04.04.1966
Efri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er flutt til efnda á því fyrirheiti, sem ríkisstj. hefur áður gefið um það, að hún hygðist leggja fyrir Alþingi frv. um myndun sjóðs, er hefði yfir mun meira fé að ráða en áður hefur verið veitt til atvinnubóta í strjálbýli landsins, og skyldi þessi sjóður hafa það hlutverk að vinna í svipuðum anda og mótaður var með l. um atvinnubótasjóð. að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og vinna að því, að hægt væri að byggja upp með eðlilegum hætti fjölbreyttara atvinnulíf, þar sem skilyrði væru að öðru leyti fyrir hendi til arðbærra framkvæmda, sem gætu skilað þjóðfélaginu með eðlilegum hætti arði af starfi þess fólks, sem ynni á viðkomandi stað. Með þeirri hugmynd er að sjálfsögðu ekki endilega gengið út frá því, að aldrei megi vera um neinn samdrátt að ræða í byggð landsins, heldur hitt, sem er að sjálfsögðu kjarni málsins, að hvarvetna um landið verði hagnýttir þeir möguleikar, sem fyrir hendi eru til arðbærrar framleiðslu, og reynt, eftir því sem föng eru á, að láta það falla saman, að slík atvinnufyrirtæki séu byggð upp í samræmi við byggðina á hverjum stað. Það þarf að sjálfsögðu ekki að ræða, enda mun það áhugamál allra hv. þm., að reynt sé með öllum tiltækum ráðum að sporna gegn samdrætti byggðarinnar og það er vitanlega svo víða, að þó að það kunni að mega sýna fram á, að það geti verið í bráð hagkvæmara, að fólkið flytjist til annarra byggðarlaga, að miðað við, hversu þjóðinni fjölgar ört, þá má tvímælalaust gera ráð fyrir því, að byggðin þurfi aftur að færast út, og það mundi því valda mjög mikilli röskun á högum þessa fólks, ef þyrfti á þessu stigi að neyða það til að flytja til annarra staða, þar sem atvinna væri í boði, og þannig í bili gera verðlitlar eða verðlausar þær fasteignir, sem það hefur byggt sér upp og lagt álit sitt fé í.

Breyt. í þessu frv. frá þeim starfsháttum, sem verið hafa í sambandi við svokallað atvinnubótafé, sem veitt hefur verið í fjárlögum í mismunandi mæli allt frá árinu 1951, er sú, að gert er ráð fyrir því, að hér eftir verði fyrst og fremst unnið á grundvelli framkvæmdaáætlana, sem undirbúnar verði undir forustu sjóðsstjórnar og á vegum Efnahagsstofnunarinnar. Þetta er gert með hliðsjón af þeirri staðreynd, sem ég hygg að öllum sé ljós, að það er að sjálfsögðu ein brýnasta nauðsyn að gera sér heildarmynd af atvinnuástandinu á hinum ýmsu landssvæðum og héruðum og reyna að finna, hvaða úrræði eru heppilegust á hverjum stað til þess að tryggja byggð á viðkomandi stöðum.

Það er að sjálfsögðu mjög erfitt um það að segja, þar sem ekki liggur endanlega fyrir nein slík framkvæmdaáætlun, þó að ein þeirra fyrir Vestfirði sé langt komin og þegar sé búið að vinna út einn þátt hennar, samgöngubótaáætlunina, þá engu að síður er erfitt að átta sig á því nákvæmlega, hvernig nauðsynlegast væri að haga aðstoð við slíkar framkvæmdaáætlanir og hvaða framkvæmdir það fyrst og fremst væru, sem brýnust þörf væri að stuðla að, með hliðsjón af tilgangi þessa frv. Af þeim sökum hefur sú leið verið valin, sem ég geri ekki ráð fyrir að hv. þdm. hafi út af fyrir sig neitt við að athuga, að ramminn fyrir starfsemi þessa nýja sjóðs, sem hefur verið valið heitið atvinnujöfnunarsjóður, sem á að vera nokkuð táknrænt fyrir það hlutverk, sem hann hefur, að starfsvettvangur sjóðsins er mjög rúmt markaður í 1. gr. hans og gert ráð fyrir því, að sjóðsstjórnin, eftir því sem reynslan sýnir nauðsynlegt, formi þær starfsreglur, sem sjóðurinn starfi eftir, og er það enda í samræmi við það, sem tíðkað hefur veríð með framkvæmd á lánveitingum og styrkjum úr atvinnubótasjóði. En hins vegar verða að sjálfsögðu mörkin þau að halda sér fyrst og fremst innan þeirra framkvæmdaáætlana, sem gerðar verða fyrir einstaka landshluta og þegar er, eins og ég áðan sagði, komið alllangt áleiðis varðandi Vestfirði, og er þegar hafin gerð annarra slíkra framkvæmdaáætlana fyrir Norðurland. Og að sjálfsögðu koma þar til álita í framhaldi af því ýmis önnur byggðarlög í landinu.

Þetta er í meginatriðum tilgangur þessa sjóðs, og það er vert að geta þess til skilnings á hlutverki hans, að honum er ekkí ætlað að koma í stað neinna annarra stofnsjóða atvinnuvega, heldur ætlað að koma til viðbótar við þá stofnsjóði, sem nú þegar eru fyrir hendi, til þess að auðið sé sérstaklega að greiða fyrir því, að atvinnufyrirtæki verði fremur upp byggð þar, sem nauðsynlegt er talið að þau komi vegna atvinnujafnvægis, heldur en ella mundi vera, ef aðeins væri um að ræða þá stofnsjóði, sem til eru og að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að láni jöfnum höndum, hvar sem fyrirtæki eru byggð upp á landinu.

Skv. 2. gr. l. um atvinnujöfnunarsjóð er gert ráð fyrir því, að stofnfé hans myndist með fernum hætti. Í fyrsta lagi, að til hans falli eignir atvinnubótasjóðs, sem um síðustu áramót námu um 116 millj. kr., og var þá búið að afskrifa allverulegar fjárhæðir vegna lánveitinga á sínum tíma til ýmissa framkvæmda sveitarfélaga og annarra, sem ekki var lengur neinn möguleiki að endurheimta. Að vísu hafa, að frádregnum styrkjum, sem hafa verið mikill minni hluti af ráðstöfun atvinnubótafjárins, verið tekin skuldabréf fyrir öllum þeim lánum, sem veitt hafa verið, en hins vegar hefur skipulagsbundin innheimta þessara lána ekki hafizt, fyrr en eftir að atvinnubótasjóður tók til starfa.

Ég tel sjálfsagt, að þetta fé sé innheimt, eftir því sem mögulegt er, og gangi þá til þess að endurlána, vegna þess að það yrði í ýmsum tilfellum mjög handahófskennt og algerlega óeðlilegt, að það væri verið að gefa einstökum aðilum þetta fé. Hinu er ekki að leyna, að í senn má gera ráð fyrir því, enda er gert ráð fyrir því í lögum um atvinnubótasjóð, að það þurfi að endurskoða lánstímann og lengja hann í mörgum tilfellum, og jafnframt eru enn þá fjárhæðir, sem gera má ráð fyrir að þurfi að gefa eftir ýmissa orsaka vegna, en sem meginstefnu tel ég sjálfsagt, að unnið verði að því að innheimta þetta fé.

Í áætlunum þeim, sem gerðar eru um ráðstöfunarfé hins nýja atvinnujöfnunarsjóðs, er ekki gert ráð fyrir innheimtu á atvinnubótasjóðslánum þeim, sem ég nefndi, þessum 116 millj. að stofni til, eins og þau voru um síðustu áramót, hærri fjárhæð en að meðaltali 4 millj. kr. á ári, og verður að teljast, að sú áætlun sé þess vegna mjög hófsamleg og eigi ekki að vera ástæða til þess að gera ráð fyrir, að sú fjárhæð geti ekki náðst. Að vísu hefur innheimtan þau 3 ár, sem liðin eru síðan innheimtutilraunir hófust skipulega, ekki skilað þetta háum fjárhæðum, en þar hefur þó fyrst og fremst verið um að ræða innheimtu á vöxtum og raunar ekki skipulagsbundna innheimtu nema á þeim lánum, sem veitt voru eftir að atvinnubótasjóður tók til starfa, af því að samningum hefur ekki verið lokið varðandi nauðsynlegar breytingar á hinum eldri lánum, sem sum hver eru öll fallin í gjalddaga, en þessi þrjú ár, — og raunar eru það nú ekki nema tvö ár, því að fyrsta árið innheimtist mjög lítið, — síðan atvinnubótasjóður tók til starfa, þá hefur innheimzt á áttundu millj. kr. af hinum eldri lánum, og er meira en helmingurinn af þeirri fjárhæð vaxtagreiðslur, því að lögð var áherzla á það í byrjun að innheimta vexti þrjú ár aftur í tímann, en láta höfuðstólinn heldur bíða.

Þessi eign atvinnubótasjóðs er sem sagt fyrsta atriðið varðandi stofnfé þessa nýja sjóðs. Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram á tíu árum 150 millj. kr. Í sambandi við atvinnubótasjóðinn var gert ráð fyrir, að það væru 100 millj., og fjárveiting ríkissjóðs skv. þessu ákvæði var hækkuð í fjárl. yfirstandandi árs úr 10 millj. í 15 og gert ráð fyrir, að slík fjárveiting verði veitt 10 næstu ár.

Þá eru loks tveir tekjuliðir, sem gert er ráð fyrir að renni til sjóðsins sem stofnfé, og það eru tvenns konar mótvirðissjóðsframlög. Annars vegar eru það 55 millj. af óafturkræfu framlagi Bandaríkjastjórnar, sem veitt var Íslandi 1960. að sá hluti greiðist sjóðnum á árunum 1966—69. Ráðstöfun þessa fjár var háð samþykki Bandaríkjastjórnar, en það samþykki hefur þegar verið veitt, og er því auðið að tryggja þetta fé, eins og hér er getið um.

Þá er í fjórða lagi gert ráð fyrir, að renni til sjóðsins eftirstöðvar af mótvirðissjóði, sem greiða átti til Framkvæmdabankans skv. 4. gr. laga um þann banka. Þar er gert ráð fyrir, að sá mótvirðissjóður greiðist á alllöngu tímabili, eða aðeins um 3.6 millj. kr. á ári. Hins vegar er í sambandi við frv. þetta áformað að hraða þeim greiðslum, annaðhvort að losa þær örar en upphaflega var gert ráð fyrir eða þá að afla bráðabirgðalána út á það með einhverjum hætti. sem er mjög auðvelt að gera, þannig að þessi hluti mótvirðissjóðsins greiðist atvinnujöfnunarsjóði á 4 árum, sem ella mundi greiðast á 10 árum, eftir hinu gamla ákvæði.

Þessi tvenns konar mótvirðissjóðsframlög verða óafturkræf framlög til atvinnujöfnunarsjóðs, og samkvæmt þessu yrði stofnfé sjóðsins 364 millj. kr. Ef gert er ráð fyrir því, að innheimtist, eins og ég áðan sagði. 4 millj. á ári af hinum eldri atvinnubótasjóðslánum, sem virðist vera mjög raunsæ tala, og í annan stað reiknað með, að 5% af öllu ráðstöfunarfénu sé árlega varið til styrkja, þá má gera ráð fyrir því, að höfuðstóll atvinnujöfnunarsjóðs geti verið á árinu 1975 orðinn um 545 millj. kr. Að sjálfsögðu er mjög erfitt að áætla, hvaða fjárhæðir verði veittar sem styrkir, en þær fjárhæðir hafa síðustu árin ekki numið mjög verulegu fé. Enn fremur er vert að geta þess, að í heimildarákvæði, sem sett hefur verið nú inn í lögin um atvinnuleysistryggingasjóð, er gert ráð fyrir því, að heimilt verði að verja fjórða hluta af vaxtatekjum þess sjóðs til vaxtalausra lána, og raunar einnig gengið út frá því, að um endurgreiðslu þurfi ekki að vera að ræða á því fé, þó að það sé ekki beint tekið fram í lögunum, og að því fé verði að einhverju eða jafnvel öllu leyti ráðstafað í gegnum atvinnubótasjóð. Þá verður að telja eðlilegt, að einmitt það fé fyrst og fremst renni til styrkveitinga, vegna þess að atvinnuleysistryggingasjóður hefur að sjálfsögðu fyrst og fremst það hlutverk að koma í veg fyrir atvinnuleysi, og má segja, að það þjóni mjög tilgangi þess sjóðs að koma í veg fyrir það, þegar sérstaka erfiðleika ber að höndum, tímabundið, í hinum ýmsu héruðum, að til atvinnuleysis komi, heldur verði stutt að því með öðrum ráðstöfunum, að hægt sé að halda uppi atvinnulífi með eðlilegum hætti, sem að sjálfsögðu er á allan hátt skynsamlegra en þurfa að fara að leggja fram atvinnuleysisstyrki. Vil ég í því sambandi sérstaklega geta þess, enda þótt það mál sé ekki endanlega afgreitt, að það hefur verið gengið út frá því, að innan ramma þessarar sérstöku aðstoðar félli aðstoð, sem veitt hefur verið nú í vetur til útgerðar fyrir Norðurlandi í samræmi við samkomulag, sem gert var af ríkisstj. við verkalýðsfélögin þar á s.l. ári í sambandi við kjarasamninga þá, og gert er ráð fyrir, að varið verði í vetur 6—7 millj. kr. til eflingar útgerðar 5 þessu svæði, og er gengið út frá því, að þess fjár verði aflað með þeirri sérstöku heimild, sem nú hefur verið sett í lögin um atvinnuleysistryggingasjóð, og að því verði ráðstafað í gegnum atvinnubótasjóð þá, en að sjálfsögðu í gegnum atvinnujöfnunarsjóð, ef þetta frv. um hann nær lögfestingu hér á Alþ. Það má gera ráð fyrir því, a.m.k. hefur það verið hugsun ríkisstj., og ég held, að það sé ekki fjarri hugsun forráðamanna atvinnuleysistryggingasjóðs, sem um þetta hefur verið samið við, að einmitt Þessi hluti vaxtanna verði notaður til áhættulána, þegar sérstök óhöpp ber að höndum, en eins og ég áðan sagði, að fé atvinnujöfnunarsjóðs verði fyrst og fremst notað til þess að undirbyggja ný atvinnufyrirtæki til framtíðartryggingar atvinnu á hinum ýmsu stöðum á landinu.

Gert er ráð fyrir því, að árlegar tekjur atvinnujöfnunarsjóðs verði fyrst og fremst skattgjald af væntanlegri álbræðslu. Það þykir á allan hátt eðlilegt, miðað við þá stórframkvæmd. sem þar er um að ræða, að þorra þeirra tekna. sem til falla í sambandi við skattgjald slíks fyrirtækis, verði einmitt ráðstafað til þess að efla og tryggja atvinnu víðs vegar úti um byggðir landsins. Það hefur verið talið, að á því væri viss hætta, að slíkt stórfyrirtæki ylli röskun jafnvægis á vinnumarkaði, og því væri nauðsynlegt að vinna þar í gegn, og af þessum sökum þykir í alla staði eðlilegt, að fé því, sem inn kemur vegna skattgjalds hennar, verði ráðstafað á þennan hátt til hagsbóta fyrir landsbyggðina.

Skv. áætlunum, sem gerðar hafa verið um skattgjald álbræðslu, er gert ráð fyrir því, miðað við að bygging hennar gangi skv. áætlun op að hún verði byggð í þremur áföngum, að fyrstu 3 árin nemi skattgjald hennar rúmum 16 millj. kr., næstu 3 árin rúmum 24 millj. kr., 9 árin þar á eftir 51 millj., síðan í 3 ár 71 millj., þá í 3 ár 80 millj. rúmum og síðustu 4 árin 90 millj., allt miðað við eitt ár, og að heildargjald verksmiðjunnar í þessi 25 ár, verði rúmar 1400 millj. kr.

Svo sem segir í 3. gr. frv., er gert ráð fyrir því, að fyrstu 9 árin renni 25% þessa skattgjalds til Hafnarfjarðarkaupstaðar og 4.1% til iðnlánasjóðs, en að 9 árum liðnum lækki hlutur Hafnarfjarðarkaupstaðar í 20%, en hlutur atvinnujöfnunarsjóðs aukist þá að sjálfsögðu að sama skapi

Þar sem atvinnujöfnunarsjóður mun að meginhluta til hafa yfir eigin fé að ráða, gefur auga leið, að innan tíðar muni vaxtatekjur hans geta numið mjög verulegum fjárhæðum.

Til viðbótar stofnfé sjóðsins, sem ég hef vikið að. og tekjum hans, sem fyrst og fremst eru tekjur af skattgjaldi álbræðslu, eru í 6. gr. mjög víðtækar lántökuheimildir fyrir sjóðinn. Annars vegar er um að ræða ótakmarkaða heimild til lántöku hjá framkvæmdasjóði ríkisins og við það miðað, að það verði innan þeirra marka. sem nauðsynlegt verði talið, til þess að hægt verði að hrinda áleiðis með eðlilegum hætti framkvæmdaáætlunum, sem gerðar verða fyrir hina einstöku landshluta. Nauðsynlegt þykir hins vegar að hafa sérstaka lántökuheimild varðandi erlent lánsfé, því að það er talið, að enda þótt slík almenn lántökuheimild sé til, þá sé hæpið, að það muni lögformlega ná til heimilda til að taka erlend lán, og er því gert ráð fyrir sérstakri heimild til lántöku erlendis, allt að 300 millj. kr. Svo sem hv. þdm. er kunnugt, hafa þegar hafizt erlendar lántökur í sambandi við framkvæmdaáætlanir, þar sem er samgönguáætlun Vestfjarða, og kann vel að vera, að hagkvæmt þyki, að atvinnujöfnunarsjóður hafi einhverja milligöngu um slíka lántöku. Þess vegna þykir rétt að hafa þessa heimild.

Ég vék áðan að því, að það þætti nauðsynlegt að hafa rúma heimild varðandi lánveitingarrétt atvinnujöfnunarsjóðs, og er það m.a. með hliðsjón af því ákvæði, sem er í 6. gr., að gert er ráð fyrir, að framkvæmdaáætlanirnar skuli ekki aðeins ná til atvinnuástands, heldur samgangna og menningarmála hinna ýmsu byggðarlaga Og sannleikurinn er sá. sem ég veit, að allir hv. þdm. gera sér fullkomlega ljóst og reynslan hefur sannað, að það er ekki eingöngu atvinnuástandið, sem hefur afgerandi áhrif um það, hvort byggð helzt eða eflist á hinum einstöku stöðum á landinu, heldur kemur bar margt fleira til og ekki hvað sízt aðstaða varðandi menningu og margháttað félagslíf. Hefur enda komið í ljós, að eftir því sem velmegun vex á atvinnusviðinu, hafa kröfurnar varðandi aðstöðu til margháttaðrar félagsstarfsemi og menningaraðstöðu farið vaxandi, og eigi því að vera hægt að tryggja jafnvægi byggðarinnar, þarf ekki síður að gefa þessari hlið málanna gaum heldur en atvinnuuppbyggingunni einni saman.

Skv. þeim upplýsingum, sem ég hef hér gefið varðandi uppbyggingu sjóðsins, mun sjóðurinn þegar á árinu 1967 hafa til umráða um 50 millj. kr. og nú í ár 44 millj. beinlínis af því fé, sem gert er ráð fyrir að hann fái eftir þeim leiðum, sem ég hef nefnt, jafnhliða því, eins og ég gat um áðan, að gert er ráð fyrir, að fyrir milligöngu atvinnujöfnunarsjóðs verði ráðstafað 6—7 millj. kr. vegna erfiðleika útgerðarinnar á Norðurlandi, þannig að raunverulega yrði ráðstöfunarfé sjóðsins á þessu ári einnig um 50 millj. kr. Ráðstöfunarféð fer næstu árin hækkandi og verður á árinu 1968 um 56 millj. kr., fer síðan hækkandi ár frá ári í 100 millj. 1974 og 112 millj. kr. árið 1975. Er þá gengið út frá þeim forsendum, sem ég gat um áðan, að 4 millj. endurgreiðist árlega af hinum eldri atvinnubótasjóðslánum og að styrkveitingar úr atvinnujöfnunarsjóði sjálfum nemi 5% á ári.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir því, að Landsbanki Íslands annist umsjá atvinnujöfnunarsjóðs, en sjóðurinn verði annars undir 7 manna stjórn þingkjörinni.

Atvinnubótasjóður var áður í vörzlu Framkvæmdabanka Íslands, en þar sem gert er ráð fyrir því, að sá banki verði lagður niður, var eðlilegt að breyta hér um, og eftir atvikum þótti rétt, að sjóðurinn yrði í vörzlu Landsbankans, en hins vegar gengið út frá því, að lausafé hans sé hverju sinni á sérstökum reikningi í Seðlabankanum.

Sérstakar hömlur eru settar varðandi eftirgjöf lána og breytingar lánsskilmála, sem eðlilegt má teljast og í samræmi við það, sem nú gildir um atvinnubótasjóð, að allir sjóðsstjórnarmenn verði að vera á einu máli um eftirgjöf lána og breytingu á lánskjörum. Ég tel, að reynslan af störfum atvinnubótasjóðs varðandi þetta atriði sé góð. Þar hefur reyndin orðið sú, að afgreiðsla mála hefur jafnan verið með einróma stuðningi allra sjóðsstjórnarmanna, sem að sjálfsögðu er mjög æskilegt og bendir til þess, að ekki hafi verið ráðizt í styrkveitingar eða lánveitingar. án þess að menn hafi haft sannfæringu fyrir því, að það væri um brýna og ótviræða nauðsyn að ræða.

Frá því atvinnubótafjárúthlutun hófst, eða fjárveitingar til þess frá ríkissjóði, hefur verið varið á 15 ára tímabili 160 millj. kr. til atvinnuhóta skv. yfirliti, sem um það hefur verið gert. Svo sem yfirlit það, sem ég gaf hér áðan um ráðstöfunarfé, sem atvinnujöfnunarsjóður hefði næstu 10 árin, sýnir, ætti það fé að geta numið nálægt 700 millj. kr. Hér er því ljóslega um mjög stórfellda eflingu þessarar starfsemi að ræða, og það er von ríkisstj., að með þessum sjóði, sem hér er settur á laggirnar, takist að gera ný átök og með enn skipulagsbundnari hætti í þá átt að tryggja atvinnuafkomu fólksins víðsvegar um landið og leggja grundvöll að því, að hvarvetna um landsbyggðina sé hægt að hagnýta framleiðsluskilyrði, þar sem ljóst er, að hægt er að byggja upp þjóðhagslega nýtan atvinnurekstur, og þannig í senn að stuðla að byggðajafnvægi í landinu og aukinni framleiðslu ýmiss konar verðmæta þjóðarheildinni allri til góðs.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.