19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hefði viljað greiða fyrir því, að þetta frv. fengi greiðan gang gegnum þessa hv. d., og hafði ekki ætlað mér að tefja tíma þm. eða ræða það við þessa umr. En ræða sú, sem síðast var flutt hér, er með þeim hætti, að ég get naumast komizt hjá að segja nokkur orð.

Hv. 4. þm. Vestf. (ÞK) sagði, að það væri rétt að ræða þetta málefnalega. Ég er honum alveg sammála um þetta, og ég held, að öll ræða hans hefði farið betur, ef hann hefði gætt þess að fylgja í framkvæmd þessari hugsjón sinni og að í þeirri ræðu, sem hann flutti hér, hefði verið meira efni, en minni vindur í kringum flutninginn. Hér er í raun og sannleika um mjög mikið vandamál að ræða og eitt af hinum veigameiri þjóðmálum, sem við höfum til afgreiðslu og athugunar um þessar mundir, og það er að mínum dómi sjálfsagt að skoða þetta mál og ræða þetta mál í því ljósi. Og það er í sjálfu sér ákaflega ófrjó deila um það, hvað einn þm. eða einn flokkur hefur lagt til um svipuð eða hliðstæð málefni á liðnum tíma. En ég vil segja hv. 4. þm. Vestf. það, að þó að tími sé kannske naumur nú, er ég þess albúinn að ræða við hann um afgreiðslu mála frá fyrri tíð, ef hann óskar þess, og þá má rekja ýmislegt úr þingsögunni, sem kannske aðrir muna fullt eins vel og hann og gerðist á þeim tíma, þegar hann var utan þessara veggja. En ég skal takmarka mál mitt að þessu sinni við örfá atriði til þess að svara því, sem kom fram hjá honum.

Hv. þm. minntist nokkuð á þá ræðu, sem ég flutti um þetta mál hér við 1. umr. Í þeirri ræðu gerði ég tilraun til þess að ræða þetta vandamál algerlega málefnalega, og ég hef ekki heyrt, að þeim rökum, sem þar voru fram borin, hafi verið hnekkt í þessum umr., hvorki af hv. 4. þm. Vestf. né öðrum, sem hér hafa talað.

Þá vék hv. 4. þm. Vestf. að því, að Framsfl. hefði ekki alltaf verið fús til þess að afgr. till., sem fram voru bornar og legið hafi fyrir hér á hv. Alþingi og snerta þetta mál, og minnti hann í því efni á frv., sem flutt var 1956 og að ég ætla endurflutt á næsta þingi þar á eftir af Sjálfstfl. eða þm. úr Sjálfstfl., og ef ég man rétt, mun núv. hæstv. fjmrh, hafa verið þar í fyrirsvari.

Ég kannast vel við það, að þetta frv. eða þessi frv. komu fram hér á þingi. Þau voru í raun og veru flutt í framhaldi af athugun á þessum málum og nefndarstörfum, sem höfðu átt sér stað og bæði Sjálfstfl. og Framsfl. stóðu að, og mér hefur aldrei dottið í hug að draga í efa, að a.m.k. sumir þm. Sjálfstfl. hafi hugsað um þessi mál í alvöru og fullkominni einlægni. En í sambandi við frv. frá 1956 má segja, að miðað við þau viðbrögð, sem þingmeirihlutinn hefur gagnvart margvíslegum umbótamálum, sem stjórnarandstaðan hefur flutt nú á þingum undanfarin sjö ár, sé það ekki sérstaklega tiltökumál, þó að þáv. stjórn og þingmeirihluti a.m.k. vildi athuga, hvort þær till., sem í þessum frv. fólust, væru nákvæmlega það, sem gera þyrfti. Með tilliti til þess, að vinstri stjórnin, þann skamma tíma, sem hún sat að völdum, — það voru ekki nema 2 1/2 ár — hafði ýmsar till. að gera, sem snertu þessi mál og fjármálakerfi þjóðfélagsins í heild, m.a. hækkaði atvinnuaukningarféð, eins og áður hefur verið minnt á, og þegar verið er að bera saman tölur, 5 millj.,10 millj., eins og það kemur fram í till. frá löngu líðnum tíma og aftur nú, verður til þess að fá rétta mynd af málum að skoða þau í samhengi við og með tilliti til verðgildis krónunnar og annarra fjárhæða, sem um er fjallað á hverjum tíma. En vinstri stjórnin sat ekki að völdum nema 2 1/2 ár, og þessi skelegga barátta sjálfstæðismanna fyrir jafnvægisfrumvarpinu þurfti ekki að standa við þingmeirihlutann, sem studdi vinstri stjórnina, nema þennan tiltölulega stutta tíma. Það myndaðist hér ný valdasamsteypa á þingi í raun og veru á degi hins heilaga Þorláks 1958, og allan tímann síðan hefur sama valdasamsteypan ráðið hér afgreiðslu mála, haft hér öruggan þingmeirihluta og ráðið afgreiðslu mála. Og hvað gerðist? Þegar þessi þingmeirihluti hafði myndazt og hann fékk valdið til þess að lögfesta og framkvæma þessi frv., sem hér eru gerð að umræðuefni nú, lögfesti hann þá ekki þau frv. þegar á árinu 1959? Tækifærin hafa beðið síðan nú í sjö ár. En hvað veldur því, að þessi frv. hafa aldrei verið lögfest? Ekki andstaða Framsfl. Ekki vald vinstri stjórnarinnar, heldur sýnir það vilja og hug þeirra, sem voru flm. að þessum frv. þessum árum. En hinn nýi þingmeirihluti, sem myndaðist í árslok 1958, gerði annað. Hann lögfesti á þinginu 1961 frv. um atvinnubótasjóð, þau lög, sem á að fella saman við þá löggjöf, sem nú er verið að ræða um, og þetta gerðist lá hinum fyrri árum viðreisnarinnar. Og hve var þá reisnin? Hver var þá reisnin hjá þingmeirihlutanum, sem nú situr, þegar hann hafði fengið valdið til þess að koma fram löggjöf um þessi mál? Ja, reisnin — þegar viðreisnin var að láta til sín taka — reisnin í þessum málum birtist í lögunum um atvinnubótasjóð, 10 millj. kr. framlag á ári frá ríkinu, sem hefur farið óðfluga minnkandi að verðgildi, eftir því sem verðbólgan hefur magnazt í höndum og ég vil segja að ýmsu leyti fyrir tilstilli núv. þingmeirihluta og ríkisstj.

Þannig er sagan, þegar þeir höfðu fengið valdið til þess að ráða þessum málum. Og ekki aðeins þetta, heldur hafa þeir jafnframt drepið á dreif till., sem aðrir hafa gert um svipuð efni á þessum tíma, á þessum sjö ára valdatíma, og aðallega með þeim rökstuðningi, að slík tillögugerð væri með öllu óþörf, af því að hin löggjöfin væri svo fullkomin, sem þeir höfðu sett 1961.

Þetta er nú, held ég, alveg nægilega skýrt, svo að ég gæti nú farið að stytta máli mitt. En vitanlega eru það mörg fleiri atriði, sem kannske er ástæða til að ræða í þessu sambandi, og m.a. það, að ég vil láta það enn koma fram, sem ég sagði við 1. umr. þessa máls, að ég tel, að nú verði að líta á þessi mál með, tilliti til hinnar væntanlegu stóriðju. Það er alveg nauðsynlegt. Og ég held líka, að ef við settumst nú niður í ró og næði, ég og hv. 4. þm. Vestf., og færum að athuga skýrslur, sem sýna þróun búsetunnar í landinu frá ári til árs, þá munum við komast að raun um það, að þróunin á síðustu árum hefur verið svo ör í þessu efnum, að með tilliti til þess er einnig þörf stærri átaka nú heldur en í sjálfu sér var, kannske fyrir tíu árum.

Ég skal láta þessi orð nægja núna í þetta sinn, 3. umr. er þá eftir, og láta máli mínu lokið.