19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Frsm. meiri hl. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Eftir hina ýtarlegu ræðu hæstv. fjmrh. hef ég ekki miklu að svara af því, sem fram kom í ræðum hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) og hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ). Ég get þó ekki látið hjá líða að segja nokkur orð að gefnu tilefni.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði í tilefni af ummælum mínum, að það væri skrum að segja, að þetta frv., ef að lögum yrði, markaði þáttaskil í aðgerðum hins opinbera til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Ég benti sérstaklega á í þessu sambandi, að varið væri margfalt meira fé í þessu skyni, eins og gert væri ráð fyrir í frv., heldur en áður hefði verið gert og heldur en menn hefðu í raun og veru látið sér koma til hugar nema í augljósum sýndartillögum. Ég gat líka um það, að nú væri í fyrsta sinn lögboðið, að það skyldi vinna markvisst að því að efla þær byggðir landsins, sem í vök ættu að verjast, með því að gera framkvæmdaáætlanir. Hv. þm. gerði ekki minnstu tilraun til þess að hrekja þessi ummæli. Ég held líka, að hann hafi átt erfitt með að gera það. Ég spyr: Hvenær hefur það skeð áður, að það hafi verið gert ráð fyrir svo miklu átaki í þessu efni sem hér er gert ráð fyrir? Áætlað er, að atvinnujöfnunarsjóður fái á næstu tíu árum til ráðstöfunar eingöngu af eigin fé sínu rúmar 700 millj. kr. og að hrein eign sjóðsins verði þá rúmar 545 millj. kr. Það má til samanburðar, eins og gert er í grg. með frv., benda á, að á 15 ára tímabili, frá 1951—1965, hefur samtals verið varið til atvinnuaukningar og síðar til atvinnubótasjóðs 160 millj. kr. Það þarf meira en litla kokhreysti til þess að segja, að það sé skrum eitt, þegar bent er á það, að hér sé um miklar aðgerðir að ræða, miklu meiri en nokkru sinni hefur þekkzt í þessum málum áður.

Ég vík svo nokkrum orðum að ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. Hann vildi ekki gera mikið úr þessu frv. og þýðingu þess. Þó sagði hann, að það væri bergmál af því, sem framsóknarmenn hefðu lagt til, að vísu veikt bergmál, eins og hann orðaði það. Þessi ummæli hv. þm. koma mér til þess að minnast örfáum orðum á afstöðu framsóknarmanna til þessara mála.

Það hefur verið mjög vitnað við 1. umr. málsins í frv. til l. um sérstakar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem framsóknarmenn hafa borið fram á þessu þingi og á undanförnum þingum. Hv. 4. þm. Austf. (PÞ) gerði við 1. umr. ýtarlega grein fyrir þessu frv. Hann gerði það skilmerkilega og sagði ýmislegt í þeirri ræðu, sem var athyglisvert og rétt um jafnvægismálin í heild. Færði hann ýmis rök fyrir því, hversu þýðingarmikið væri að gera haldgóðar ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Ég verð að segja það, að ég legg ekki eins mikið upp úr öllu því, sem hann sagði þessu til stuðnings, eins og hann virtist gera. T.d. minntist hv. 1. þm., Norðurl. e. á það í ræðu sinni áðan og vitnaði til ræðu 4. þm. Austf., að hann hefði verið með tölur um framleiðslu þjóðarinnar til stuðnings aðgerðum við dreifbýlið. Ég minnist þessa einnig. En sérstaklega minnist ég þess, þegar þessi hv. þm., 4. þm. Austf., færði það sérstaklega fram máli sínu til stuðnings fyrir aðgerðum fyrir dreifbýlið, að Reykjavík og Reykjanesið hefðu ekki nema 3% af sauðfjáreign landsmanna og 4% í af nautgripaeign. Ég sé nú ekki, að slík rök hafi mikla þýðingu í þessu máli. En ég minnist, aðeins á þetta til þess að vekja athygli á því, hve steinrunnin ýmis rök framsóknarmanna eru yfirleitt í þessum málum.“

En víkjum aftur að bergmálinu og frv., sem framsóknarmenn hafa lagt fram. Það heitir frv. til l. um sérstakar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. 1956 var lagt fram frv. á Alþingi, sem hét frv. til l. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er nákvæmlega sama fyrirsögn og í frv., sem þeir eru að státa af núna, nema það er bætt einu orði inn í nú: „sérstakar ráðstafanir“. Frv. er líka að öðru leyti samhljóða í öllum aðalatriðum og frv. frá 1956, nema í frv. frá 1956, sem framsóknarmenn stóðu þá að, var gert ráð fyrir, að árlegar tekjur svokallaðs jafnvægissjóðs skyldu vera 5 millj. kr. á ári. En í brtt. þeim, sem þeir bera fram við frv. það, sem hér er til umr., og líka í frv. um jafnvægi í byggð landsins, sem þeir hafa borið fram í Nd., er gert ráð fyrir, að árlegar tekjur jöfnunarsjóðs skuli vera 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs. Nú leggja þeir til 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs og segja,að það séu 60—80 millj. kr. Þegar þeir sjálfir voru við völd, lögðu þeir til 5 millj. kr. Hvernig stendur á þessu? Nú veit ég, að það er hægt að gera miklu meiri kröfur til núv. fjmrh. heldur en þess fjmrh., sem var 1956. Ég treysti núv. fjmrh. miklu frekar til þess að gera stóra hluti í þessum efnum heldur en fjmrh. 1956. En mér finnst samt sem áður, að hér sé til nokkuð mikils ætlazt, vegna þess, eins og bent hefur verið á, að þessir menn hafa ekki komið með neinar till. til þess að skera niður útgjöld á móti þessum fjárveitingum, sem þeir leggja til.

En hvernig fór með frv. 1956? Varð það ekki að lögum? Nei, það varð ekki að lögum, því að þá hefðu þeir ekki komið með þessa endurritun af frv. frá 1956, sem þeir hafa lagt fram á Alþingi nú. Og hvers vegna var það ekki samþykkt? Það var ekki samþykkt vegna þess, að frv. var á síðustu dögum þingsins og það var gerður leikur að því af flokksmönnum hv. 4. þm. Norðurl. e. að bera fram í Nd. brtt. við þetta frv. Frv. var upphaflega borið fram í Ed. Þeir gerðu sér leik að því að bera fram brtt. við frv. um jafnvægissjóð á þá leið, að stækka skyldi friðunarsvæðið eða landhelgina umhverfis Ísland, að stofna skyldi til togarasmíði innanlands og stofna skyldi togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar. Allar þessar till. voru augljósar sýndartill. Þær voru till. manna úr stjórnarandstöðunni. Framsóknarmenn voru í ríkisstj. Hvers vegna náði þá málið í sinni upphaflegu mynd ekki fram að ganga? Vegna þess að framsóknarmenn gerðu samsæri við þá, sem vildu drepa þetta frv., samþ. brtt., gerðu frv. óraunhæft og útilokuðu, að það væri hægt að afgreiða það á því þingi. Þetta voru afrek þessara manna, þegar þeir höfðu sjálfir völd og aðstöðu til þess að vinna að jafnvægi í byggð landsins. Þetta var 1956. En þessir menn voru áfram í stjórn. Þeir voru í stjórn eftir kosningarnar 1956. Hvað gerðu þeir þá? Komu þeir þá ekki með þetta frv.? Nei, þeir gerðu það ekki. Það gleymdist gersamlega að koma með þetta frv. þá.

Þetta, sem ég hef hér rakið, er aðeins spegilmynd af framkomu framsóknarmanna í þessum málum. Og það mætti fara lengra. Ég er hér að tala um aðgerðir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. En hvað skyldi á undanförnum áratugum hafa stuðlað mikið að jafnvægisleysi í byggð landsins? Það er of langt mál, til þess að ég ætli mér að fara út í það hér. Það eru margar ástæður til þess, þjóðfélagsleg þróun, tækniþróun o.fl., o.fl. Mér kemur ekki til hugar að bera framsóknarmenn þeim sökum, að þeir séu valdir að öllu þessu. En eitt vil ég segja, að stjórnarstefnan á hverjum tíma hlýtur að hafa nokkur áhrif og jafnvel mikil á það, hver framvindan er í þessum málum. Og stjórnarstefnan, sem afdrifaríkust hefur verið gagnvart dreifbýlinu í þessu efni, er haftastefnan, sú stefna, sem dró valdið í athafnalífinu frá landsbyggðinni og hingað til Reykjavíkur. Og það eru framsóknarmenn, sem eru höfundar og hafa verið alla tíð aðdáendur haftastefnunnar. Framsóknarmenn hafa því ekki af neinu að státa í þessum efnum. Ég veit ekki, hvernig það er, hvort það er ég einn eða hvort fleiri finna til þess. Mér finnst ákaflega oft bera á því, þegar þessi mál ber á góma, hvort sem það er hér á hv. Alþingi eða annars staðar, að framsóknarmein vilji tala með nokkru yfirlæti um þessi mál, eins og þeir hefðu af einhverju að státa í þessum málum, eins og þetta væri eitthvað frekar þeirra mál en annarra og þeir hefðu sýnt það í verki, að þeir hefðu stuðlað betur að jafnvægi í byggð landsins heldur en aðrir menn. Og ég verð að segja það, að mér fannst rétt aðeins votta fyrir þessu yfirlæti hjá jafnágætum mönnum og 4. þm. Austf. við 1. umr. þessa máls og hv. 1. þm. Norðurl. e. í ræðu hans hér áðan. En ég held, að framsóknarmönnum farist ekki vel yfirlæti í þessum efnum og þeir verði að ræða þessi mál málefnalega og eftir því verði þeir dæmdir.

Ég skal stytta mál mitt. Það hefur borizt hér í tal nafnið á sjóðnum. Hv. 1. þm. Norðurl. e. taldi, að nafn sjóðsins, eins og ráð er fyrir gert í frv., væri ekki nægilega gott. Það kann að vera. Mér finnst nafnið ekkert aðalatriði í þessu máli. Það má vera, að það sé hægt að finna betra nafn. Hv. 1. þm. Norðurl. e. nefndi nokkur nöfn. Ég sé nú naumast, að nokkurt þeirra sé betra en það nafn, sem er á frv. En mér kemur til hugar eitt nafn, sem ég varpa fram hér. Hví ekki að kalla þennan sjóð „Viðreisnarsjóð strjálbýlisins“? Það er réttnefni og sannnefni, af því að ef frv. þetta verður að lögum, þá stuðlar það meir að viðreisn þeirra byggða úti um landsbyggðina, sem í vök eiga að verjast, en nokkur lagasetning hefur gert áður.