28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

13. mál, vélstjóranám

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mál þetta er komið frá hv. Ed., sem samþykkti frv. með shlj. atkv. að fengnum meðmælum hv. menntmn. d. Hún hafði fengið um það umsagnir frá ýmsum aðilum, A.S.Í., Fiskifélagi Íslands, iðnfræðsluráði, Mótorvélstjórafélagi Íslands, skipaskoðunarstjóra, Vélstjórafélagi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, og höfðu allir þessir aðilar mælt með því, að frv. næði fram að ganga. Hv. Ed. gerði nokkrar smávægilegar breytingar á frv., sem lúta ekki að efni þess, en frekar að formi.

Ég skal nú í örfáum orðum gera hv. Nd. grein fyrir þeim breytingum, sem í frv. felast. Gildandi lög um kennslu í vélfræði eru frá árinu 1936 og hafa því staðið óbreytt í næstum 30 ár. Sú lagasetning er fyrir alllöngu orðin úrelt, og þessi þriggja áratuga reynsla hefur leitt í ljós ýmsa annmarka á því menntunarkerfi fyrir vélstjóra, sem grundvöllur var lagður að með þessari lagasetningu fyrir tæpum 30 árum. Í landinu hefur átt sér stað stórfelld tækniþróun með ört vaxandi vélakosti til bæði lands og sjávar, og hefur það kallað á fleiri vélmenntaða eða tæknimenntaða menn til starfa. Hins vegar hefur menntunarkerfið ekki reynzt þess umkomið að veita menntun nægilega mörgum vélstjórum, þannig að nú er svo komið, að um það bil helmingur þeirra manna, sem starfa t.d. að vélstjórn á skipaflotanum, hefur þar ekki lögmæt atvinnuréttindi, og þarf ekki um það að fara mörgum orðum, að slíkt ástand er varhugavert og þarf að ráða á því gagngera bót.

Inntökuskilyrði í vélskólann hafa verið starfsemi hans fjötur um fót, fyrst og fremst haft það í för með sér, að miklu færri nemendur hafa komið til náms í vélskólanum en æskilegt er. Það skilyrði, sem mestu hefur varðað og mestur fjötur hefur reynzt um fót starfsemi vélskólans, er það inntökuskilyrði, að nemandinn skuli áður í 4 ár hafa stundað iðnaðarnám í einhverri grein járniðnaðarins. Fjögurra ára undirbúningstími er alveg óþarflega langur tími, ef rétt er á haldið, auk þess sem undirbúningurinn er engin trygging fyrir því, að hann sé á réttu sviði í greinum járniðnaðarins, þannig að það komi að tilætluðu gagni.

Þær breytingar, sem í þessu frv. felast, eru fyrst og fremst fólgnar í því, að gert er ráð fyrir að vélskólinn í Reykjavík skuli framvegis vera eina stofnunin í landinu, sem annast alla vélstjórakennsluna, en hingað til hefur vélstjórakennslan sumpart farið fram í vélskólanum og sumpart verið á vegum Fiskifélags Íslands, þ.e. hið minna og hið meira mótorfræðinámskeið Fiskifélagsins, og hafa engin tengsl verið á milli þessara tveggja kennslustofnana eða tveggja kennslukerfa. Nú er sem sagt gert ráð fyrir því, að öll kennsla í vélfræðum fari framvegis fram á vegum vélskólans.

Önnur meginbreytingin er sú, að gert er ráð fyrir að skipta vélstjóranáminu niður í 4 skýrt aðgreind námstig, þ.e. eitt undirbúningsnámskeið og hina þrjá bekki vélskólans, og að hvert námstig um sig skuli veita sérstök atvinnuréttindi, sem fari vaxandi, eftir því sem námstigið verður hærra. Og í þriðja og síðasta lagi, og það er kannske ekki veigaminnsta breytingin, er gert ráð fyrir því, að rýmkað sé mjög um inntökuskilyrði í vélskólann og slitin að verulegu leyti tengslin milli járnsmíðanáms annars vegar og vélstjóranáms hins vegar. Þó verður ekki hjá því komizt að gera ráð fyrir því, að menn með mjög misjafna undirbúningsmenntun komi í skólann, en úr því hefur verið reynt að bæta með því að taka upp nokkra smíðakennslu í 1. og 2. bekk vélskólans og áskilja sérstök inntökupróf í vissum tilfellum. Lágmarksaldurinn til inntöku í skólann hefur vegna kröfunnar um iðnaðarnámið raunverulega verið 20 ár, en hann er með frv. lækkaður niður í 18 ár. Auk þess verður allt námið fellt saman í eina heild, þ.e. hvert námstigið taki við af öðru. Og sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á því ákvæði frv., sem er breyting frá gildandi reglum, að hvert námstig á framvegis að verða grundvöllur sérstakra atvinnuréttinda, og má því gera ráð fyrir, að þegar þetta kerfi er komið til fullra framkvæmda, verði mjög snögglega stóraukið framboð á mönnum með fullgild vélstjóraréttindi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn., og vildi leggja á það áherzlu, að n. fjallaði sem fyrst um málið, því að ég tel hér vera um mikið nauðsynjamál að ræða, sem æskilegt sé, að þetta þing afgreiði og samþykki sem lög.