21.10.1965
Neðri deild: 5. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér er hreyft við mjög þýðingarmiklu máli. Í rauninni er ætlunin með þessu frv., að mér skilst, að taka upp glímuna við verðbólguvandamálið.

Skv. frv. er gert ráð fyrir því, að Seðlabankanum verði veitt allvíðtæk heimild til þess að setja reglur um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Og ætlunin er sú, eins og líka kom glögglega fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að hafa með þessu áhrif á það, að ekki verði á sama hátt og áður ráðizt í ýmiss konar framkvæmdir í landinu með lánsfé fyrst og fremst í því augnamiði að græða á lántökunni og framkvæmdunum vegna verðlagsþróunarinnar, sem í landinu er.

Ég tel, að ráðstafanir í þessa átt séu góðra gjalda verðar, því að engin deila getur verið um það, að það er nauðsynlegt að reyna að reisa skorður gegn verðbólgunni á öllum sviðum og ýmsum óheilbrigðum framkvæmdum, sem vilja sigla í kjölfar verðbólgunnar. En það er nauðsynlegt að athuga það vel og vandlega, áður en reglur eru settar í þessa átt, hvort þær raunverulega muni koma að tilætluðum notum.

Í fyrsta lagi vakna að sjálfsögðu spurningar í þá átt í þessum efnum, hver sé í rauninni aðalástæðan fyrir hinni miklu verðbólgu, sem við eigum við að glíma nú. Eru aðalástæðurnar þær, að í gangi hafa verið í okkar landi á undanförnum árum verðbólguframkvæmdir, sem hafa skrúfað verðbólguna áfram? Og hvaða framkvæmdir eru þá þetta? Ég dreg það ekki í efa, að of miklar framkvæmdir á ýmsum sviðum hafa átt sinn þátt í því að auka hér spennu og magna verðbólgu á vissum tímum. Það er því að mínum dómi réttmætt að setja á ráðstafanir, sem að gagni gætu komið, til þess að draga úr slíkum framkvæmdum sem þessum. En samkv. þessu frv., eins og það liggur fyrir, þá sýnist mér, að athyglinni sé sérstaklega beint að tilteknum framkvæmdum landsmanna, sem ég vil mjög draga í efa, að séu meginvandamálið. Það er gert ráð fyrir því samkv. frv., að allir lífeyrissjóðir skuli hafa almenna heimild til þess að veita lán, sem séu verðtryggð, sem séu vísitölutryggð. Við vitum það, að aðallán þessara lífeyrissjóða hafa verið húsbyggingalán. Það er þegar búið að setja í lög ákvæði um það, að húsbyggingalán til almennings í landinu úr hinu almenna húsnæðismálakerfi skuli vera vísitölutryggð, og síðan er einnig gert ráð fyrir því með þessu frv., að lán, sem veitt eru úr hinum almennu stofnlánasjóðum, sem til eru í landinu, megi einnig vísitölubinda. Er það þá skoðun manna, að hinar almennu íbúðarhúsabyggingar, sem átt hafa sér stað í landinu á undanförnum árum, þær sem hafa fengið lán úr hinu almenna íbúðalánakerfi eða úr lífeyrissjóðakerfinu, þær íbúðarhúsabyggingar hafi verið svo allt of miklar, að þar sé að leita aðalorsakanna til verðbólguþróunarinnar í landinu á undanförnum árum? Eða telja menn, að framkvæmdir, sem efnt hefur verið til með lánum úr hinum almennu stofnlánasjóðum sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar, þær lánveitingar hafi verið sérstök orsök þessarar þróunar? Það er ekki mín skoðun, að svo sé, og ég satt að segja efast um, að það séu til hér hv. þm., sem vilji halda slíku fram. Auðvitað er ekkert um það að efast, að það eru til aðilar, sem ráðizt hafa í byggingu íbúðarhúsa með það í huga, að þeir gætu haft af slíkum framkvæmdum nokkurn verðbólgugróða, og ég hygg reyndar, að eins og öllum okkar viðskiptakjörum og verðlagsreglum er háttað, mundu slíkir aðilar geta haft sinn verðbólgugróða út úr byggingu íbúðarhúsa, jafnvel þó að slíkar reglur væru komnar í gildi, sem nú eru komnar í gildi um verðtryggingu á lánunum.

Það er enn fremur enginn vafi á því, að það eru ýmsar aðrar framkvæmdir, sem hafa átt sér stað í landinu á undanförnum árum og eiga sér stað enn fyrir lánsfé, sem ekki mundi verða náð til skv. reglum þessara laga, sem að mínum dómi hafa valdið hér miklum mun meiru um verðlagsþróunina í landinu eða verðbólguþróunina. Við skulum t.d. taka hinar gífurlega miklu fjárfestingarframkvæmdir á vegum verzlunarinnar í landinu á undanförnum árum, sem hafa að verulegu leyti verið afsakaðar með því, að verzlunin hafi verið í hungri í þessum efnum áður. Verzlunin hefur yfirleitt ekki fengið lán til þessara gífurlega miklu framkvæmda úr stofnlánasjóðum. Verzlunin hefur ekki heldur fengið lán til þessara miklu framkvæmda sinna úr hinu almenna íbúðalánakerfi. En hún hefur eigi að síður fengið mikil lán í því formi, sem algengast er, að verzlunin fái lán. Verzlunin hefur fengið mikil lán úr bankakerfinu. Þau lán hafa verið að nafninu til til stutts tíma: eins árs, tveggja ára, þriggja ára, óumsamin með öllu, yfirdráttarlán, hlaupareikningslán. En skýrslur bankanna sýna það, að peningarnir hafa flotið út í þessum efnum til þessara aðila, og verkin sýna merkin, byggingarnar hafa komið í ljós, fjármunirnir sjást að utan hjá þessum aðilum, og það er auðvitað enginn vafi á því, að verðbólguáhugi hefur verið talsverður á bak við þessar framkvæmdir. Eftir því sem gert er ráð fyrir f þessu frv., sem hér er nú til umr., mundu þessar fjárfestingarframkvæmdir ekki komast undir þetta eftirlit, þeir aðilar mundu væntanlega áfram fá öll sín lán úr bankakerfinu án þess að þurfa að vísitölutryggja lánin. Nei, það er þegar búið að taka þessum tökum á hinum fátæka íbúðarhúsabyggjanda landinu. Hann fær nú ekki lán úr húsnæðismálakerfinu án þess að þurfa að vísitölutryggja lánið, og það er nú um nokkurt skeið búið að hnýta þessu að sjávarútveginum. Enginn aðili í landinu getur nú fengið að taka lán til þess að kaupa sér fiskiskip án þess að undirskrifa þar lánsskjöl um það, að hann verður að bera gengisáhættu, fulla gengisáhættu af 70% andvirðis skipakaupanna eða alls þess láns, sem hann getur fengið úr sínum stofnlánasjóði, um sjö ára tímabil. Og sé skipið smíðað innanlands, þá verður hann einnig að undirskrifa þar skuldbindingar um að verðtryggja lánið. Þetta er þegar orðið svona hjá þessum stofnlánasjóði og búið að vera svona í nokkuð mörg ár. En það er rétt, að það eru samt sem áður nokkuð mörg lán, sem veitt eru, t.d. til sjávarútvegs í gegnum bankakerfið, sem ekki eru gengistryggð eða vísitölutryggð, og þau gætu að sjálfsögðu fallið undir reglur þær, sem þetta frv. fjallar um. Nú er því í gangi í þessum efnum veruleg mismunun á milli aðila, sem lán þurfa að taka, og þessi mismunun kemur núna mjög áberandi fram og stórkostlega hættulega fram í ýmsum efnum.

Ég held, að þegar reglur sem þessar eru settar, þurfi menn að gera sér grein fyrir því, hvort líklegt sé, að þessar reglur muni hafa einhver veruleg áhrif á það að draga úr vexti dýrtíðarinnar, að draga úr verðbólguþróuninni. Ég held, að það þurfi að beita hér allt öðrum aðferðum en þessum. Ég mundi óttast það, að þó að slíkar reglur sem þessar yrðu færðar nokkru lengra út en nú er, þá mundu þær litlu fá áorkað, en skapa margvíslegan vanda, — því að hver verður vandinn, ef verðbólgan heldur áfram að aukast, eftir að slíkar reglur sem þessi eru komnar í gang? Hver verður niðurstaðan t.d. í sambandi við húsnæðiskostnað almennings í landinu? Ef verðbólgan heldur áfram að vaxa, verður niðurstaðan sú, að húsaleiguútgjöld eða húsnæðiskostnaður almennings fer raunverulega vaxandi. En hver verður afleiðingin af því ? Ef húsnæðisútgjöld manna vaxa, þá vaxa líka kröfurnar um hækkað kaup á móti. Menn sleppa ekki undan þessu orsakalögmáli. Og ef verðbólgan heldur áfram að vaxa, eins og hún hefur vaxið á undanförnum árum, og búið er að setja upp enn viðtækari reglur en nú eru í gildi, t.d. viðvíkjandi okkar aðalframleiðslugreinum, landbúnaði, vísitölutryggja þau lán, sem hann fær, eða sjávarútveginum almennt séð, verður útkoman vitanlega sú, að greiðslur af lánunum fara sífellt hækkandi frá því, sem verið hefur, útgjöldin aukast, og þessir aðilar koma til þings og stjórnar og segja: Annaðhvort stöðvum við eða við þurfum frekari stuðning. — Ef reglur eins og þessar eiga að bera árangur, þá verða þær að leiða til þess að draga úr vexti dýrtíðarinnar, minnka verðbólguþróunina. En ég held hins vegar, að séu þessar reglur framkvæmdar á jafntakmörkuðu sviði og gert er ráð fyrir í þessu frv., hafi þetta ekkert að segja í sambandi við þróun verðlagsmálanna í landinu. Ef menn ætlast til þess að fá hér einhvern verulegan árangur, verður að færa út þessar reglur svo að segja til allra lánveitinga, einnig til mjög stuttra lána í flestum tilfellum, og það verður jafnframt að gera margvíslegar aðrar ráðstafanir til þess að hamla gegn vaxandi dýrtíð, því að annars fer þetta allt saman um koll á tiltölulega stuttum tíma.

Við skulum t.d. taka dæmi af því, sem er nærtækt og við þekkjum vel til. Við skulum hugsa okkur, að slíkar reglur sem þessar væru komnar í gildi miðað við það ástand, sem nú er í okkar þjóðfélagi. Ríkisstj. er enn á fullri ferð að leggja nýjar álögur á í ýmsum myndum og ég hygg, að flestir þingmenn hafi gert sér grein fyrir því, að það er að minnsta kosti á fínan hátt búið að tilkynna mönnum það, að ef skelli á ríkissjóð talsvert aukin útgjöld af kauphækkun opinberra starfsmanna, sem vel megi búast við á næstunni, og ef það eigi að halda áfram sams konar stuðningi til sjávarútvegsins og hefur verið í gildi á þessu ári, þá megi einnig búast við því, að ríkið þurfi að afla tekna í þessu skyni til viðbótar við þá tekjustofna, sem nú eru í gildi. Við skulum því hugsa okkur, að til viðbótar við aliar þær álögur, sem nú er þegar búið að tilkynna og ákveða, komi enn nýjar. Býst nú einhver við því, þegar þessar álögur koma út í viðskiptalífið, að þá hækki ekki verðlag og kostnaður allur í landinu? Geta menn búizt við öðru en að launafólk almennt í landinu svari þessu með því að segja: Við gerum kröfur um hækkað kaup? — Og ef að venju lætur, þá segja stjórnarvöldin: Hækkað kaup og annar hækkaður kostnaður, það þýðir að sjálfsögðu það, að allir, sem með viðskipti hafa að gera í landinu, verða að fá að hækka allt. — Þannig hefur þetta gengið. Vísitalan mundi hækka, og þeir, sem standa í framleiðslunni og hafa skiljanlega orðið að taka lán, verða bara að greiða til viðbótar við tiltölulega háa vexti dýrtíðarskatt, dýrtíðaruppbót til þeirra, sem veittu lánið, útgjöld þeirra mundu vaxa, og hjólið mundi snúast öllu hraðar á eftir en áður.

Ég held því, að það sé algert grundvallaratriði í þessum efnum, að hæstv. ríkisstj. geri sér grein fyrir því, ef hún vill fara inn á þessa braut, að þá verður að vera um það að ræða, að svona verðtrygging verði mjög almenn, nái svo að segja til allra lánveitinga, og að jafnhliða þurfi að gera viðtækar efnahagslegar ráðstafanir til þess að hamla gegn því, að dýrtíðin geti haldið áfram að vaxa, vegna þess að þessar ráðstafanir einar út af fyrir sig mundu aldrei duga.

Það liggja fleiri ástæður til hækkandi verðlags í landinu en aðeins miklar framkvæmdir og dýrtíðarspekúlasjónir í þeim efnum. Það eru fleiri ástæður, sem hér eru að verki, og það þarf einnig að taka á þeim. Ríkisstj. þarf að mínum dómi að hafa kjark til þess að taka til dæmis í fjárfestingarmálunum í landinu og ákveða, að það skuli ekki ráðizt í meiri framkvæmdir hverju sinni en talið er, að hagkerfið fái þolað. Það þarf að þora að taka stjórn á fjárfestingarmálum þjóðarinnar og raða þar niður framkvæmdum, eins og oft hefur verið minnzt hér á. Og ríkisstj. verður einnig að þora að taka á því mikla vandamáli að reyna að hafa hemil eða stjórn á verðmynduninni í landinu, á verðlagningarreglum. Það er ekki hægt á Íslandi að segja við alla viðskiptaaðila, eins og gert hefur verið: Þið verðið að ráða þessum málum sjálfir, þið skuluð ráða því, hvað þið leggið mikið á. — Ef þær reglur verða áfram í gildi, fer þetta allt úr böndunum, og þá eru reglur sem þessar í rauninni til hins verra.

Hér er um að ræða 1. umr. um þetta mál. og málið fer í þá n., sem ég á sæti í, og ég skal því ekki ræða frekar um það. Ég vildi aðeins láta nokkrar almennar aths. koma hér fram um málið. Út af fyrir sig er ég ekki andvígur því, að athugað sé um bæði verðtryggingu á sparifé og verðtryggingu á fjárskuldbindingum, en ég vil fyrir mitt leyti taka það alveg skýrt fram, að ég tel nauðsynlegt, að menn geri sér fulla grein fyrir því, við hvaða vanda er hér að etja í þessum málum og ráðstafanir á takmörkuðu sviði í þessa átt koma að litlu gagni og geta haft fólgnar í sér miklar hættur.