirstöðuatriði þessa frv. er, að það eru rýmkuð mjög inntökuskilyrði í vélstjóraskólann. Aðalskilyrðið fyrir inngöngu í vélskólann hefur verið skv. gildandi l. frá 1935, að umsækjandi hafi lokið iðnaðarnámi eða sveinsprófi í einhverri grein járniðnaðar. Þessi regla hefur verið ákaflega óheppileg, vegna þess að fyrir vikið hefur það verið svo þröngur hópur, sem hefur átt rétt á inngöngu í skólann, og það hefur heldur alls ekki verið talin nauðsyn á því, að allir þeir, sem lykju vélstjóranámi, hefðu sveinspróf í einhverri járnsmíðagrein. Þetta hefur líka valdið því, að menn hafa komið eldri í skólann en æskilegt væri, því að krafan um að hafa lokið iðnaðarnámi hefur að jafnaði þýtt það, að enginn hefur komið inn í skólann yngri en tvítugur. En skv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að inn í vélskólann geti menn gengið 18 ára að aldri, og margir ungir menn, sem hefðu annars kostar hugsað sér til vélstjóranáms, hafa ekki gengið út á þessa braut vegna þess, hvað þetta nám hefur verið ákaflega langt, vegna kröfunnar um að hafa lokið sveinsprófi í einhverri grein járniðnaðarins, sem er fjögurra ára nám bóklegt og verklegt, og síðan kemur svo vélskólinn með sína þrjá vetur, þannig að þetta er orðið 7 vetra eða jafnvel 7 ára nám, og það hefur átt sinn þátt í því, að aðsókn að skólanum hefur ekki svarað til þarfa atvinnulífsins.

Í þessu frv. er sem sagt þetta skilyrði fellt niður, að menn þurfi að hafa lokið sveinsprófi í einhverri grein járniðnaðarins. En í staðinn má segja, að það sé aðalreglan, þó að um fleiri leiðir sé að velja, að í staðinn hafi umsækjandi lokið þessu 5 mánaða námskeiði, sem ég var að lýsa hér áðan og á að vera fyrsta stig vélstjóranámsins, en einnig getur umsækjandinn komizt í 1. bekk vélskólans með öðrum hætti, þótt hann hafi ekki lokið þessu námskeiði, þ.e. ef hann hefur 2 ára reynslu í meðferð véla eða vélaviðgerðum og hefur staðizt sérstakt inntökupróf í skólann, eða í þriðja lagi, ef hann hefur lokið námi í forskóla iðnnáms í járnsmíðagreinum og hlotið a.m.k. 6 mánaða reynslu þar að auki í meðferð vela eða vélaviðgerðum og enn fremur staðizt sérstakt inntökupróf í skólann.

Það er rétt að taka það fram, að þessar reglur, sem eru settar í frv. um inngöngu í skólann, geta að nokkru leyti verkað aftur fyrir sig á þann hátt, að þeir menn, sem lokið hafa hinu minna námskeiði Fiskifélags Íslands, hinu minna mótorfræðinámskeiði, fá skv. ákvæði í frv. rétt til þess að setjast í 1. bekk vélskólans, og það má ætla, að ýmsir yngri menn, sem hafa lokið þessu minna námskeiði Fiskifélagsins hin síðari ár og eru ekki orðnir fjarhuga frekari skólagöngu, muni nota sér þennan rétt. Enn fremur er sett heimild í frv. til þess, að þeir, sem hafa lokið hinu meira námskeiði Fiskifélagsins, geti setzt í 2. bekk vélskólans. Og það má að sjálfsögðu einnig gera ráð fyrir því, að þeir, sem hafa lokið þessu prófi hin síðari árin, muni nota sér þennan rétt margir hverjir og setjast í skólann, þó að varla sé gerandi ráð fyrir, að hinir eldri menn, sem hafa þessi réttindi, notfæri sér það.

Í þriðja lagi má segja, að það sé undirstöðuatriði í þessu frv., að gengið sé út frá því, að hvert námstig verði grundvöllur mismunandi atvinnuréttinda. Að vísu eru ekki settar neinar reglur um það í þessu frv., það er aðeins sett þessi undirstöðuregla, að það sé grundvöllurinn, en þetta er útfært í frv. um atvinnuréttindi vélstjóra við siglingar, sem einnig liggur fyrir þessari hv. d. En eins og vélstjóralöggjöfin er nú gildandi frá 1936 og svo réttindalöggjöfin, sem er yngri, er það þannig, að menn öðlast ekki nein vélstjóraréttindi út á nám í vélskólanum, eða í reynd öðlast menn það ekki, nema ljúka því námi að fullu, þannig að maður, sem lýkur 1. bekk vélskólans eða lýkur 2. bekk, fær ekki nein vélstjóraréttindi út á það, hann verður að ljúka öllum þremur bekkjunum til þess að öðlast vélstjóraréttindi. Hér er meiningin að breyta að þeir taka ekki 3. bekk, nema annaðhvort veiti viss atvinnuréttindi, og þá er að sjálfsögðu miðað við það, að ekki muni allir þeir, sem til og þannig, að hver bekkur eða hvert námstig enda er ekki þörf fyrir það, að allir þeir, sem stunda vélstjórn, ljúki þremur bekkjum vélskólans og öðlist það, sem maður getur kallað vélmeistararéttindi, heldur hafa atvinnuvegirnir þörf fyrir menn með misjafnlega mikla vélstjórnarmenntun. Það má segja, að það sé þriðja undirstöðuatriðið, sem í þessu frv. felst.

Í þessu frv. eru ýmsar fleiri nýjungar. Það eru t.d. skv. 11. gr. þess tekin upp smíðakennsla í 1. og 2. bekk. Það er m.a. afleiðing af því, að ekki er lengur gerð krafa um, að mennirnir séu járnsmiðir, þegar þeir koma í skólann. Þá er einnig sett inn í þetta frv. heimild fyrir skólann til þess að halda kvöldnámskeið og gefa mönnum kost á að ljúka 1. bekk skólans á tveim vetrum á þann hátt. Þá er einnig nýmæli í frv. að það er sett á stofn skólanefnd við vélskólann, en þeir aðilar, sem skulu nefna menn í skólanefndina, eru Vélstjórafélag Íslands. Mótorvélstjórafélag Íslands, Fiskifélag Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands og svo ráðh., sem skipar formanninn.

Um þetta frv. var fjallað í menntmn., og n. varð sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþykkt, en með tilteknum breyt., sem eru allar í rauninni minni háttar og eru í raun og veru fyrst og fremst leiðréttingar. Þessar brtt. eru á sérstöku þskj., 287.

Fyrsta brtt. er við upphafsorð 1. gr. frv., þar sem segir, að vélstjóranámið skuli vera í fjórum stigum, er verði grundvöllur mismunandi atvinnuréttinda.“ Hér mun vera um að ræða villu, sem hefur slæðzt inn í frv. við prentun þess, því að auðvitað á hér að standa: „vélstjóranám skal vera í fjórum stigum“. Þetta er 1. brtt. og er hrein leiðrétting.

Við 2. gr. er einnig brtt. Það er við 5. tölulið, c-lið, þar sem segir, að umsækjandi fullnægi einu af þremur skilyrðum. — Það er eitt af inntökuskilyrðunum í skólann, að hann hafi lokið eins vetrar námi í forskóla iðnnáms í járnsmíðagrein. N. fékk ábendingu um það frá iðnfræðsluráði, að þarna væri réttara að breyta orðalaginu og segja í staðinn: „verknámsskóla iðnaðar í málmiðnaðargreinum“, það orðalag væri í samræmi við það frv. um iðnfræðslu, sem hér liggur nú fyrir Alþ., og tók n. þessa breytingu til greina. Er hér fyrst og fremst um orðalagsbreytingu, en ekki efnisbreytingu að ræða.

Þá er að lokum 3. brtt. Hún er eingöngu að leiðrétta ártöl. því að þetta frv. var samið á öndverðu árinu 1965, og það var reiknað með, að það yrði borið fram á þinginu í fyrra og gæti þess vegna gengið í gildi á árinu 1965. Þeim ártölum hefur ekki verið breytt, og það hefur dregizt fram á þetta þing að flytja frv., og þess vegna er lagt til, að í staðinn fyrir „15. sept.1965“ komi: 1 júli 1966 og í stað ártalsins 1965 á tveimur stöðum í 2. málsgr. 22. gr. komi ártalið 1966.

Menntmn. sendi þetta frv. til umsagnar margra aðila, og eru allir þeir, sem svöruðu, taldir upp í nál. Reyndar var haft samráð við alla þessa aðila við samningu frv. og endanlega gerð, þá fengu þeir allir að fylgjast með og segja álit sitt. Allir þessir aðilar, sem eru taldir upp í nál., öll þau stéttasambönd og stofnanir hafa mælt með því, að frv. yrði samþykkt. Eftir að þetta nál. var gefið út, kom umsögn frá Landsambandi ísl. útvegsmanna. Þar er hreyft brtt. í þeirri umsögn, og ég tel rétt að gera hana ekki að umtalsefni hér, heldur mundi menntmn. væntanlega athuga hana nánar milli 2. og 3. umr. En ég endurtek svo að lokum, að menntmn. hefur lagt til, að frv. þetta verði samþ. með þeim brtt.. sem ég hef greint frá og eru á þskj. 287.