31.03.1966
Neðri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. fyrir þær skýringar á afstöðu Seðlabankans og hans eigin afstöðu, sem hann hefur gefið, en vildi um leið leiðrétta nokkuð það, sem hann sagði um mínar skoðanir. Það gæti kannske gefið dálitið villandi mynd, eins og hann setti þær fram.

Það, sem fyrir mér er aðalgallinn á þessu frv., er sú verðtrygging stofnlána, sem í því felst, og í sambandi við það álít ég, að sé höfuðhættan, sem er við þetta frv. Verðtrygging sparifjár hefur þegar á vissan máta verið tekin upp hjá ríkisstj. með vissri sölu ákveðinna skuldabréfa, sem meira að segja er hægt að losa sig við eftir 3 ár, og að því er mér finnst hafa það verið óvenjugóð kjör fyrir lánardrottna, sem ríkisstj. hefur gefið þar, en það skal ég ekki fara út í.

Varðandi spursmálið almennt viðvíkjandi verðbólgunni skulum við koma okkur niður á tvennt. Stöðnun í gildi peninga getur verið hættuleg, og hún hefur sýnt sig í gegnum aldirnar að vera hlutur, sem atvinnulífið byltir af sér. Það, að fjármagnið sem slíkt eigi að sitja þarna í öndvegi, en atvinnulífið, sem fær peningana að láni, skuli raunverulega vera þolandinn, er atriði, sem alls ekki gengur í allri framvindu þjóðfélagsins. Ef við lítum yfir þetta í gegnum aldirnar, er það, sem hefur gerzt, í raun og veru það, að skuldaskrárnar hafa verið afnumdar og það bara vegna þess einfalda lögmáls, að það er lífið sjálft, í þessu tilfelli atvinnu- og efnahagslífið, sem byltir smátt og smátt af sér þeim fjötrum, sem lánin eru. Hæg og sígandi verðbólga er einkenni á allri þróun í efnahagslífi og atvinnulífi allrar Evrópu og Bandaríkjanna alla 19. og 20. öld Það er, held ég sé alveg óhætt að segja, hagfræðilegt lögmál, og einu undantekningarnar frá því hagfræðilega lögmáli eru krepputímarnir. Á krepputímunum getum við lifað það ástand, að gildi peninganna vaxi, að verðmæti alls þess, sem atvinnulífið framleiðir, falli í verði, að t.d. fiskurinn frá Íslandi stórfalli í verði og annað slíkt. Og það er reynsla alls mannkyns, að það ástand, að peningarnir þannig raunverulega hækki í verði og fjármagnið drottni, en atvinnulífið aftur á móti brotni saman undir þessum fjötrum, er það versta ástand, sem hægt er að skapa. Þetta er hlutur, sem við verðum að muna, líka á óðaverðbólgutímum. Við verðum jafnt að muna kreppu í slíkum efnum eins og óðaverðbólgu.

Það, sem ég álít og vil undirstrika, er þetta: Það þarf að vera stjórn á atvinnulífinu og efnahagslífinu og þess þróun. Það þarf að vera stjórn á því, þannig að menn varist þau tvö sker, sem eru sitt hvorum megin við, þar sem maður á að sigla. Annað skerið er kreppan, sem þýðir, að verðið á því sem framleitt er í atvinnulífinu, fellur og peningarnir hins vegar hækka í verði, verða enn þá voldugri, nema svo ægilega sé komið í atvinnulífinu, að þeir fari að falla líka, eftir að þeir eru búnir að eyðileggja atvinnulífið, þ.e.a.s. algert hrun. Annars vegar þarf að forðast þetta. Hins vegar þarf að forðast óðaverðbólguna. Það er listin að stjórna efnahags- og atvinnulífi eins þjóðfélags að kunna að sigla á milli þessara tveggja skerja, kreppu og óðaverðbólgu, að hrekjast ekki úr einu í annað.

Það, sem gerzt hefur hjá okkur á síðustu áratugum, er, að við höfum haft óðaverðbólgu, og ég vil alveg slá því föstu og þar erum við sammála, hæstv. viðskmrh. og ég, að 10% vöxtur á ári er óðaverðbólga og er stórhættuleg verðbólga, og slík verðbólga er óstjórn á efnahagslífinu, sams konar óstjórn og kreppan mundi vera, en bara af öðru tagi. Þá er verið að sigla upp á sker hægra megin, skulum við segja, ef við köllum kreppuna vinstra megin, án þess að eiga þar við nokkrar stefnur í pólitík. Við höfum staðið í 20 ár frammi fyrir óðaverðbólgu á Íslandi, sem er stórhættuleg með allar þær afleiðingar, sem hæstv. viðskmrh. greindi. Hann sagði, að þetta væri afleiðing af óstjórn, og þar er ég honum sammála, og hann kveður þar með upp dóminn yfir öllum þeim stjórnum, sem setið hafa á Íslandi, hvað snertir afskipti af efnahagslífinu, að það, sem hefur einkennt þær í afskiptum af efnahagslífinu, er óstjórn, er það að þora ekki og kunna ekki að hafa vald á atvinnu- og efnahagslífinu og stjórna því, hvort sem menn gera það út frá því, að menn þora ekki að gripa til þeirra ráðstafana, sem þarf að gera, eða menn gera það út frá hinu, að menn trúi t.d. á frjálsa samkeppni eða eitthvað þess háttar, einhverjar grýlur, sem hægt sé að treysta á í þessu sambandi, og þjóðfélagið eigi þannig að stjórna sér sjálft. Ég veit, að hæstv. viðskmrh. eins og öll hæstv. ríkisstj. viðurkennir, að hvað þetta snertir hafi hennar stjórn eins og ýmissa annarra verið óstjórn, þ.e. henni hafi ekki tekizt að hafa hemil á verðbólgunni. Það hafi geisað sama óðaverðbólgan og áður. Það er ekki til neins að koma í þessu sambandi upp með það, sem hæstv. viðskmrh. minntist á, að þetta séu bara víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags. Það, sem liggur fyrir í því sambandi, er eftir allt, sem við erum hér sammála um, þær miklu framfarir, sem orðið hafa á 20 árum, það er, að raunverulegt kaupgildi tímakaups er sama og það var fyrir 20 árum. Og ég hef rakið það áður og skal ekki gera það aftur. En þótt ég taki kaup hafnarverkamanns með Dagsbrúnartaxta 1945 og beri saman við kaup hafnarverkamanns í Dagsbrún í 4. flokki, reiknað með, að hann hafi starfað í 2 ár og fengið 5% uppbæturnar, þá er það í dag 100.7, þ.e.a.s. rétt 100 miðað við 100 1945. Það er það sama og það var þá.

Það, sem veldur óstjórninni í þessu efni, er, að enginn aðili hefur þorað af fullum krafti að framkvæma það eina, sem getur fyrst og fremst dugað í þessum efnum til að stöðva verðbólguna, og það er að þora að stöðva verðlagið og láta ekki kaupgjaldshækkanir koma fram í verðlagi, heldur knýja atvinnurekendurna til þess að skipuleggja sinn atvinnurekstur betur. Þetta er fyrsta ráðið til þess að reyna að stöðva verðbólguna, en ég veit, að tveir stærstu flokkar þingsins eru báðir andvígir því, og ég hef áður skilgreint af hverju. Alþ. hefur ekki í 25 ár getað gert neitt í þessum málum, vegna þess að þeir flokkar, sem fyrst og fremst fara eftir hagsmunum verzlunarauðvaldsins og þeirra, sem allt of mikið draga dám af því, þeir hafa haft algeran meiri hl. á Alþ. Þetta er ástandið í þessum málum, ef við viljum fara að horfast í augu við það. Verzlunarauðvaldið á Íslandi er sá hluti auðvaldsins, sem hefur ráðið ferðinni allan þennan tíma í beinni andstöðu við hagsmuni bæði sjávarútvegsmanna og iðnaðarins. Þess vegna skulum við ekki láta vera neinn misskilning um það hjá okkur, að ég er jafnsammála hæstv. viðskmrh. um, að óðaverðbólgan, sem geisað hefur á Íslandi undanfarna áratugi, er stórhættuleg, eins og ég mundi álita stöðnun og kreppu stórhættulega, og eins og ég hef nú tekið fram, að þetta sé afleiðing af óstjórn, sem við þurfum að fara að komast fyrir ræturnar á og reyna að skapa aðra stjórnarstefnu.

Þá skulum við koma að þessu frv. sjálfu. Er þetta frv. raunverulega þáttur í að stöðva verðbólguna? Ég álít, að svo sé ekki. Ég sé ekkert í þessu frv., sem getur leitt til þess að stöðva verðbólguna, nema það væri einn einasti hlutur, og um það vil ég spyrja, hvort það sé meiningin.

Það er einn einasti hlutur í þessu frv., sem gæti að einhverju leyti orðið til þess að draga úr verðbólgunni, og hann er þessi: að það væri framkvæmt svo harðvítuglega að gefa út þessi verðtryggðu stofnlán og þeim væri beitt svo viðtækt í atvinnulífinu og hvað íbúðarlánin snertir, að almenningur almennt hætti við að taka lán til íbúða og atvinnurekendur mjög almennt hættu við að taka lán til nýrra framkvæmda, þannig, að af hlytist kreppa, af hlytist stöðnun í atvinnulífinu og kreppa. Ef þetta er tilgangurinn með frv., þá er bezt að segja það, ef þetta er það eina, sem gæti stöðvað verðbólgu með þeim aðferðum, sem hér eru lagðar til. Það er náttúrlega gefið mál. að ef kreppa er skipulögð hérna, stöðvast verðbólgan, En ég trúi því ekki, að þetta sé meiningin. Og ég þykist vita, að jafnvel þótt einhverjir utan ríkisstj. hafi verið með slíka meiningu, þá mundi hæstv. ríkisstj. hvorki fallast á það né a.m.k. segja það hér við okkur.

Þetta er eina atriðið í þessu, sem gæti raunverulega gert eitthvað í þá átt að draga úr verðbólgunni. En ég hef enga trú á því, að það sé meiningin að fara að framkvæma þessa hluti svona harðvítuglega, og þess vegna held ég, að þetta frv. sé gagnslaust, því að það getur ekki gert gagn með þessu móti nema með gífurlegri harðstjórn af hálfu Seðlabankans.

Eins og ég hef tekið fram, er ekki hægt að byrja á ráðstöfunum þarna til að reyna að stöðva verðbólguna nema að stöðva verðlagshækkanirnar sjálfar. Það verður að byrja á því, og það er ekki hægt að byrja á öðru.

Hæstv. viðskmrh. gaf yfirlýsingu, sem mér þótti mjög vænt um. Hann sagði, að þetta frv. væri í raun og veru framhald af því að setja verðtryggingu á húsnæðismálalánin frá húsnæðismálastjórn, og ef þetta frv. væri ekki samþykkt og stofnlán og annað slíkt samkv. því gefin út, ætti að afnema vísitölutryggðu húsnæðislánin. Þetta er alveg rétt. En nú skulum við athuga, hvað er verið að gera í þessum efnum, einmitt eftir þeirri yfirlýsingu, sem bankastjóri Seðlabankans, sá sem mætti á fundi hjá fjhn., gaf. Hann gaf yfirlýsingu um það, að fyrst og fremst ætti að beita þessum verðtryggðu lánum í sambandi við lífeyrissjóði. Og í 7. gr. frv. er beinlínis gengið út frá því, að það sé gert. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að fyrst og fremst eigi að beita þessu gagnvart almenningi, gagnvart því fólki, sem er að reyna að eignast þak yfir höfuðið og a.m.k. í 50% af tilfellunum hefði ekki getað eignazt þetta þak yfir höfuðið án verulegrar verðbólgu.

Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að það virðist vera meiningin að byrja með því, eftir að húsnæðismálalánin hafa verið verðtryggð, að setja verðtrygginguna næst á lífeyrissjóðina.

Það var rætt um það hér, að það væru stjórnir lífeyrissjóðanna, sem mundu ráða því, hvort þær æsktu eftir slíkrí heimild, Seðlabankinn hefði engan rétt til þess að fyrirskipa þeim það. Hins vegar, ef við setjum okkur í spor stjórnenda lífeyrissjóðanna sem slíkra, þá er náttúrlega nokkurn veginn gefið, að sem ábyrgðarmenn fyrir þessum sjóðum koma þeir til með að óska eftir þessu, vegna þess að þeir skoða sig sem skuldbundna til þess að reyna að tryggja sjóðina, en ekki skuldbundna til að hugsa um þá menn, sem eiga að fá lán úr sjóðunum, þannig að það er mjög líklegt, að lífeyrissjóðirnir hagnýti þetta vald. Það þýðir m.ö.o., að það fyrsta, sem gert verður í þessum efnum, næst á eftir að búið er að vísitölubinda húsnæðismálalánin eða lán frá húsnæðismálastjórn, verði að vísitölubinda líka eða verðtryggja lánin úr lífeyrissjóðunum. Og í 7. gr. er gert ráð fyrir, að þau skuli tryggð með veði í íbúðarhúsum og með sömu kjörum og íbúðarlán húsnæðismálastofnunarinnar, sem sé með 1. veðrétti, eins og bent hefur verið á, sem þýðir, að menn ættu þá ekki að geta fengið bæði húsnæðismálastjórnarlán og lífeyrissjóðslán. En nú hefur það þó verið svo, að menn hafa getað fengið hálf lífeyrissjóðslán, þegar menn hafa fengið húsnæðismálastjórnarlán, þannig að þetta frv., hvað snertir þá framkvæmd, sem bankastjóri Seðlabankans telur nr.1, er bein árás á þá viðleitni almennings að reyna að eignast íbúðir, — bein árás á þá viðleitni. Og það er nauðsynlegt, að það verði mönnum algerlega ljóst.

Við verðum að gá að því, að þegar hæstv. viðskmrh. talar um, að verðbólgugróðinn sé ranglátasti gróði, sem til sé, skulum við ofurlítið athuga, hverjir það eru, sem í hlut eiga.

Það eru tvennir aðilar, sem hafa grætt á verðbólgunni á Íslandi. Það eru annars vegar þeir aðilar, sem hafa verið að eignast íbúðir. Þeir hafa grætt á verðbólgunni, það er ekkert spursmál um það. Er þetta mjög ranglátt, að þeir skuli hafa grætt á henni? Maður getur sagt: Það er alveg óþarfi, að þeir hafi grætt þetta fljótt og þetta mikið. Verðbólgan hefði átt að vera miklu hægari. — Hinu aftur á móti skulum við muna eftir, að þetta fer, þótt það skiptist misjafnt á launafólkið, þá fer þetta til fólks, sem á sama tíma hefur í sífellu verið snuðað, verið arðrænt hvað snertir þess kaup. Í 20 ár er búið að halda þess kaupi niðri, þess raunverulega kaupi.

Það eina, sem þetta launafólk, þar sem meira að segja hafnarverkamenn eiga að 70% eigin íbúðir, — það eina, sem þetta launafólk, sá hluti þess, sem hefur lagt í íbúðir, hefur getað fengið út úr þessu, eina uppbótin á allt tjónið, sem verðbólgan er búin að valda þessu fólki í 20 ár, það er þetta, sem þeir hafa eignazt í sínum íbúðum fyrir verðbólguna. M.ö.o.: afleiðingar þessarar verðbólgu, svo slæm sem hún er, hafa raunverulega verið að vissu leyti réttlátar eða góðar, þegar þær hafa lent til almennings á þennan hátt.

En svo skulum við athuga hinn hlutann. Og þar á það við, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri ranglátasti gróðinn. Ég býst ekki við, að hann telji hafnarverkamann, sem hefur eignazt þriggja herbergja íbúð og þrælað sína 11 og 12 tíma nú í 20 ár og venjulega sumarfríin sín líka og sótzt eftir að fá að vinna á sunnudögum, — ég býst ekki við, að hann telji það sérstaklega ranglátan gróða, þó að hann hafi átt auðveldara með þessum þrældómi að geta staðið undir því að missa ekki íbúðina sína. En ranglátasti gróðinn kemur, þegar við komum að því, að einstakir stóratvinnurekendur í landinu hafa kerfisbundið fengið lán úr bönkunum, víxla og annað, aldrei staðið í skilum með þessi lán, heldur fest þau undireins í fyrirtækjum, sem hafa hækkað í verði, þannig að þeir hafa alltaf staðið þannig, þegar bankarnir hafa verið að hugsa um, hvort þeir ættu nú að fara að ganga að honum þessum, að auðvitað hefur hann átt fyrir skuldum, því skyldi þá vera að ganga að manninum og stöðva atvinnurekstur hans? Og hver er afleiðingin? Afleiðingin er, að slíkir menn standa uppi, þegar t.d. stóreignauppgjör er gert eða þess háttar, sem ríkustu menn landsins.

Þarna á það við, sem hæstv. viðskmrh. sagði um ranglátasta gróðann. Þessir menn, þessir stóratvinnurekendur, sem hafa náð fénu úr bönkunum og hagnýtt það á þennan máta, hafa stórgrætt. Og þarna er verðbólgugróðinn.

En hefur nokkur maður trú á því, að þennan verðbólgugróða eigi að stöðva? Ég hef ekki trú á því. Verðbólgan er nú í 20 ár og meira búin að vera höfuðgróðalind íslenzkrar auðmannastéttar. 10% á ári, það er gróði, sem erlendum auðmönnum og jafnvel stórum félögum eins og Standard Oil og slíkum þykir skikkanlegur gróði af sínu auðmagni.

Hér aftur á móti hefur gróði fólgizt í því að ná pólitískum tökum á ríkisbönkunum, veita úr ríkisbönkunum lánin til einstakra atvinnurekenda, sjá um, að gengið sé síðan fellt og verðið í sífellu að hækka, þannig að þeir, sem hafa þau einkaréttindi að fá þennan gróða, að fá þessi lán, græði á þeim. Þetta hefur verið sagan í meira en 20 ár.

Þannig hefur það verið höfuðstefnan að veita ranglátasta gróða til atvinnurekendastéttarinnar á Íslandi. Bankarnir eru nokkurn veginn jafnríkir eða jafnfátækir, hvort sem við viljum kalla það, eins og þeir voru fyrir 20 árum, ef maður metur það t.d. miðað við dollara. En þeir, sem hafa fengið peningana úr þeim, eru orðnir auðugir. Og það er ekki tilviljun, að það skuli ekki fást gert upp, hvað sá auður er mikill. Ef við vildum þess vegna fara út í þessa hluti, skulum við taka fyrir þá, sem hafa fengið þennan rangláta gróða, og koma okkur niður á ráðstafanir til þess að láta þá skila honum til baka. Hins vegar hef ég enga trú á því, að neitt slíkt sé meiningin með þessu frv., síður en svo.

Ef við svo athugum almennt, hvort það sé rétt að verðtryggja fjármagn, þá komum við að öðrum hlut. Fjármagnið í þjóðfélaginu tekur fyrst og fremst sinn gróða og sína tryggingu í gegnum vextina. Vextirnir eru ráðstöfun fjármagnsins til þess að ná til sín frá atvinnulífinu svo og svo miklu af því, sem fjármagnið veitir atvinnulífinu. Fjármagnið og vextirnir heyra þarna saman. Og það eina, sem á að gera fjármagninu mögulegt í slíkum efnum, er að taka vextina. Það er að mínu áliti ekki rétt að fara inn á að verðtryggja fjármagnið, vegna þess að það er röng stefna gagnvart því lifandi lifi efnahags- og atvinnulífsins. Það er röng stefna. En eins og ég veit, að hæstv. ráðh. skilur, þegar ég annars vegar er búinn að lýsa yfir, hvernig hægt sé að skapa ranglátan gróða með óðaverðbólgu, á ég nú við, hvernig eigi að stjórna eðlilegu atvinnulífi í þjóðfélaginu. Og þá verðum við að muna eftir þessu, að við megum ekki gefa fjármagni nein sérréttindi þannig. Ef menn vildu fara að verðtryggja fjármagn, held ég, að ætti að fella vextina niður, a.m.k. meðan maður gengur út frá, að verðbólgan haldi áfram. Það væri alveg nægilegt fyrir fjármagn að hafa þá tryggingu að vera jafnverðmikið eftir. Fjármagninu og þess ágengni gagnvart atvinnulífinu verður alltaf að halda í skefjum. Það er beinlínis stórhættulegt að gefa fjármagninu sérréttindi gagnvart atvinnulífinu.

Ég held, að misskilningurinn í því að leggja þetta frv. fram af hálfu hæstv. ríkisstj. og af hálfu seðlabankastjórnarinnar liggi í eftirfarandi: Seðlabankastjórnin er að reyna að stjórna íslenzku atvinnulífi með svo að segja fjármálatæknilegum aðgerðum, ef ég má nota það orð, með tæknilegum aðgerðum á fjármálasviðinu, eins og hægt væri að stjórna t.d. atvinnulífi Bandaríkjanna eða Bretlands, stjórna með vöxtum og vaxtabreytingum, stjórna með samdrætti í lánum, sem þýðir, að lánin fari utan við bankana, stjórna með verðtryggingu eða einhverjum slíkum fjármálatæknilegum aðgerðum. Þessar fjármálatæknilegu aðgerðir duga ekki í okkar þjóðfélagi eingöngu, af sömu ástæðum út frá smæð okkar þjóðfélags, eins og þau lögmál, sem mundu gilda á úthafinu um, hvað bylgjurnar geta orðið stórar, mundu ekki geta notið sín í vatnsglasi.

Þegar menn ætla að stjórna efnahagslífi Íslands og ráða þróuninni í efnahags- og atvinnumálum, verður það að gerast með beinum þjóðfélagslegum afskiptum og yfirstjórn á atvinnulífinu. Það er ekki hægt með öðrum aðferðum vegna smæðar okkar atvinnulífs. Það, sem búið er að reyna að gera meira eða minna, frá því að Bandaríkjamenn fóru að skipta sér af okkar efnahagslífi og senda hingað sinn sérfræðing til þess að fyrirskipa okkur á grundvelli Marshalláætlunarinnar, hvernig við skyldum haga okkar málum, — það, sem búið er að reyna að gera allan þennan tíma, er að reyna að stjórna með þessum fjármálatæknilegu aðgerðum, sem eiga við hjá þeim, í þeirra stóra landi, en eru gersamlega ónothæfar, þó að hver sérfræðingurinn komi á fætur öðrum til að nota þær hér. Þær eru gersamlega ónothæfar. Það væri rétt eins og ætti að sigla í logni.

Ég skal taka dæmi, sem ég hef minnzt á hér áður og þarf þess vegna ekki að fara ýtarlega út í. Ég hef minnzt á það hér áður, hvaða fjármálaleg vitleysa rekstur hraðfrystihúsanna í Reykjavík er. Ég tala ekki um 5—7 hraðfrystihús í Keflavík, ég tek Reykjavík. Hvaða manni sem byggði hraðfrystihús út frá því að reka það á eðlilegan máta mundi detta í hug að byggja hraðfrystihús t.d. úti á Seltjarnarnesi og fiskimjölsverksmiðju inni í Kleppsholti í stað þess að byggja hraðfrystihús og fiskimjölsverksmiðju hvort tveggja á Grandagarðinum, hlið við hlið, og sannarlega er eitt stórt hraðfrystihús nægilegt fyrir Reykjavík? Mundi með fjármálatæknilegum aðgerðum, verðtryggingu lána og slíku nokkurn tíma vera hægt að hafa þau áhrif, að þeir aðilar, sem ættu frystihúsin, legðu saman og flyttu vélarnar einu sinni í stað þess að flytja fiskinn mörgum sinnum á dag í næstu 40—50 ár, — mundi nokkurn tíma vera hægt að koma þeim í skilning um að gera slíkt með fjármálatæknilegum aðgerðum? Aldrei. Hins vegar væri hægt að gera þetta einfaldlega með því, ef viðkomandi ráð, sem stjórnaði bankastarfseminni, léti bankastjóra segja við þá: Er nú ekki skynsamlegra fyrir ykkur að slá ykkur saman um þetta og hætta að dingla með hvern þorskhaus 10 km um allt þéttbýlið í Reykjavík, áður en unnið er úr honum? Okkar smæð er svo mikil í þessum efnum, að við verðum að þora að gripa þarna inn í og ráðleggja, hafa hönd í bagga með, hafa yfirstjórn á atvinnulífinu, en láta okkur ekki detta í hug, að við gerum þetta með einhverjum almennum aðferðum.

Hæstv. ríkisstjórn hefur hugsað sér, að hægt væri að gera allt með frjálsu samkeppninni og með því að hleypa inn erlendum vörum, stundum í samkeppni við íslenzka iðnaðinn. Skóverksmiðjurnar voru gott dæmi. Þær voru einar níu eða tíu, það er búið að drepa allar nema eina. En þeim hefur ekki dottið í hug að reyna að sameinast sjálfum, bönkunum því síður að segja það við þær, að reyna sem sé að ýta af hálfu þess opinbera undir þá eðlilegu tækniþróun, svo sem er gert í hverju þjóðfélagi, það virðist mönnum ekki detta í hug.

Tækni og það að vera samkeppnisfærir heimtar stórrekstur. Bankarnir hafa verið þeir aðilar, sem hafa skipulagt þennan stórrekstur erlendis. Ef þeir ekki skilja það hlutverk sitt hér, tekst ekki að gera það með þessum fjármálatæknilegu aðferðum, ekki heldur með því að trúa bara og boða frjálsa samkeppni eða eitthvað slíkt og hún sé allra meina bót.

Ég skal hins vegar viðurkenna, að það, sem ég segi í þessum efnum, á ekki við um allt Ísland. Menn verða að venja sig á að hugsa um svo að segja tvö þjóðfélög á Íslandi í þessu efni. Dreifbýlið kemur alltaf til með að heimta sinn sérstaka hátt í þessum efnum. Vegna mannfæðarinnar þar er ekki hægt að koma ýmsum þeim hlutum við, sem hægt er að gera hér í Reykjavík. Það verður að vera eitt hraðfrystihús, þó að það séu ekki nema nokkrir bátar, sem gerðir eru út, en hér í þéttbýlinu í Reykjavík og umhverfi er ekki hægt að reka þetta með því að hafa þann hátt á, eins og væri í mörgum þorpum. Þéttbýlið heimtar sinn stórrekstur. Þar er hægt að koma aðstöðu við, sem ekki er hægt að koma við í dreifbýlinu úti á landi. Hins vegar með heildarskipulagningu á landinu er hægt að sjá um, að t.d. ein verksmiðja til að framleiða fyrir íslenzkan markað sé byggð einhvers staðar á einum stað í dreifbýlinu og ekki komið upp í þéttbýlinu í Reykjavík, og tryggja þannig, að ekki sé farið að setja upp aðra verksmiðju til þess að eyðileggja báðar.

M.ö.o.: hvernig sem við veltum þessu fyrir okkur, ef það opinbera þorir ekki að taka ábyrgðina á stjórninni á atvinnulífinu, hafa yfirstjórn á því, hvort sem það atvinnulíf er rekið af einstaklingum, samvinnufélögum, hlutafélögum, ríkinu, bæjunum eða hverjum sem er, þá getum við ekki skipulagt atvinnulíf Íslands þannig, að það standist samkeppni, þegar og ef loksins verður opnað þannig fyrir, að við verðum að geta barizt í þeim stóra vægðarlausa heimi, sem við höfum afgirt okkur frá með alls konar tollmúrum, höftum og öðru slíku fram að þessu. Þess vegna þykir mér það sárt, að það skuli enn einu sinni, undan rifjum Seðlabankans í þetta sinn, fyrir 15 árum var það undan rifjum Framkvæmdabankans, — enn einu sinni koma fram frv., sem eiga ekki við Ísland og eru tilraun manna, sem kunna að vera vel að sér í sínum fræðum, til þess að gera það, sem þeir læra í skólum, að sé rétt, og það, sem er rétt hvað snertir Bandaríkin og Bretland, en það, sem á ekki við hér. Og það er alveg ægilegt, ef þjóðin á að þurfa að ganga í gegnum það, að gerðar séu tilraunir af þessum nýútskrifuðu skólapiltum með íslenzkan þjóðarbúskap ár eftir ár, og þá fyrst, þegar menn sjá, að þetta hafi álit saman misheppnazt, sé þessu hætt. Mig minnir, að nokkrum sinnum sé komið fram frv. um að afnema Framkvæmdabankann, ég er búinn að leggja það til í nokkuð mörg ár.

Ég held þess vegna, að það væri mjög rangt af hæstv. ríkisstj. að pína þetta frv. í gegnum þingið. Ég álit þetta frv. almennt séð ónáttúrlegt, hvað það snertir að ætla að gefa fjármagni sérréttindi fram yfir lífið, fram yfir atvinnu og efnahagslíf. Ég álit þetta frv. raunverulega óframkvæmanlegt í íslenzku atvinnulífi. Og ég álit, að þetta frv., ef það væri reynt að framkvæma það, mundi skapa mjög mikið óréttlæti. Það mundi fyrst og fremst felast í því, að það væri níðzt á þeim, sem væru að reyna að eignast þak yfir höfuðið, og banna þeirri æsku, sem nú er að fara út í lífið, að geta notið þess að eignast eigin íbúðir. Það er fyrsta og höfuðafleiðingin af þessu frv. Að svo miklu leyti sem því yrði beitt gagnvart atvinnurekstrinum, verður spurningin þessi, þegar atvinnurekandinn kemur til bankastjórans: Hvort viltu nú fá verðtryggð lán eða viltu fá víxla? Og fái maðurinn víxla, fær hann sérréttindi verðbólgunnar, fái hann verðtryggðu lánin, er hann líklega dauðadæmdur Það skapar grundvöll fyrir að gera mönnum afskaplega mishátt undir höfði, enda var það alveg greinilegt, að bankastjórarnir voru allir yfirleitt hræddir við þetta Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. stöðvi þetta frv. og láti það ekki verða að lögum.

Um hitt vil ég aðeins taka fram, viðvíkjandi húsnæðismálastjórnarlánunum, að ég trúi ekki öðru en verkalýðshreyfingin sé ákveðin í því að hnekkja þeirri verðtryggingu, ef það verður ekki gert hér á þinginu.