19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Frsm. meiri hl. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur tekið fyrir á fundum mál það, sem hér liggur fyrir, og meiri hl. n. mælir með samþykkt frv., og bornar eru fram brtt. á þskj. 512, sem n. flytur sameiginlega.

Þessar brtt, eru í fyrsta lagi við 5. gr. frv., á þá leið, að þar komi ný mgr., svo hljóðandi: „Stjórn atvinnujöfnunarsjóðs er heimilt að láta á kostnað sjóðsins gera athuganir á fjárhagslegum og tæknilegum rekstrargrundvelli atvinnufyrirtækja, er sækja um lán eða styrki úr sjóðnum.“

Það má segja, að það hafi legið í hlutarins eðli, að stjórn sjóðsins hefði heimild til þess að gera þá hluti, sem hér er talað um, en n. var sammála um, að það væri þó réttara að taka af öll tvímæli í því efni. Þess vegna er þessi brtt. fram borin. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þessa brtt. frekar, hún skýrir sig sjálf.

Önnur brtt., sem n. í heild stendur að, er við 6. gr. frv. Þar er lagt til, að 1. mgr. 6. gr. orðist svo:

„Stjórn sjóðsins lætur gera áætlanir og undirbýr lánaákvarðanir með aðstoð Efnahagsstofnunarinnar. Skal láta fram fara skipulagðar rannsóknir á atvinnuástandi, samgöngum og menningarmálum einstakra byggðarlaga og landshluta. Á þessum rannsóknum skal reisa áætlanir um framkvæmdir, er að dómi sjóðsstjórnar beri helzt að styrkja með lánveitingum eða styrkjum í samræmi við ákvæði 1. gr. Áætlanir þessar skulu jafnan gerðar í samráði við hlutaðeigandi sýslunefndir, bæjarstjórnir og hreppsnefndir og aðra þá aðila, sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta í þessu efni.“

Í þessari brtt. felst breyt. frá 1. mgr. 6. gr. frv. Í frv. er talað um, að Efnahagsstofnunin skuli vera stjórn sjóðsins til aðstoðar um gerð áætlana og undirbúning lánaákvarðana. Þetta orðalag þýðir það að mínu viti, að auðvitað hlýtur stjórn atvinnujöfnunarsjóðsins að hafa frumkvæði að því og mæla fyrir um það, sem Efnahagsstofnunin gerir í þessu efni, þó að þetta sé orðað svo í frv. En í umr. í n. kom fram það sjónarmið, að rétt væri að taka af öll tvímæli um þetta efni, og þess vegna er það skýrt tekið fram í brtt., að stjórn sjóðsins lætur gera áætlanir og undirbýr lánaákvarðanir með aðstoð Efnahagsstofnunarinnar. Í brtt. við 6. gr. frv. er einnig lagt til, að í lok 1. mgr. 6. gr. komi, að áætlanir þær, sem um er rætt, skuli jafnan gerðar í samráði við hlutaðeigandi sýslunefndir, bæjarstjórnir og hreppsnefndir og aðra þá aðila, sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta í þessu efni. Það er líkt ástatt með þetta í brtt. og önnur atriði, sem n. gerir till. um, að þetta er nánast til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni. Ég geri ráð fyrir því, að við samningu framkvæmdaáætlananna hefði undir öllum kringumstæðum verið haft samráð við þá aðila, sem sérstakra hagsmuna hefðu að gæta í þessu sambandi, þó að það væri ekki beint tekið fram, eins og frv. liggur fyrir. En n. þótti þó réttara að taka af tvímæli í þessu efni. Það liggur í augum uppi, að það þarf að hafa samráð við sveitarstjórnir, þegar um er að ræða gerð framkvæmdaáætlana í einstökum byggðarlögum eða landshlutum. Þeir, sem fara með sveitarstjórnarmálin, hljóta að hafa sérstaka þekkingu á staðháttum og aðstæðum fram yfir aðra þá aðila, sem vinna að þessum málum, og það verður að telja, að það sé ekki vel að gert í þessum efnum, nema haft sé samráð við þessa aðila. Það kemur og til greina, að það sé eðlilegt að hafa samráð við aðra aðila en sveitarstjórnirnar sjálfar. Það kann að vera, að það sé rétt t.d. í sambandi við atvinnulega uppbyggingu einstakra byggðarlaga að hafa samráð við samtök verkalýðsins og atvinnurekenda á viðkomandi stöðum. Með tilliti til þessa og til þess, eins og ég hef áður greint, að taka af öll tvímæli í þessu efni, er gerð brtt. nefndarinnar.

Ég tel þá lýst þeim brtt., sem n. gerir við þetta frv. Ég sé ekki ástæðu nú að fara að ræða um frv. í heild. Hæstv. fjmrh. skýrði það mjög ýtarlega í framsöguræðu sinni við 1. umr. En ég hygg, að það orki ekki tvímælis, að hér sé um að ræða mjög merkilegt frv., sem gerir ráð fyrir þeim mestu átökum, sem nokkru sinni hafa verið gerð til þess að vinna að jafnvægi í byggð landsins.

Á undanförnum árum hefur verið mikið talað um jafnvægi í byggð landsins og þörf þess að vinna að því. Það er ekki ástæða til þess að fara að rifja upp þær umræður hér né heldur það, sem hefur verið gert í þessum efnum. En það verður þó að segjast, að það hefur verið gert miklu minna í þessum efnum en ástæða hefur verið til. Það, sem sérstaklega hefur skort á, er annars vegar fjármagn til þess að verja í þessu skyni og hins vegar markvissar aðgerðir til þess að byggja upp atvinnulíf einstakra byggðarlaga.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir að ráða bót á þessu, og það er gert með því í fyrsta lagi að veita meira fjármagn en nokkru sinni áður hefur verið gert til þess að byggja upp þau byggðarlög, sem í vök eiga að verjast. Hér er um að ræða margfaldar fjárhæðir við það, sem áður hefur verið varið í þessu skyni, og mér liggur við að segja margfaldar upphæðir við það, sem menn hafa látið sér til hugar koma, nema um hafi verið að ræða vísvitandi sýndartill. Í öðru lagi markar þetta frv. þáttaskil að því leyti, að það er gert ráð fyrir því, að það verði unnið að uppbyggingu einstakra byggðarlaga og landshluta skv. fyrirframgerðum framkvæmdaáætlunum. Það er nýmæli í þessum efnum. Jafnframt því, að það hafa allt of litlir fjármunir verið veittir til þess að vinna að þessum málum á undanförnum árum, hefur það verið svo, að allar aðgerðir hafa verið meira og minna handahófskenndar. Það hefur sumpart verið vegna þess, að það hefur skort fjármagn til þess að vinna markvisst að málunum. En um leið og það er skapaður fjárhagslegur grundvöllur til þess að taka þannig á þessum málum, er gert ráð fyrir því beinlínis í þessu frv., að meginátakið í þessum efnum verði unnið skv. fyrir fram gerðum áætlunum. Þetta er nýmæli í löggjöfinni. En það er ekki nýmæli að því leyti, að á s.l. ári voru þessi vinnubrögð tekin upp í einum landshluta, þ.e.a.s. á Vestfjörðum. Þar er skv. þál., sem samþ. var árið 1963, gert ráð fyrir, að gerð sé sérstök framkvæmdaáætlun til þess að vinna að uppbyggingu þess landshluta. Á s.l. ári var einn hluti þessarar áætlunar þegar fullbúinn, þ.e.a.s. áætlun í samgöngumálum. Um leið voru gerðar ráðstafanir til þess að afla fjármagns til þess að hrinda í framkvæmd þeirri áætlun, og framkvæmd áætlunarinnar var hafin á s.l. sumri. Það var hugmyndin og yfirlýst af þeim, sem unnu að því að koma þessum málum á þennan rekspöl í þessum landshluta, að þessi vinnubrögð gætu orðið fyrirmynd að því, hvernig skyldi fást við hliðstæð verkefni annars staðar. Með því að lögfesta það frv., sem hér liggur fyrir, er þessu slegið föstu. Ég tel, að þetta sé mjög þýðingarmikið atriði í þessu frv. og um framkvæmd alla í þessum efnum fari mjög eftir því, hve vel tekst um gerð slíkra framkvæmdaáætlana.

Það, sem ég hef hér drepið á, tel ég að séu þýðingarmestu atriði þessa frv. Bæði þessi atriði, þ.e. sköpun hins fjárhagslega grundvallar og fyrirætlanir um skipulagðar aðgerðir, marka tímamót í öllum aðgerðum til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þess er að vænta, að slíkum ráðstöfunum verði vel tekið og frv. þetta fái greiða afgreiðslu hér í hv. deild.