19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Frsm. 1. minni hl (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég get, hvað meginatriði snertir að miklu leyti vísað til þess, sem ég sagði hér við 1. umr. um þetta mál. Ég gagnrýndi nokkuð frv. við þá umr., og mín gagnrýni beindist þá aðallega að tveimur atriðum. Það er í fyrsta lagi, að með þessu frv. væri of skammt gengið til hjálpar bæði atvinnulega og menningarlega við landsbyggðina, sérstaklega með tilliti til þeirra gífurlegu framkvæmda, sem nú eru ráðgerðar á þéttbýlissvæðinu hér á Suðvesturlandi, þar sem annars vegar væri um að ræða aðeins í raforku- og stóriðjuframkvæmdum fjárfestingar upp á 4000—5000 millj. kr., jafnvel á ekki lengri tíma en 3 árum, auk allra venjulegra framkvæmda, sem að sjálfsögðu eiga sér stað samtímis, en hins vegar væri um aukningu til landsbyggðarinnar að ræða til fjárfestingar í atvinnumálum, menningarmálum og samgöngumálum, þar væri um að ræða sjóðsstofnun, sem ekki væri stærri í sniðum en svo, að sjóðurinn hefði handbærar um 40 millj. kr. í upphafi, og tekjur væru litlu meiri en svo, að um litla raunverulega aukningu yrði að ræða, fyrr en þá eftir allt að því áratug. Í öðru lagi gagnrýndi ég það svo nokkuð, hversu óviðfelldið og ótækt væri að tengja tekjuöflun til þessa sjóðs, sem hér er fyrirhugað að mynda, við stóriðju erlends auðhrings í landinu. Til þessara ákvæða lægi engin raunhæf nauðsyn, heldur væri hér um áróðursbragð að ræða til að reyna að friða fólk úti um land og lægja þá sterku andstöðu, sem þar gætir gegn stóriðjuævintýrinu.

Brtt. mínar við þetta frv. miða að því að sníða þessa vankanta af því, að því að efla sjóðinn svo þegar í upphafi, að hann verði fær um veruleg átök og nokkurs megnugur til þess að rétta hlut landsbyggðarinnar og hindra þá viðvarandi þróun mála, að stöðugt stærri hluti þjóðarinnar hnappist á þéttbýlissvæðið í Reykjavík og næsta nágrenni, en lífvænlegar byggðir tæmist, allri þjóðinni til skaða og vansæmdar. Við athugun málsins í fjhn. hefur komið í ljós, að nægilegt fé er handbært til þess að stórauka sjóðinn þegar í upphafi, og þau ákvæði, sem eru í 1. gr. frv., c- og d-lið, sem gera ráð fyrir því, að nokkur verulegur hluti af stofnfé sjóðsins verði ekki greiddur á skemmri tíma en fjórum árum, eru þarflaus með öllu, og hefur komið í ljós af þeim upplýsingum, sem n. hafa verið um þetta gefnar, að þessar aðgerðir til þess að halda stofnfé sjóðsins fyrir honum einmitt á því tímabili, sem hvað mest þörf er til þess, að hann starfi af alefli, eru með öllu ástæðulausar. Það hefur verið upplýst, að það fé, sem ætlað er að taka 55 millj. kr. af samkv. c-lið 1. gr., þ.e.a.s. mótvirði óafturkræfs framlags Bandarík3astjórnar 1960, það fé nemur núna nær 227 millj. kr. Og af því hefur verið ráðstafað 12 millj. kr. til Reykjanesbrautar, — ekki hefur það farið út á landsbyggðina, — 20 millj. er ætlað að veita til lána til kísilgúrverksmiðju, 140 millj. af þessu fé eiga síðan að fara til Búrfellsvirkjunar, en 55 millj. aðeins til atvinnujöfnunarsjóðs. Og rausnin er ekki meiri nú í sambandi við þessa ráðstöfun heldur en af þessu kemur fram. Það á að láta atvinnujöfnunarsjóð hafa aðeins örlítinn hluta, lítið meira en 1/5 hluta af þessu fé, og síðan á að halda því fyrir honum í allt að því 4 ár. Ég held, að það sé engin ofrausn að taka nokkuð meira af þessu fé í atvinnujöfnunarsjóðinn, og ég legg til, að þessar 55 millj. kr., sem þarna er ákveðið um, verði hækkaðar í 100 millj. kr. og verði greiddar sjóðnum strax, í stað þess að frv. gerir ráð fyrir, að þessi upphæð sé greidd sjóðnum á 4 árum. Ég held, að það geti varla verið sá vandi á ferðum í sambandi við fjáröflun til Búrfellsvirkjunar, eins og nú er að þessu máli staðið, að það sé ástæða til þess að ráðstafa nærri því þrisvar sinnum meira til Búrfellsvirkjunar af þessu fé heldur en til atvinnujöfnunarsjóðsins.

Þá hefur einnig verið upplýst, að það fé, sem ætlað er að láta sjóðinn hafa samkv. d-lið 2. gr., það er einnig handbært, hvort tveggja er geymt í Seðlabankanum, og virðist mér, að ekki hafi komið fram neinar haldbærar röksemdir fyrir því, að þessir fjármunir, sem ekki eru nú meiri en 43 millj. kr. eða því sem næst, — nein haldbær rök fyrir því, að það sé ekki greitt sjóðnum strax, þannig að hann geti, ef þörf krefur, þegar notað þetta fé að öllu leyti á fyrstu starfsárum sínum.

Mér telst svo til, að þessar till. mínar, sem varða breytingar á handbæru stofnfé sjóðsins. mundu þýða, að það ykist í 158 millj. kr. úr rúmum 40 millj. kr., sem gert er ráð fyrir samkv. frv. Það er ekki nóg að hafa slíkt áróðursbragð að sjálfum frvgr., að það sé sagt, að stofnféð sé einar 360 eða 370 millj. eða eitthvað þar á milli, ef það er ekki um neitt raunverulegt stofnfé að ræða, heldur aðeins fé, sem hann á að fá sem tekjur á margra ára tímabili, eða eins og ákveðið er í frv. á allt að 10 árum, og var það raunar viðurkennt í n. einnig af stuðningsmönnum stjórnarflokkanna, að hér væri raunverulega ekki um sannnefni að ræða, a.m.k. ekki hvað varðaði fjárframlag úr ríkissjóði, sem ætlað er að greiða með jöfnum fjárhæðum á næstu 10 árum. Þar er vitanlega ekki um neitt stofnfé að ræða.

Þá varða brtt. mínar í öðru lagi tekjurnar eða 3. gr. En þar er samkv. frv. gert ráð fyrir því, að tekjur atvinnujöfnunarsjóðs, þegar frá eru skildar þar tekjur, sem áður hafa verið taldar til stofnfjár, þó að þær séu það ekki, verði ekki aðrar en skattgjöld álbræðslunnar við Straumsvík, ef af henni verður og sá samningur, sem nú liggur fyrir Alþ., kemur einhvern tíma til framkvæmda. og vextir af eigin fé sjóðsins. Annað er ekki gert ráð fyrir að þessi sjóður hafi í tekjur. Og það liggur fyrir, að hin fyrirhugaða álbræðsla hefur ekki starfsemi sína fyrr en á árinu 1969, þannig að það liggur fyrir, að þessi sjóður fær engar tekjur, nema vexti af eigin fé, umfram það, sem talið er til stofnfjár í 2. gr. frv., fyrr en á árinu 1970. En einmitt á því tímabili hlýtur hin fyrirhugaða álbræðsla við Straumsvík að verða mikilvirkust í því að draga vinnuafl og jafnvel fjármuni þá um leið til þéttbýlissvæðisins úr dreifbýlinu. Ég held, að það sé öllum ljóst. Það liggur fullkomlega fyrir, að það er einmitt á árunum 1968 og 1969, sem mestur toppurinn skapast hér í atvinnulífinu í sambandi við framkvæmdirnar, og einmitt á því tímabili hljóta þessar framkvæmdir að verða áhrifaríkastar sem segull til þess að draga fólk og fjármuni af dreifbýlissvæðinu og hingað í þéttbýlið við höfuðborgina. En það er sem sagt ekki ætlazt til, að sjóðurinn fái neinar tekjur á þessu tímabili. Að vísu er með því að halda fyrir sjóðnum sjálfu stofnfénu hægt að mylgra í hann nokkrum tugum millj. á ári. 40—50 millj. á ári, en það er ekki hægt sem sagt með öðru móti. Og þessar einu tekjur, sem sjóðnum eru ætlaðar, virðast ekki vera, a.m.k. eftir þeim áætlunum, sem nú eru um framkvæmdarhraða á byggingu álbræðslunnar, meiri en 11.3 millj. á þremur fyrstu árunum til 1973, og hækka síðan í 17 millj. á árunum 1973—1975, þannig að á næstu 10 árum eru þessar einu tekjur sjóðsins, 84 millj. kr. eða 8.4 millj. kr. á ári, auk framlags ríkisins, sem frv.-höfundar endilega vilja telja til stofnfjár og er 15 millj. kr. á ári. Ráðstöfunarfé sjóðsins er svo að sjálfsögðu nokkru meira, þar sem eitthvað innheimtist af fé atvinnubótasjóðs og til falla afborganir og vextir.

Ég get ekki verið sammála hv. frsm. meiri hl. fjhn. í því, að hér sé um eitthvert slíkt átak að ræða, sem marki þáttaskil í sögu landsbyggðarinnar, hér sé um að ræða mesta átak, sem nokkurn tíma hafi verið gert til jafnvægis í byggð landsins og ráðin bót á því ástandi og því misræmi sem er á milli byggðarlaganna í landinu. Ég held, að þessi ummæli séu skrumið eitt, þegar staðreyndir málsins eru athugaðar, og séu því ekki til neins framdráttar. Ég held þvert á móti, að miðað við þær framkvæmdir, sem hér eiga brátt að hefjast að ætlan stjórnarflokkanna í þéttbýlinu við Reykjavík, þá sé hér ekki neitt nálægt því um það að ræða, að haldið sé við því jafnræði, sem nú ríkir milli þéttbýlissvæðisins og annarra byggðarlaga í landinu, og þessir fjármunir séu alls ekki slíkir, að þeir geti hindrað það, að fólksflóttinn haldi áfram úr dreifbýlinu og sogist hingað til þéttbýlissvæðisins.

Ég skal fúslega viðurkenna það, að brtt. mínar varðandi tekjur atvinnujöfnunarsjóðs eru ekki mjög stórtækar, og ég hef reynt að halda þeim innan sem hóflegastra marka f þeirri von, að eitthvað af þeim gengi frekar fram fyrir það. En það er þó verulegur munur, ef þær till. yrðu samþ., því að þá mundi sjóðurinn fá samkv. mínum till. um 720—730 millj. kr. til ráðstöfunar á næstu 10 árum auk vaxta, en samkv. frv. telst mér til, að sjóðurinn muni ekki hafa meira en 440 millj. auk vaxta til ráðstöfunar á þessu 10 ára tímabili, eða að meðaltali um 44 millj.kr. á ári. Og það verð ég að segja, að mér finnst það ekki mikið miðað við þau verkefni, sem sjóðurinn á að inna af hendi. Þessara tekna legg ég til að verði aflað með því að ákveða fyrir fram, að 1 1/2% af samanlögðum skatt- og tolltekjum ríkissjóðs viðkomandi fjárlagaár verði greitt til sjóðsins, en jafnframt félli þá niður hið fasta framlag, sem talið er til stofnfjár samkv. frv., og einnig tekjurnar af álbræðslunni. sem ríkissjóður fengi þá, eins og eðlilegt er. Það verður að teljast algerlega óeðlilegt, að stærsta fyrirtæki, sem starfandi verður í landinu, ef af þessum samningum verður, greiði ekkert til ríkissjóðs, og það skiptir auðvitað engu máli, þó að þörf sé á því, að ríkissjóður styðji að uppbyggingu úti um landið til þess að halda við byggð í landinu og jafnræði milli byggðarlaganna.

Það fé sem þarna er um að ræða, þessar skatttekjur þessa fyrirtækis. þær eiga að renna í ríkissjóð eins og skatttekjur annarra fyrirtækja í landinu. Og það er sem sagt, eins og ég sagði áðan, ekkert annað en lélegt áróðursbragð að tengja þetta þannig saman, eins og gert er í frv.

Það er auðvitað alveg rétt. sem hæstv. fjmrh. lagði áherzlu á í sinni frumræðu um þetta mál. að þess ber að gæta, þegar sú aðgerð er metin, sem 3 þessu frv. felst, að hér er um að ræða framlög auk venjulegra stofnlána. En ég vil þá jafnframt vekja athygli á því, að stóriðjuframkvæmdirnar, sem nú er barizt fyrir að hér verði hafnar í þéttbýlinu, eru líka auk allra venjulegra stofnlána íslenzkra aðila, sem starfandi eru hér á þéttbýlissvæðinu. og koma algerlega þar til viðbótar. Ég held þess vegna, að það verði ekki sagt, að brtt. mínar séu á neinn hátt óraunhæfar, hvorki að því er snertir þörf landsbyggðarinnar né heldur möguleikana til þess að bæta úr þeim.

Sú staðreynd held ég að blasi sæmilega ljóst við öllum, að það er ekki aðeins fólkið í landinu, sem hefur þjappazt saman hér í næsta nágrenni Reykjavíkur, heldur er það líka fjármagnið. Samþjöppun framkvæmdafjármagnsins til höfuðborgarsvæðisins, sem m.a. hefur orðið fyrir beinar aðgerðir stjórnarvalda og stjórnarstefnu, slík samþjöppun er ein af stóru ástæðunum fyrir þeim mikla aðstöðumun, sem orðinn er viðvarandi og fer vaxandi í atvinnulegum og menningarlegum efnum og að því er snertir samgöngumál einnig. heilbrigðismál o.fl.. sem skiptir máli, þegar maður velur sér búfestu í landinu. Verkefni, sem blasa við óleyst til þess að skapa jafnræði eða við skulum segja kannske meira jafnræði landsbyggðarinnar við höfuðborgarsvæðið í þessum efnum, eru svo stórfelld, að þar er vissulega þörf mikils átaks og þar dugir engin skiptimynt til þess að jafna metin. Og enn bætist það svo við, að nú um sinn a.m.k. búa einstakir landshlutar við mikla erfiðleika af völdum aflaleysis, sem menn vona að vísu að sé tímabundið, en getur þó verið næsta afdrifaríkt, ef ekki er þar brugðið sæmilega myndarlega við til hjálpar og eftir því sem kostur er. Meðal þeirra verkefna, sem blasir við. að leysa þarf fyrir landsbyggðina, vil ég nefna t.d. raforkumálin, sem eru að miklu leyti óleyst verkefni og verða það þrátt fyrir Búrfellsvirkjun hér fyrir Suðvesturlandið og Suðurland. Það t.d. liggur ekkert fyrir um það enn þá, hvernig þau mál verða leyst fyrir Norður- og Austurland né hvaða aðstoð núverandi ríkisstj. er fús að veita þeim landshlutum til þess að leysa þau mál með viðunanlegum hætti. Um það liggur ekkert fyrir. Það eina, sem við höfum í þeim efnum, eru heimildarlög um Laxárvirkjun, en það hefur ekki, því miður, vil ég segja, reynt á það enn þá, hvaða tökum hæstv. ríkisstj. tekur það mál og raforkumál Austfirðinga eða hvort hún muni yfirleitt rétta hönd að því, að þau geti leyst raforkumál sín með sæmilega myndarlegum hætti. Það liggur ekkert fyrir um það enn þá, og það þarf auðvitað hluta þessa fjármagns til þeirra framkvæmda ekki síður en til Búrfellsvirkjunar.

Ég skal ekki fara langt út í það að telja upp önnur verkefni. Ég vil þó aðeins nefna endurnýjun þess skipastóls, sem á undanförnum áratugum hefur verið drýgstur til þess að halda uppi atvinnu í sjávarþorpunum og hefur raunverulega verið líftaugin í sjávarþorpunum, þ.e.a.s. skipastóll smáútgerðarinnar, að þar hefur ekki verið um neina teljandi eða raunar enga endurnýjun að ræða nú á síðustu árum. Leifarnar af togaraflotanum, sem verulegt gagn hefur gert í atvinnulegum efnum og hefur verið veruleg lyftistöng víða úti á landinu, eru nú að grotna niður, og það munu ekki verða nema 4—5 ár. þangað til sá floti, sem enn er eftir, er algerlega úr sögunni, ef ekki kemur þar eitthvað nýtt til. Ég tel það víst, að við 20 ára aldursmarkið muni öllum togurunum verða ráðstafað í brotajárn, en það mun ekki verða langt í klassanir. 20 ára klassanir á togurum, sem talið er að mundu kosta 12—15 millj. fyrir hvert skip. Það liggur ekkert annað fyrir en að byggja aftur upp frá grunni það. sem lengi hefur verið vanrækt að halda við ef sú atvinnugrein á ekki einnig að fara í glatkistuna.

Það er að vísu rétt, að það hefur orðið á síðustu árum nokkur endurnýjun í einum hluta skipastólsins. þ.e.a.s. þeim, sem fiska í gúanó fyrir síldarbræðslu. En fyrir sjávarþorpin a.m.k. á Norðurlandi hefur þessi endurnýjun ekki haft mikinn hagnað í för með sér, a.m.k. ekki um sinn. og jafnvel síður en svo stuðlað að áframhaldandi búsetu manna í byggðarlögunum þar, því að það mun hafa verið algengt, að þegar þessi skip voru komin upp, þá flutti ekki aðeins útgerðarmaðurinn með sitt skip, heldur einnig með skipshöfnina hingað til Reykjavíkursvæðisins.

Ég held þess vegna, að það þurfi að gefa miklu meiri gaum en gert hefur verið endurnýjun á þeim skipastól, sem er tryggastur við að stunda heimamiðin, sem við þurfum áreiðanlega á að halda að stunda og hafa um langt árabil verið sá hluti útvegsins og sú atvinnugreinin, sem raunverulega hefur haldið uppi byggð í sjávarplássunum.

Það er kunnugt, að sá iðnaður, sem á einstöku stað hefur risið upp úti á landsbyggðinni, á í meiri vök að verjast nú en áður, og enn bólar lítið á aðgerðum til þess, að eitthvað annað nýtt komi þar í staðinn. Framfarir í fiskiðnaði og framkvæmdir til þess að fullnýta sjávarafla hafa verið litlar á síðustu árum, því að ég tel varðandi þá aukningu, sem hefur verið í síldarbræðslunum, að þar sé raunverulega ekki um að ræða framkvæmdir, sem hjálpa okkur til að fullnýta sjávaraflann, heldur til þess að beina vinnslu aðeins inn á raunverulega aðrar brautir en fullnýtingu. Og ég held, að verkefnin minnki ekki, ef litið væri svo til samgöngumálanna, heilbrigðismálanna og skólamálanna, læknislausra og sjúkrahúslausra héraða og skólahéraða, þar sem ekki er hægt að halda uppi lögboðinni skólaskyldu vegna þess. að skólahúsnæði vantar.

Ég held, að þjóðfélagið skuldi raunverulega þeim hluta þjóðarinnar, sem enn heldur uppi byggð á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi, víða við ærna erfiðleika og margvísleg óhagstæðari skilyrði en menn hafa almennt við að búa á þéttbýlissvæðunum hér við höfuðborgina, það, að nokkru af því fjármagni, örlitlum hluta af því fjármagni, sem þetta fólk hefur lagt til þjóðarbúsins, verði skilað aftur í einu eða öðru formi, og ég held líka, að þetta sé allri þjóðinni hagstætt beint fjárhagslega og þess vegna beri að ráðast með meiri stórhug að þeim vanræktu verkefnum heldur en lýsir sér í því frv., sem hér er til umr. En að því miða mínar till. og einnig till. hv. framsóknarmanna, þó að bað sé í báðum tilfellum hóflega í sakirnar farið og ekki lengra en vel er framkvæmanlegt.