28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

144. mál, alþjóðasamþykkt um varnir gegn óhreinkun sjávar

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er um heimild fyrir ríkisstj. til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar frá 1962 á alþjóðasamþykkt frá 12. maí 1954, um varnir gegn óhreinkun sjávar af völdum olíu, og setja reglur um frekari varnir gegn slíkri óhreinkun sjávar. Þær breytingar, sem í frv. þessu eru fólgnar umfram það, sem Alþ. samþykkti með l. frá 28. des. 1961, ganga allar í þá átt að færa út bannsvæðið hér við Ísland úr 50 sjómílum í 100 sjómílur frá ströndum landsins, þar sem ekki má sleppa olíu eða öðrum slíkum skaðlegum efnum í sjóinn. Eins og fram kom við framsögu fyrir máli þessu, hefur Dýraverndunarfélag Íslands beitt sér eindregið fyrir því, að Ísland gerðist aðili að þessum alþjóðasamningi. En sú breyting er nú enn fremur gerð með frv. þessu, að samkv. 5. gr. frv. er framvegis heimilt að auglýsa gildistöku þeirra breytinga, sem verða á alþjóðasamþykktinni, í Stjórnartíðindum.

Sjútvn. mælir einróma með samþykkt frv., og ég legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.