19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Frsm. meirihl. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja þessar umr.Hv. 4. þm. Austf. (PÞ) hefur talað. Mér fannst honum finnast það óþarft, að ég hafði víkið nokkrum orðum að fortíðinni í þessu máli. Sjálfur flutti hann mjög langt mál við 1. umr. málsins og talaði nær eingöngu um fortíðina. En ég skal ekki gera frekari aths. við þetta.

Hv. þm. sagði, að vinstri stjórnin hefði ekki haft tíma, ekki gefizt næði eða tími til þess að gera neitt í jafnvægismálunum eða lögfesta frv. frá 1956. Þeir höfðu ekki nema 2 1/2 ár. Ekki hefur þeim fundizt þetta mikið mál þá. Hann sagði, að það hefði liðið líka langur tími í tíð núv. ríkisstj., þar til frv. það, sem hér er til umr., kemur fram. Það er rétt. En fyrir nokkrum árum, eins og hann tók raunar fram, voru sett lög um atvinnubótasjóð. Hann taldi, að með þeim lögum hefði lítið verið að gert í þessum efnum af hálfu núv. ríkisstj. Það kann að vera. En í þeim l. var gert ráð fyrir, að árlegar tekjur sjóðsins væru 10 millj. í stað 5 millj., sem gert var ráð fyrir 1956. Það kann að vera, að þetta sé lítið, en það er 100% meira.