23.04.1966
Neðri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mig minnir, að það hafi verið einhver um daginn, sem kallaði þetta frv. „samvizkubit ríkisstj.“ í sambandi við alúmínmálið. En ég verð að segja að hún hefur ekki mikið samvizkubit, ef þetta er allt, sem hún ætlar að gera í sambandi við þá ráðstöfun, sem nú er gerð í viðbót við allt annað til þess að reyna að tæma dreifbýlið á Íslandi. Við verðum að gá að því, þegar við erum að ræða um mál eins og vandamál dreifbýlisins, að þarna er að verki ákaflega frumstæður og sterkur kraftur. Þetta er afl, sem er ekki neitt sérstakt íslenzkt fyrirbrigði. Þetta er fyrirbrigði, sem á sér stað alls staðar, þar sem iðnaðarþróun er. Þar dregst fólkið saman á einn stað, og það, sem veldur þessu, er það miskunnarlausa lögmál peninganna, að þegar atvinnulíf er eingöngu hugsað út frá gróða, þá er langpraktískast að hafa þetta allt saman á einum stað, a.m.k. á meðan borgirnar eru ekki orðnar svo stórar, að umferðarvandamálin í þeim verði svo ægileg, að það hreki þá aftur til þess að fara að dreifa þessu dálítið, ljósa orsökina í þessu og síðan reyna að ráða við það afl, sem er svona sterkt í okkar kapitalíska þjóðfélagi, sem dregur fólkið svona ómótstæðilega hingað suður á þennan litla blett í landinu, þá verðum við fyrst að gera okkur ljósa orsökina í þessu og síðan reyna að ráða við afleiðingarnar, og orsakirnar eru beinlínis þessar, að gróðavonin rekur menn til þess að safna fyrirtækjunum hérna saman. Sá náttúrlegi grundvöllur er sjálf gullkista Faxaflóa, og síðan, þegar sjávarútvegurinn skapar möguleika fyrir bæjarmyndun hér, þá skapast iðnaðurinn hér fyrst og fremst. Hér er höfuðborgin, hér eru settar niður bankastofnanirnar, hér safnast auðurinn, auðmennirnir, sem þetta eiga, þennan auð eiga þeir og ráða honum, þeir festa fyrirtækin, þar sem það er praktískast frá þeirra sjónarmiði og getur gefið mesta gróðavon, og þannig hleðst sífellt utan á þetta eins og snjóbolta, sem veltur niður hlíð. Og við sáum það núna seinast, þegar svissneski alúmínhringurinn á að fara að ráða því, hvar hann ætlar að festa sitt fé, þá segir hann: Það er langhagkvæmast, það er langódýrast fyrir mig að gera það hérna, hér vil ég hafa hann. — Ef menn ekki treysta sér til þess að taka stjórnina á þessum straumi og ráða því, hvar fjárfestingin er, hvar fyrirtækin eru staðsett, þá ráða menn ekki við þetta. Það er það, sem er grundvöllurinn að því, það er að ákveða staðsetningu fyrirtækjanna og verða meira að segja stundum að gera það án þess að hugsa um augnabliksgróða. Þetta er það, sem var gert 1944 á vissum sviðum með sæmilegum árangri, og þetta er það, sem verður að gera hérna, ef það á að vera nokkurt vit í þessu. Þetta er það, sem var lagt til og var samþykkt, þegar vinstri stjórnin var mynduð, að skyldi verða gert, en brást, af því að Framsókn hafði þá ekki skilning á því, að það var alveg óhjákvæmilegt að hafa svona heildarstjórn á fjárfestingarmálunum, ef maður ætlaði að reyna að bjarga dreifbýlinu. Hún er kannske búin að fá hann núna, enda eru 7 ár, sem hún er nú búin að vera í stjórnarandstöðu.

En þó fannst mér það undarlegt, að hv. fulltrúar Framsfl. skyldu nú vera að lýsa yfir að einhverju leyti, að þetta frv. væri eins og endursköpun á þeirra gamla frv. Mér fannst það satt að segja alltaf lélegt frv. hjá Framsókn og finnst þetta lítið betra. Engu að síður, í svona hallæri eins og er, þá náttúrlega meta menn hvað sem er. En hitt vil ég láta koma fram, að þó að ég efist ekki um góðan vilja, ekki sízt hjá hæstv. fjmrh., í þessum efnum, þá þarf miklu, miklu róttækari ráðstafanir. Þetta hjálpar svo hverfandi lítið.

Setjið ykkur bara eitt augnablik í þau spor, að við hefðum haft undanfarin ár sama síldarleysi og ekki haft kraftblökkina og radarinn og síldarmoksturinn, hvernig farið hefði um Norðurland og Austurland. Norðurland er að vísu í sömu vandræðum og var, Austurland heldur þó í og meira að segja heldur eykst. Setjið ykkur þá í þau spor, hvernig þetta mundi allt saman hafa verið hjá okkur. Það voru að koma út Hagtíðindi núna fyrir nokkrum dögum, þar sem var verið enn einu sinni að skýra frá, hvernig hlutfallið væri með byggðina í landinu, og það var annað sérstaklega eftirtektarvert í þeim Hagtíðindum. Það kom nú ekki aðeins í ljós þar, að í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði er meiri hluti Íslendinga nú þegar, heldur líka hitt, að hlutföllin á milli unga fólksins og gamla fólksins á þessu svæði, þessu litla 10 km langa svæði, hér og úti um land, þau eru alveg hræðileg. Það er auðséð, að af sjálfu sér skekkist þetta hlutfall meira og meira á næstu áratugum, þó að það takist að stöðva strauminn núna, vegna þess, hve miklu yngra það fólk er, sem er hér syðra nú, ekki sízt ef t.d. eru tekin hlutföll í Kópavogi annars vegar og í sumum sýslum hins vegar. Þarna er því um mál að ræða, sem verður að taka með heildarstjórn á sjálfri fjárfestingunni, og það þýðir sama sem yfirstjórn á útlánum bankanna, á stefnunni í útlánum bankanna, og það er ekkert annað og minna, sem getur dugað til þess að snúa þessum straumi að einhverju leyti við.

Það er sjálfsagt að vera með svona frv., borða líka skóbætur, þegar hallæri er. En það, sem hefði þurft að gera, var að gera þarna stórfellda breytingu eitthvað í þá átt að taka heildarstjórn á fjárfestingunni. Það er oft búið að minnast á það á undanförnum árum. Alþfl. hefur hvað eftir annað lýst sig fylgjandi slíku Framsfl. er farinn að lýsa því yfir í orði kveðnu, að hann standi með því. Ég veit ekki, hve lengi Sjálfstfl. ætlar að bíða í þessum efnum. Meginið af sæmilega frjálslyndum borgaraflokkum í Evrópu er þegar komið inn á þá stefnu, að það sé ómögulegt að ætla að ráða við nútíma atvinnulíf með öðru móti heldur en að gera slíkt, og hæstv. ráðh. Sjálfstfl. hafa áður sjálfir tekið þátt í slíkri starfsemi.

Mér liggur stundum við að halda, að það, sem sé meinið þarna, sé, að hæstv. ríkisstj. hafi svo slæma sérfræðinga, hennar hagfræðingar hafi svo lítið vit á þessum málum, að þeir hangi enn þá yfir gömlum 19. aldar hugmyndum, jafnvel um frjálsa samkeppni og annað slíkt, þegar þorrinn af hákapítalískum ríkjum í Evrópu, eins og Frakkland eða Noregur eða slík, er kominn inn á að stjórna efnahagsmálunum meira eða minna með heildarstjórn á fjárfestingunni. Það hefði þess vegna verið mjög æskilegt, að í staðinn fyrir þetta litla frv., sem er góðra gjalda vert, það sem það nær, hefðum við fengið frv., stórt í sníðum, til þess að reyna að breyta þessum straumi. Ég minntist á þetta hér, þegar frv. um framkvæmdasjóð, sem nú er afgreitt frá okkur, var til umr., en það er því miður enn eins og að berja höfðinu við steininn að reyna að koma viti fyrir menn með þetta. En helzt væri þess þó að vænta einmitt, að þeir hv. þm. og þeir hæstv. ráðh., sem sjálfir eru frá dreifbýlishéruðunum, fengjust til þess að taka þetta upp, og ég vildi mjög skjóta því til hæstv. fjmrh., hvort ekki mundi vera hægt hér í þinginu að ná einhverju samstarfi um ráðstafanir af viti í þessum efnum, — ráðstafanir, sem ekki mundu heimta neitt fé úr ríkissjóði. Ég skil vel, að það getur verið fyrir mann, sem vill passa vel upp á ríkissjóð, erfitt að vera að láta stórfé úr honum til slíks, enda er það alls ekki aðalatriðið. Hitt er miklu stærra atriði, í hvaða átt sjálfum lánveitingum bankanna er beint. Það er það, sem þarf að stjórna, í staðinn fyrir að moka því til þeirra, sem hafa aðstöðuna bezta hérna í Reykjavík, og hlaða hér hvað ofan á annað. Við skulum nefna sem dæmi um vitleysuna, sem á sér stað hérna í Reykjavík, ef það er rétt, að Einar okkar Sigurðsson ríki ætli að fara að setja upp umbúðaverksmiðju hérna til þess að fá tvöfaldar vélar í sambandi við það að framleiða umbúðir utan um hraðfrysta fiskinn. Fjárfestingin hér í Reykjavík hefur oft verið vitlaus og fer síversnandi, þannig að það væri hægt að spara alveg stórkostlega með því að taka völdin af svo og svo stórum hluta hvað snertir bankalánin og veita því út á land, til þess að forða Reykvíkingum frá þeirri vitleysu, sem alltaf er verið að gera hérna í sambandi við slíkar ráðstafanir. Það að láta þessa hluti ganga svona áfram stjórnlaust og án heildaryfirsýnar þýðir fyrr eða seinna „katastrófu“ fyrir þjóðfélagið, svo að ég tali ekki um „katastrófuna“, sem verst er, og það er ef við ætlum vitandi vits að tæma meira og meira dreifbýlið og gerbreyta þannig þjóðinni, því að það verður ekki sama þjóðin, sem vex upp hérna, eins og sú, sem hefur búið og býr við og berst við erfiðleikana úti um allt land. Þess vegna held ég, að það ætti, hvað sem allar skoðanir snertir, að reyna að fá samkomulag um að stíga stærra skref en þetta, sem vafalaust er stigið af góðum vilja, til þess að breyta þeirri hættulegu þróun, sem allir sjá, en menn glápa á án þess að gera þær ráðstafanir gegn, sem óhjákvæmilegar eru.