14.03.1966
Efri deild: 49. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

13. mál, vélstjóranám

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. til l. um vélstjóranám, sérstaklega að járniðnaðarnám og vélstjóranám er nú loks slitið úr tengslum, nema til fullra réttinda fyrir vélstjóra fjórða stigs. Þetta stig hefði sannarlega einnig mátt slita frá iðnnámi en mér skilst, að um það hafi ekki orðið samkomulag og líklega ekki rétt að hreyfa því frekar að svo komnu máli. En þetta verður að sjálfsögðu fyrr eða síðar gert. Þetta er þó smávægilegt miðað við allar þær endurbætur, sem nú eru gerðar til að stytta tíma, sem vélstjóranemi skal nota til verklegrar þjálfunar.

Eflaust má benda á agnúa á þessu lagafrv. En þegar svo stór breyting er gerð á námstilhögun sem hér er, er ekki ólíklegt, að innan tíðar þurfi þessi lög að endurskoðast frekar. Það er líka mikilsverð nýbreytni að færa saman mótornámskeið Fiskifélagsins og vélskólann, allt undir eina skólanefnd í vélskólanum, og viðurkenna mótornámskeiðin sem lið í vélstjóranáminu, svo og að lækka aldurstakmarkið niður í 17 ár til mótorvélstjóranáms.

Frv. þetta ber með sér, að margir menn úr vélstjórastétt hafa lagt hér hönd að verki, og ber að þakka þeim mikla víðsýni, sem frv. ber með sér, svo og að sjálfsögðu hv. 4. landsk. þm., Jóni Þorsteinssyni, sem var formaður nefndar þeirrar, sem samdi frv. Ég vænti, að frv. þetta um vélstjóranám hljóti staðfestingu á yfirstandandi Alþingi.