12.04.1966
Neðri deild: 68. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

13. mál, vélstjóranám

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Frv. til l. um vélstjóranám er 13. mál Ed., og í meðförum d. voru gerðar nokkrar breytingar á frv.

Lög um kennslu í vélfræði eru frá 1936 og því eðlilegt, að nokkurra breytinga sé þörf á þeim. Stórfelld tækniþróun með ört vaxandi vélakosti, bæði til lands og sjávar, kallar á æ fleiri vel menntaða vélstjórnarmenn, og þörf atvinnuveganna fyrir sérmenntaða menn á því sviði hefur ekki verið fullnægt. Segja má, að ástandið hafi farið versnandi með ári hverju og því orðið að grípa til þess að veita undanþágu frá tilskildum kröfum.

Það er megintilgangur með þessu frv. að leggja grundvöll að hagfelldari vélstjóramenntun með það að markmiði, að vélstjórastéttinni fjölgi, svo að stéttin geti mætt þeirri auknu þörf, sem er og verður fyrir fjölmenna, vel menntaða vélstjórastétt. Við meðferð málsins í hv. Ed. var leitað umsagna margra aðila, eins og fram kemur í nál. á þskj. 457, en breytingarnar, sem Ed. gerði við frv., er að finna á þskj. 368. Inntökuskilyrðin í vélskólann hafa verið starfsemi hans fjötur um fót, það ákvæði sér í lagi, að nemendur skuli hafa stundað iðnnám í einhverri grein járniðnaðarins í 4 ár. Þessi tími er í fyrsta lagi óþarflega langur og auk þess engin trygging fyrir því, að námið fari fram í þeirri grein iðnaðarins, sem hentar sérstaklega fyrir umrætt nám, þ.e.a.s. vélstjóranámið. Meginbreytingin í frv. er því í fyrsta lagi, að nú er gert ráð fyrir því, að Vélskóli Íslands verði framvegis eina stofnunin, sem annist vélstjórakennslu. Hingað til hefur kennslan verið á vegum vélskólans í Reykjavík og á vegum Fiskifélagsins, þ.e. meira og minna mótorfræðinámskeið Fiskifélagsins, og hafa engin .tengsl verið á milli þessara tveggja kennslukerfa. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að skipta vélstjóranáminu niður í 4 skýrt afmörkuð námstig, þ.e.a.s. eitt undirbúningsnámskeið, sem á að taka 5 mánuði, eins og segir í 1. gr., og í öðru lagi 3 bekki vélskólans. Hvert námskeið veitir sérstök atvinnuréttindi, sem verða meiri, eftir því sem námstigið er hærra. Í þriðja lagi og máske veigamesta breytingin er fólgin í því að rýmka mjög inntökuskilyrðin í vélskólann og slíta að verulegu leyti tengslin milli járnsmíðanáms annars vegar og vélstjóranáms hins vegar. Á þskj. 368, í 1. gr., er kveðið á um hin 4 stig námsins, þ.e.a.s. fyrst 5 mánaða námstími, sem ætlazt er til, að Vélskóli Íslands standi fyrir, en geti stofnað til þeirra námskeiða víðs vegar um land, eftir því sem henta þykir hverju sinni. Í 5. gr. frv. er að finna inntökuskilyrði fyrir því að komast á umrædd námskeið. Í 8. gr. eru svo inntökuskilyrði fyrir 1. bekk skólans, og þar er kveðið svo á, að í fyrsta lagi þurfi umsækjandi að hafa lokið einhverju af þrennu, þ.e.a.s. staðizt próf að loknu námskeiði, það er fyrsta stigið, og í öðru lagi að hafa a.m.k. tveggja ára reynslu í meðferð véla eða vélaviðgerðum og staðizt sérstakt inntökupróf í skólann og í þriðja lagi lokið eins vetrar námskeiði í verknámi iðnaðar í málmiðnaðargreinum og hlotið a.m.k. 6 mánaða reynslu að auki í meðferð véla og vélaviðgerðum og enn fremur staðizt sérstakt inntökupróf við skólann. Í 9. gr. er fjallað

um þá, sem lokið hafa meira og minna prófi Fiskifélagsins, og hvernig þeir öðlist rétt samkv. því til að ganga inn í skólann. Í 10. gr. er kveðið á um yfirstjórn vélskólans. Og 11. gr. er um kennslugreinar vélskólans, þar sem taldar eru upp hinar mörgu námsgreinar, og rétt að vekja athygli á því, að þar er gert ráð fyrir því, að smíðar verði teknar upp, og er það til þess að bæta það upp, að nú er vélstjóranámið slitið úr tengslum við járniðnaðarnámið, eins og fyrr er fram tekið.

Menntmn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. og leggur einróma til, að það verði samþ., eins og fram kemur á þskj. 457.