19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er nú skammt orðið eftir fundartíma, og þó að fróðlegt hefði verið að taka til nokkurrar athugunar ýmislegt af því, sem hv. frsm. minni hl. fjhn. hafa sér sagt í sínum ræðum, þá skal ég stilla mig um það, til þess að auðið verði að Ijúka umr. um þetta mál á þessum fundi. Það eru hins vegar nokkur atriði, sem ég tel rétt að minnast á, og þá fyrst og fremst þær brtt., sem fyrir liggja. En áður en ég kem að þeim, vil ég aðeins segja örfá orð um málið almennt.

Í framsöguræðu minni við 1. umr. gerði ég glögglega grein fyrir sjóði þessum, uppbyggingu hans og tilgangi, og hef ég þar engu við að bæta. Það hefur hins vegar komið í ljós frá hv. minni hl. fjhn., að þó að þeir efnislega séu meðmæltir því, að þessi sjóður sé stofnaður, þá telja þeir, sem er engin sérstök nýjung, að þar sé allt of skammt farið og nánast um að ræða fremur ómerkilegt mál, og það verður það vissulega, ef horft er á það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að samanborið við kostnaðinn við byggingu álbræðslu, ef ætti með atvinnujöfnunarsjóði að vega upp á móti þeirri fjárfestingu, þá þyrfti náttúrlega ærið meira fé, þar sem um er að ræða á þriðja þúsund milljóna króna. En svo sem allir hv. þdm. vita, er það fé ekki frá okkur Íslendingum runnið, og ég hygg, að það mundi reynast æði erfitt fyrir okkur sjálfa að afla fjár til framkvæmda eftir þeim mælikvarða, þannig að það auðvitað tjóar ekki, þegar við erum að hugsa um þetta mál, að segja sem svo, að vegna þess að það sé reist hér syðra álbræðsla, sem er kostuð algerlega af útlendu fjármagni, fyrir á þriðja þúsund milljóna króna og byggt hér stórt raforkuver, sem kostar nokkuð á annað þúsund milljóna króna, þá eigi að miða atvinnujöfnunarsjóð við þær fjárhæðir. Það er vitanlega öllum ljóst, að er gersamlega útilokað, enda sýna till. hv. minni hl. n., að enda þótt þeir leggi þarna til allverulega aukningu sjóðsins, þá er þeim þó Ijóst, að hér er auðvitað ekki um það að ræða að fara í þau fótspor, enda ekki um sambærilega hluti að ræða.

Varðandi það atriði, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) sagði hér og raunar kom fram hjá hv. 4. þm. Austf. (PÞ) við 1. umr. málsins, að hér væri um að ræða hugsjónamál Framsfl., sem að vísu væri veikt bergmál, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. orðaði það, þá get ég alveg látið það liggja á milli hluta, hvort það er bergmál eða ekki. Það vekur hins vegar upp þá hugsun í sambandi við þetta mál eins og ótalmörg mál önnur, sem hér hafa verið til meðferðar síðustu árin, eftir að Framsfl. fór úr ríkisstj., að hann verður þá æði miklum mun stórtækari ag áhugasamari um ýmis framfaramál heldur en meðan hann hefur valdatauma. Það er út af fyrir sig ágætt, en sannar okkur aðeins mikilvægi þess, að þessi Velvakandi og bræður hans, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist á, þeir séu utan stjórnar til þess að láta aðra halda vöku sinni, af því að það virðist svo sem bergmálið frá þeim sjálfum verði harla dauft, þegar þeir fá tækifæri til að ráða. Það má rekja mörg dæmi þess síðustu árin, en ég skal láta það liggja á milli hluta. Og þegar rætt er um það sem eitthvert stórkostlegt mál, að það hafi á árinu 1957 verið varið 15 millj. kr. til þessara mála, þá auðvitað er það engin sönnun út af fyrir sig, hvort hér sé um meira eða minna að ræða, vegna þess að þar verður að sjálfsögðu að meta það, hvernig ástatt var í þjóðfélaginu almennt og hverjar þarfirnar voru til stórátaka á þessu sviði. Ég er ekki alveg viss um það, að sá samanburður yrði hv. framsóknarmönnum sérstaklega hagstæður, ef ætti að bera saman ástand landsbyggðarinnar þá og ástand landsbyggðarinnar eins og það er í dag almennt séð, auk þess sem það entist nú ekki nema eitt ár sá stórhugur, því að strax á næsta ári skáru þeir sjálfir niður fjárveitingu til atvinnujöfnunar um nokkra fjárhæð. En þetta sem sagt er ekki kjarni málsins. heldur það, sem hér liggur fyrir, og ég skal alveg láta það liggja á milli hluta, hvort hv. framsóknarmenn telja, að hér hafi verið stigið í þeirra fótspor eða ekki. Við höfum nógan tíma til þess að tala um það, og það er ekki meginkjarni málsins, heldur það, hvort hér sé um gott mál að ræða eða ekki, hverjir svo sem hafa átt frumkvæðið að því. Og ég hygg, að eftir allt, sem hér hefur þó verið sagt, þá séu menn sammála um það, að þetta sé gott mál í eðli sínu, þó að menn hafi misjafnar skoðanir um það, hversu langt eigi að ganga og hvernig byggja eigi upp þennan sjóð.

Varðandi það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) minntist á í sínu máli, að það væru einn óleyst mörg verkefni fyrir landsbyggðina, raforkumál o. fl., þá er öllum það Ijóst og m.a. út af raforkumálunum, sem eru einn stærsti þáttur þess máls, bæði fyrir Norðurland og Austurland, að það mál er óleyst. Málið hefur hins vegar ekki legið fyrir enn þá, hvorki fyrir ríkisstj. né öðrum, sem um það eiga að fjalla, eða óskað eftir neinni sérstakri aðstoð í því efni formlega enn. Málið hefur verið á rannsóknarstigi. Það var gert til að greiða fyrir þessu máli, sem nauðsynlegt var í upphafi, að setja löggjöf um Laxárvirkjun og jafnframt gert mögulegt með tengingu til Austurlandsins. Það mál þurfti allt nánari könnunar við, og ég veit, að þeir aðilar, sem um það hafa fjallað heima í héruðum, hafa undirbúið það af kappi að undanförnu, og að sjálfsögðu verður það mál tekið til athugunar og engin ástæða til að óttast það, að því verði ekki mætt með fullum skilningi, og kemur ekki þessu máli neitt við, sem hér er um að ræða.

Sú hugmynd manna, sem hér hefur verið haldið mjög á lofti, að það væri brýn nauðsyn að leggja nú til stórátaka í sambandi við atvinnu jöfnunarmálið vegna álbræðslunnar við Straumsvík og að yfir vofi eyðing landsbyggðarinnar, að manni skilst, vegna byggingar þeirrar verksmiðju, þá get ég ekki fallizt á það sjónarmið. Það er alveg rétt, að það er nauðsynlegt vegna þessarar þróunar, bæði verksmiðjunnar við Straumsvík og annarra stórfelldra framkvæmda hér í sambandi við virkjunarmál, að þá verði aukinn möguleiki til þess að styðja að eflingu atvinnulífs víðs vegar um landið, svo sem hér er gert ráð fyrir. En það er ekki vegna þess, að þessi álbræðsla út af fyrir sig sé slík, að hún mundi draga allt fólk hingað, ef ekki væri stórkostlega aðhafzt og það í miklu ríkara mæli en gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég held, að mönnum hafi alveg láðst að gera sér grein fyrir því, og gefst nú tækifæri til að ræða það í sambandi við það mikla mál, að mannaflaþörfin til byggingar verksmiðjunnar í Straumsvík er sáralítil og mannaflaþörfin til byggingar orkuversins við Þjórsá er miklu meiri, og það virðast allir vera sammála um, að það orkuver þurfi að byggja. En að það setji landsbyggðina á annan endann, þó að á árunum 1968—1969 þurfi fyrra árið um 360 manns og næsta ár 290 manns til allra framkvæmda hér við Straumsvík, að það muni valda stórkostlegum flótta fólks utan af landsbyggðinni, það út af fyrir sig held ég að allir menn, sem með sanngirni horfa á það, hljóti að sjá að eru fullkomnar öfgar. En það breytir auðvitað engu um það, að það er nauðsynlegt að stuðla að því eftir megni vegna allra hluta, að það sé hægt að styrkja það, að auðið sé að byggja atvinnulega upp alla þá landshluta, þar sem atvinnumöguleikar eru arðbærir.

Ég tek undir það með hv. 1. þm. Norðurl. e., að það er að sjálfsögðu fásinna þjóðfélagslega séð að hugsa sér að halda við byggð, hvar sem hún er, ef það sýnir sig ekki að vera þjóðhagslega hagkvæmt. En þar sem það er hagkvæmt, eigum við að sjálfsögðu að halda við byggð á öllum þeim stöðum. Og þróunin í landinu er á margan hátt þannig, að það verður brýnna að líta á þessi verkefni, það er alveg rétt, ekki vegna þess að ástandið sé svo slæmt atvinnulega, heldur kannske vegna þess, að það er víða svo gott, og skal ég þar taka eitt dæmi, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. raunar kom að, og það er rétt hjá honum fullkomlega, að jafnvel hin mikla atvinna sums staðar, við skulum hugsa okkur eins og verið hefur sem betur fer á Austurlandi að undanförnu, meiri atvinna líklega en á nokkrum öðrum stað á Íslandi, — það hefur skapað þau sérstöku vandamál fyrir það, að það kemur í ljós,að það þarf að sinna þar nýjum verkefnum til þess að leysa þann vanda, að fólkið, eftir því sem það lifir við betri lífskjör efnahagslega, þá gerir það kröfu til meiri þæginda á öðrum sviðum, félagslega og menningarlega. Þetta er alveg hárrétt, og einnig af þessum sökum verður nauðsynlegt að horfa á þessi mál frá breiðara sjónarmiði heldur en áður hafði verið gert, en ekki endilega vegna þess, að nú allt í einu hafi menn komizt að raun um, að þjóðfélagið sé að umturnast. Ég efast stórkostlega um það — og reyndar efast ekki um það, heldur veit, að það hefur ekki verið um að ræða meiri tilflutninga hingað til þéttbýlisins á Suðvesturlandi nú síðustu árin heldur en hefur verið fjöldamörg ár áður.

Um þetta má auðvitað endalaust ræða, og skal ég ekki út í þá sálma fara, en ég hygg, að efnislega beri okkur ekki mikið á milli að þessu leyti. En einmitt út frá þessu atriði sérstaklega skal ég fúslega fallast á, að það geti vel verið athugandi að orða með öðrum hætti 2. mgr. 1. gr. frv., þannig að það geri a.m.k. skýrara, að það sé ekki eingöngu um það að ræða að verja fé til atvinnuframkvæmda, þó að það sé auðvitað númer eitt í öllu þessu máli, heldur sé hugsanlegt að lána einnig fé til annarra framkvæmda, til þess að halda við byggð og tryggja hana. Ég teldi því fyrir mitt leyti það ekki fjarri lagi og hef ekki á móti því sem flm. þessa frv., ef hv. fjhn. kærir sig um að breyta þessu orðalagi. Ég tel ekki, að það út af fyrir sig hafi grundvallarþýðingu, því að það er túlkað í grg. frv. nákvæmlega, að það sé hugsunin með uppbyggingu sjóðsins, en það færi e. t. v. alveg jafnvel á því að orða greinina ekki nákvæmlega eins og hún er í till. hv. 2. minni hl., heldur að þessu leyti að breyta 1. gr.

Þeim till., sem n. öll stendur að, er ég fullkomlega fylgjandi og tel rétt, að þær verði samþ.

Önnur till. hv. 2. minni hl., sem gengur í sömu átt og bæði 1. og 2. till. hv. 1. minni hl., að auka mjög fjárveitingar til sjóðsins, vitanlega væri mjög ánægjulegt, ef það væri hægt, en eins og sakir standa, þá liggur ljóst fyrir, að það er með engu móti hægt að gera það á annan hátt heppilegri en hér er, og það er auðvitað gersamlega út í hött að bera fram till. um það að taka 1 1/2 eða 2% af árlegum heildartekjum ríkissjóðs án þess að gera sér að öðru leyti nokkra grein fyrir því, hvernig það vandamál kemur til með að líta út, og hygg ég, að það geti farið svo, að það verði æði erfitt að koma saman fjárl. næsta árs án stórfelldra nýrra skatta, enda þótt það kæmi ekki til, að það ætti að fara að leggja þarna um 80 millj. kr. eða jafnvel meira á ríkissjóðinn. Er ég ósköp hræddur um, að svo kynni að fara, að till. um, hvernig ætti að afla þess fjár, mættu ekki alveg jafnmiklum skilningi þessara hv. flm. eins og þeim er það ljúft að flytja till. um útgjöldin. En ég held út af fyrir sig, að það þurfi ekki að taka þessa till. sérstaklega alvarlega og jafnvel að hv. flm. geri það naumast sjálfir, því að þá hefðu þeir vafalaust miklu fyrr gengizt fyrir því, að þessar miklu umbætur yrðu gerðar, þannig að ég geri naumast ráð fyrir því, að þeir ætlist til, að þessar till. séu teknar ýkja alvarlega.

Varðandi 3. till. hv. 2. minni hl. fjhn. um orðalag greinarinnar, sem þar segir, þá má lengi um það deila. Hann er málhagur maður og vafalaust málhagari en þeir, sem hafa samið þessa gr. Ég get vel fallizt á það, og það gildir sama um það og um 1. brtt., að mér finnst það vel geta komið til álita, ef n. sýnist það sjálfri og hv. flm. taka till. aftur til 3. umr., að líta á, hvort réttara væri að orða þetta með þessum hætti. Þarna er ekki um neina efnislega breytingu að ræða, og ég held nú sannast sagna, að jafnhyggnir menn og gáfaðir og eru í fjhn. hafi skilið, hvað í þessu fólst, þó að það megi vel á það fallast, að það sé hægt að orða það betur. Það má víst endalaust svo um flesta hluti segja, að þeir eru aldrei alfullkomnir.

Varðandi síðustu till. hv. 2. minni hl. um bráðabirgðaáætlanir og um að verja stórum hluta af tekjum atvinnujöfnunarsjóðs síðustu árin sem styrkjum, það finnst mér vera miklu hæpnara ákvæði. Það merkir ekki það, að það geti ekki verið sjálfsagt og eðlilegt, að stjórn atvinnujöfnunarsjóðs geri slíkar áætlanir, og hún hlýtur í rauninni að gera það, ef um slík byggðarlög er að ræða, að það er ekki hægt að bíða eftir heildaráætlunum. Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., en það er að mínum dómi algerlega þarflaust að setja þetta ákvæði í lögin og allra sízt að gefa undir fótinn með það, að það eigi að fara að láta út stóran hluta af fé sjóðsins til beinna styrkja. Þetta tel ég ekki heppilegt að gera, enda þótt ég málefnalega að öðru leyti sé sammála um það, að þetta sé hlutur, sem stjórn sjóðsins hljóti eðli málsins samkvæmt að taka til athugunar.

Þá er aðeins að lokum það, sem ég vildi segja varðandi það, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. síðast sagði um nafn sjóðsins, að nafn sjóðsins er mér ekki nokkurt hugsjónamál, síður en svo, og ef menn komast að þeirri niðurstöðu, að það sé heppilegra annað nafn, þá er ég ekkert á móti því. Annað er það, að mér finnst orðið jafnvægissjóður vera a.m.k. ekki betra en atvinnujöfnunarsjóður, því að jafnvægi getur auðvitað verið á mörgum sviðum og þarf ekki endilega að vera í fjármálum eða byggð, þannig að það nafn er raunar, held ég, með þeim óheppilegustu, sem gætu verið. En um önnur þau nöfn, sem koma til mála, þá hef ég ekkert á móti, að það verði athugað, en vil aðeins leggja áherzlu á, ef það yrði ofan á hjá hv. fjhn, að leggja til að breyta nafni sjóðsins, að þá verði umfram allt haft samband við fjhn. Nd., til þess að það verði ekki aftur farið að hringla í nafni sjóðsins, því að ég álít, að þingið sé þá nánast farið að gera sig næsta hlægilegt, ef það færi æ ofan í æ að breyta nafni á sjóði, því að það getur þó aldrei verið kjarni málsins, heldur viðfangsefni sjóðsins og hlutverk, en ekki endilega það, hvað hann heitir. En sem sagt, það er frá minni hendi algerlega mér að meinfangalausu, þó að nafninu verði breytt, ef hægt er að fá samstöðu um það og tryggingu fyrir því, að það verði þá ekki aftur farið að breyta nafninu í hv. Nd.