14.04.1966
Neðri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja með fáum orðum að þeirri hlið þessa frv., sem snertir húsbyggjendur, og þá um leið að þeirri till., sem hv. síðasti ræðumaður var að minnast hér á og við erum flm. að. Hann sagði, að það væri sýnilegt, að verkalýðssamtökin hefðu samið af sér fyrir tveimur árum eða í júní 1964 með því að fallast á vísitöluálag á lánin, sem húsbyggjendur fá frá húsnæðismálastjórn. Það getur verið, að það megi segja þetta nú. En ég held, að það hafi ekki með neinni sanngirni verið hægt að segja þetta þá, eins og allir hlutir stóðu þá. Það var samið um það í júní 1964 m.a. að hækka lánin úr 150 þús. í 280 þús. á íbúð. Þetta var mikil bót fyrir alla, sem voru að byggja, og það var um leið samið um að lækka vextina úr 8%, er ég ætla, að þeir hafi verið, niður í 4%. Þetta var líka mikilsvert atriði. En á móti þessu kom svo þetta að verðtryggja lánin, þannig að þau hækka sjálfkrafa, eftir því sem verðbólgan eykst. En af hverju ætli menn hafi samið á þessa leið, forustumenn verkalýðssamtakanna í landinu? Ég held, að það hljóti að hafa verið vegna þess, að þeir þóttust hafa nokkra tryggingu fyrir því, eða loforð hæstv. ríkisstj., að nú yrði gert alvarlegt átak í því að stöðva verðbólguna vorið 1964, og í trausti þess hafi þeir gert þessa samninga, svo að ég held, að það sé ekki sanngjarnt að vera að ásaka þá mjög mikið fyrir að hafa tekið alvarlega þær yfirlýsingar, sem þá voru gefnar.

En það hefur komið í ljós, að verðbólgan var ekki stöðvuð þá og ekki enn og þetta ákvæði, sem þá var samið um og síðar tekið inn í lög, er að verða mjög alvarlegt fyrir alla húsbyggjendur og verður enn alvarlegra, eftir því sem verðbólgan heldur lengur áfram. Þetta er að verða svo alvarlegt, að ég get ekki séð, að fólk rísi undir þessu, þegar tímar líða fram. Í júní 1964 kostaði meðalíbúð, 370 rúmmetra íbúð, eftir því sem Hagstofan skýrir frá, um 752 þús. kr. En hún kostar núna, þessi sama íbúð, um 967 þús. skv. sömu heimildum. Hún hefur þá hækkað um 215 þús. á tæpum tveimur árum. Lánin hækkuðu um 130 þús., en íbúðin hefur hækkað um 215 þús. síðan samið var. Ég get ekki láð forvígismönnum verkalýðssamtakanna, þó að þeir hafi ekki búizt við svona löguðum hlutum. En þetta er nú samt staðreynd, og þegar nefndar eru þessar tölur, þá er ekki tekið með í reikninginn okrið, sem er á húsnæðinu. Þessar tölur eru reiknaðar út af Hagstofunni eftir verði á byggingarvörum og verði á vinnu. Allt hitt, sem þar er fyrir utan og kemur á íbúðirnar sem verðhækkun, er þar að auki. Þessi mikla hækkun á íbúðarkostnaði er ein rökin m.a. fyrir því, að það er óhjákvæmilegt að leiðrétta það, sem gert var í þessum samningum. Það er útilokað annað en að leiðrétta það ranglæti, sem menn verða fyrir að eiga að greiða slíkt álag á lánin, sem hefur komið á þau og mun koma á þau vegna verðbólgunnar.

Vextirnir af lánum húsnæðismálastjórnar eru núna 4% að viðbættu 1/4% til bankans, sem afgreiðir lánin. Og ef maður fær núna 280 þús. kr. lán, þá er ársgreiðslan eftir annuitets-reglunni um 18 600 kr. á ári og jafnt allan tímann í 25 ár. En þetta hækkar og hækkar stórkostlega vegna verðbólgunnar. Ef verðbólgan vex um hér um bil 10% á ári, og það er óhætt að gizka á það, því að ég held, að hún hafi orðið 9%, hækkunin á vísitölu framfærslukostnaðar frá því í fyrra, þá er árgjald, sem átti að vera 18 600 kr., komið eftir 5 ár upp í 30 300. Það hækkar um 12 þús. á 5 árum. Og svo hleður þetta upp á sig svo gífurlega, að á tíunda ári er það komið í tæp 49 þús., vextir og afborganir af þessari tiltölulega litlu upphæð, því að lán húsnæðismálastjórnar er ekki núna nema 29% af því, sem íbúðin kostar.

Hvað ætli húsbyggjendur verði að taka mikið að láni á annan hátt en svona? (Gripið fram í.) Ég gæti trúað, að það væri ekki ofsögum sagt af því, að maður, sem ætlaði að byggja sér íbúð fyrir 970 þús. kr. núna og fengi aðeins þessar 280 þús., einhvern veginn yrði hann að taka um 400 þús. kr. lán annars staðar. Það væri vel að verið, held ég, ef ungt fólk væri búið að safna 300 þús. sjálft til að geta lagt í íbúðina og þurfa ekki að taka það að láni. Samt þyrfti að taka um 400 þús. kr. að láni umfram húsnæðismálalánið. Og hvað kosta þau lán? Þau eru ekki með 4% vöxtum. Nei, mér þykir trúlegt, að af slíkum lánum, sem venjulega eru ekki nema til 10 ára, ef þau eru það, þyrfti slíkur húsbyggjandi að borga einhvers staðar milli 50 og 70 þús. kr. á ári í vexti og afborganir fyrstu árin af slíku láni eða slíkum lánum í viðbót við hitt. Hvernig eiga menn svo að taka það á sig að fá stöðuga hækkun á þessum afborgunum og vöxtum af húsnæðismálaláninu? Þetta er svo stórkostlegt mál. þetta er svo alvarlegt, að það verður ekki komizt hjá því, hvernig sem farið er að, að leysa þetta með einhverjum hætti. Og ég trúi ekki öðru en hæstv. ríkisstj. muni sjá þetta líka og hún geri sinar ráðstafanir til þess hvort sem hún samþ. brtt. okkar nú eða ekki, að þetta ástand haldist ekki áfram.

En svo er skv. þessu frv. gert ráð fyrir því, að lán úr lífeyrissjóðunum verði líka vísitölutryggð. Það er að vísu ekki skylda, en það er hægt að heimila, skv. frv., sjóðsstjórnunum að vísitölutryggja þau lán líka. Mér er ekki fullkunnugt um, hve þau lán eru há, en heyrt hef ég, að þau séu frá 200 þús. upp í 350 þús., eftir því, hvaða lífeyrissjóður á í hlut. Ef við bara segjum, að þau séu ekki nema rúm 220 þús., sem menn fá til viðbótar við húsnæðismálastjórnarlánið, þá eru þarna komin 500 þús. kr. lán á íbúðina. Og ef allt saman yrði nú vísitölutryggt og áframhaldandi verðbólga, hvað ætli ársgreiðslurnar verði hjá þessum mönnum eftir 5 eða 10 ár? Ég held, að ef þau lán væru með sömu kjörum og húsnæðismálalánin eru nú og gert er ráð fyrir 10% verðbólgu árlega, þá mundi maðurinn eiga að borga fyrsta árið, áður en verðbólgan kemur til, eitthvað um 33 þús. á ári í vexti og afborganir af þessari upphæð, af 500 þús. kr. lánum með 4% vöxtum og jafngreiðslum, en þessi 33 þús. eru á fimmta ári komin upp í 53 þús. með vísitölu og á tíunda ári eru þessar greiðslur komnar upp í 86 þús., og hver ræður við þetta? Það er sannarlega ekki ætlazt til þess, að menn með 100 þús. kr. árslaun búi í þessum húsakynnum eða byggi þau.

Verðhækkanir á húsbyggingum eru orðnar svo gífurlegar á undanförnum árum, að ég hygg, að enginn hafi búizt við því fyrir skömmu, að slíkt gæti átt sér stað. Meðalíbúð hefur hækkað úr 455 þús., sem hún var í febrúar 1960 skv. skýrslum Hagstofunnar, í 967 þús., eins og hún er í febrúar 1966, þ.e.a.s. á sex árum, frá því í febrúar 1960 þar til í febrúar 1966, hefur þessi íbúð hækkað úr 455 þús. í 967 þús. Hún hefur hækkað um 511 þús. á þessum 6 árum eða um 112%. Það er því ekki að ástæðulausu, að við flytjum þessa brtt., og mér væri mikil þökk í því, ef hæstv. viðskmrh. léti skoðanir sínar í ljós á því, hvort hann teldi ekki þetta mjög aðkallandi, að hæstv. ríkisstj. vildi gera ráðstafanir til þess með einhverjum hætti að létta þessum byrðum af fólkinu. Það getur þó ekki verið tilgangurinn með þessu að draga úr lánveitingum til íbúðabygginga í landinu, þetta sé aðferð til þess? Ég get ekki ímyndað mér það, því að fólk þarf að búa í húsum, og það verður aldrei gert til lengdar að draga úr nauðsynlegum byggingum. Einhvern veginn verður fólk að hafa þak yfir höfuðið.

Nei, það er ekki hægt annað en að leggja mikla áherzlu á það, að spornað verði við þessum gífurlega háska, sem hér er á ferðinni. Það er ekki víst, að fólk veiti þessu athygli fyrir fram, hvað það þarf að borga eftir 5 ár eða 10 ár eða fleiri. Það er mjög sennilegt, að það veiti því ekki athygli, og þó að það veitti því athygli, þó að húsnæðislaust fólk sæi fram á það, að eftir nokkur ár gæti það ekki staðið í skilum með lánin, hvað ætti það þá að gera? Hætta við að byggja? Nei, það getur það ekki. Það verður að eignast einhvern veginn húsnæði. Það getur ekkert gert annað en að taka þessi lán með hvaða ókjörum sem þau eru.

Ég legg því ákaflega mikla áherzlu á það, að hæstv. ríkisstj. segi skoðun sína á því, hvort hún telji ekki óhjákvæmilegt, að fram úr þessu verði ráðið hið fyrsta og að hún geri það, hvort sem hún vill gera það með því að samþ. till. okkar, sem við flytjum hér, eða hún gerir það á annan hátt. Þetta er þjóðfélagsvandamál, sem verður að rísa gegn og það sem allra fyrst. Það má ekki bíða eftir því, að fólkið tapi íbúðunum sinum vegna þessara lánakjara, sem það hefur neyðzt til og er að neyðast til að sætta sig við út úr vandræðum.

Ég veit, að það er hægt að svara því til um lífeyrissjóðina, að það séu stjórnir þeirra, sem eiga að ákveða þetta, hvort lánin úr þeim verða líka vísitölutryggð. En við verðum að athuga það, að stjórnirnar sjá náttúrlega hag sjóðanna í því að gera það. Það er hagur sjóðsins að tryggja féð, en það er ekki hagur þeirra einstaklinga hvers út af fyrir sig, sem verða að sætta sig við slík lán. Því getur það farið svo, að stjórnir sjóðanna vilji vísitölutryggja lánin, en allur almenningur í félögunum sjái sér ekki fært að taka slík lán og vilji ekki fallast á það. Í þessu sambandi dettur mér í hug, hvað gerðist 1964, eftir að samið var við verkalýðssamtökin um lækkun vaxta, hækkun lána og vísitölubindingu á húsnæðismálalánin. Ég ætla, að það hafi verið um haustið, sem bændasamtökunum var gefinn kostur á að njóta hins sama. Þeim var gefinn kostur á því, að það væru lækkaðir vextir af byggingarlánum til sveita, húsbyggingum til sveita, og hækkuð lánin, en vísitölutryggð um leið. En bændasamtökin neituðu, féllust ekki á það, og þetta var ekki heldur gert. Og ég ætla, að það hafi komið í ljós á þessum árum síðan, að þarna hafa bændasamtökin verið framsýn og að það var betur farið, að þau tóku ekki þann kostinn að sætta sig við slík kjör á lánum til íbúðarhúsa í sveitum.