28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Í fjarveru frsm. okkar í 2. minni hl. fjhn. þessarar hv. d. þykir mér rétt að segja aðeins örfá orð um það nál., sem við höfum látið frá okkur fara á þskj. 613, svo og þær brtt., sem við flytjum við frv. á þskj. 597.

Þetta frv. er komið frá Ed., og fulltrúar Framsfl. í fjhn. þeirrar d. fluttu við frv., að ég hygg, 4 brtt. Þar af voru tvær samþ., sem ég tel að hafi verið báðar til bóta á frv., eins og það var lagt fram í sinni upphaflegu mynd. En tvær till. þeirra voru felldar, og það eru þær brtt., sem við hv. 1. þm. Norðurl. v. og ég höfum leyft okkur að taka upp við þessa umr. hér í Nd. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessum brtt.

Þetta mál hefur nokkuð verið rætt, bæði í hv. Ed. og eins hér í þessari hv. þd., og það hefur komið fram í öllum þessum umr., að Framsfl. er efnislega samþykkur þessu frv., og þarf það út af fyrir sig engum á óvart að koma, þar sem vitað er, að þm. þess flokks hafa undanfarin 4 ár a.m.k. flutt frv. um skipulagðar ráðstafanir til þess að auka jafnvægi í byggð landsins hér á hv. Alþ. Þessi frv. um jafnvægissjóð, eins og þessir þm. kölluðu sjóðinn, sem þeir fluttu frv. um, hafa aldrei fengið hér jákvæða afgreiðslu, ýmist enga eða þá að þau hafa verið felld, og ég vil segja, að það er okkur framsóknarmönnum mikil ánægja að verða varir þeirrar hugarfarsbreytingar hjá hv. stjórnarliði, sem lýsir sér í þessu frv., sem hér er til umr., og er vissulega ástæða til þess að fagna því. Aðeins ber að harma, að allur sá tími skuli hafa verið látinn líða, sem þessi frv. hafa legið fyrir Alþ., án þess að neitt væri gert til framdráttar þessu máli.

Ég hygg, að það sé óþarfi fyrir mig hér að fara að tíunda þau rök, sem liggja að nauðsyn þess, að þessar skipulögðu ráðstafanir af hálfu ríkisvaldsins séu upp teknar. Hvort tveggja er, að þessi rök hafa margsinnis verið flutt hér á hv. Alþ., svo og hitt, að sýnilegt er nú, að þau hafa loksins borið árangur. Ég læt þess vegna nægja að gera örstutta grein fyrir þeim brtt., sem við flytjum á þskj. 597, en þær eru tvær, eins og ég áðan sagði.

Fyrri brtt. er við 3. gr. og fjallar um það, að a-liður gr. orðist svo, en þar er rætt um tekjur atvinnujöfnunarsjóðs, að tekjur skuli verða 2% af árlegum heildartekjum ríkissjóðs, í fyrsta sinn 1967, og miðast framlagið hvert ár við tekjurnar, eins og þær voru áætlaðar samkv. fjárl. næstliðins árs. Við teljum, að það sé réttara, að tekjur sjóðsins séu miðaðar við ákveðinn hundraðshluta af fjárl. og þær greiðist úr ríkissjóði beint, frekar en hafa þann hátt á, sem frv. gerir ráð fyrir, að láta tekjur af álbræðslu ganga til sjóðsins. Með því fyrirkomulagi, sem við leggjum til, teljum við betur tryggt, að dýrtíðin geri ekki framlagið minna með hverju árinu sem líður, eins og ávallt er hætta á með þær fjárhæðir, sem ákveðnar eru með öðrum hætti en hlutfallsreikningi. auk þess sem við bendum á að tekjur af álbræðslu verða ekki handbærar fyrr en eftir 3 ár, þegar bræðslan tekur til starfa. Hins vegar er augljóst, að ójafnvægisafleiðingar álbræðslunnar byrja þegar við upphaf byggingar hennar, og eykur það því enn þörfina á því, að ekki dragist, að þetta framlag komi til.

Síðari brtt. er í formi ákvæðis til bráðabirgða. Hún fjallar um það, að stjórn þess atvinnujöfnunarsjóðs skuli þegar eftir gildi töku laganna gera með aðstoð Efnahagsstofnunarinnar bráðabirgðaáætlun um sérstaka skyndiaðstoð víð byggðarlög eða byggðarhluta, em eru í bráðri hættu fyrir því að fara í eyði eða dragast ört aftur úr því, sem almennt gerist nema til komi stuðningur við aðkallandi framkvæmdir og uppbygging atvinnuvega, enda séu þar viðunandi atvinnuskilyrði frá náttúrunna hendi til lands eða sjávar. Svo er í þessu bráðabirgðaákvæði talað um, að það skuli leita, eftir því sem við eigi og þurfa þyki, álits einhverrar af þessum stofnunum: Landnáms ríkisins, Búnaðarfélags Íslands. Fiskifélags Íslands og Iðnaðar álastofnunar Íslands, um þau úrræði, sem helzt eru tiltæk á hverjum stað. Til framkvæmd á þessari bráðabirgðaáætlun er lagt til, að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita óafturkræf framlög úr sjóðnum, allt að þriðjungi tekna hans til ár loka 1968, og að þessi framlög skuli veitt sveitar og sýslufélögum með fyrirmælum, sem sjóðsstjórnin setur um notkun þeirra.

Það hefur svo oft verið undirstrikuð nauðsyn þess að koma til aðstoðar við ýmis byggðarlög hér, tiltekin byggðarlög, sem hafa verið nefnd hér sérstaklega á hv. Alþ., að ég ætla alveg að sleppa að geta um það, hvar þessi bráðabirgðaaðstoð þyrfti fyrst að koma, en ég hygg, að þær umr., sem hér hafa farið fram á hv. Alþ., staðfesti það, að þeirra sé fyllilega þörf.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessar brtt. okkar á þskj. 597, vonast aðeins til þess, að þær fái jákvæðar móttökur hér í hv. þd.