15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Þau vandamál, sem efst hafa verið á baugi hér undanfarin ár, eru afleiðingar þeirrar miklu verðbólgu, sem verið hefur í landinu. Margt hefur verið um þessi mál rætt, og ýmislegt hefur átt að gera til þess að draga úr hinum mikla vexti verðbólgunnar, en fátt hefur dugað.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um þessi mál, þó nokkuð á annan hátt en áður hefur verið. Hér er sem sagt ekki ráðizt að vandanum sjálfum, heldur afleiðingum vandamálsins og ég mundi segja heldur á kákkenndan hátt.

Það er talið, að þetta frv. eigi að geta dregið úr aukningu dýrtíðarinnar. En ég held, að það sé nokkurn veginn gefið, að engin ákvæði þess muni verða til að draga úr vexti dýrtíðarinnar eða hefta hana á nokkurn hátt. Að þessu voru leidd skýr rök í ræðu hv. 5. þm. Austf. í umr. í gær. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem þá kom fram, einnig hjá öðrum ræðumönnum, sem leiddu rök að hinu sama.

Í öðru lagi er talið, að þetta frv. muni verða til þess að draga úr útlánum og minnka spennuna á þann hátt. Ég held, að það sé alveg gefið, að þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, muni ekki verka í þá átt.

Ef eðlilegar framfarir eiga að verða í þessu landi áfram, er vonlaust og útilokað með öllu, að atvinnuvegirnir komist af með minna lánsfé en hingað til, og það er líka jafnvíst, að það lánsfé, sem yrði, þegar þessar ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, kæmu í framkvæmd, yrði mun dýrara en nú er, og það er jafnvíst sem sagt, að það munu finnast ráð fyrir lántakendur í atvinnugreinunum til þess að velta þeim aukna kostnaði út í verðlagið og þar með að sjálfsögðu verka til dýrtíðaraukningar.

Þá er spurningin, hvort þetta yrði til þess að draga úr lánum við húsbyggingar, bæði íbúðarhúsnæðis og einnig annarra húsbygginga. E.t.v. væru mestar líkur til, að á þessu sviði gæti verið um einhvern samdrátt að ræða, vegna þess að þeir, sem eiga að standa undir þeim lánum, hafa ekki sama möguleika og þeir, sem að framleiðslunni starfa, sérstaklega þó framleiðslunni fyrir innanlandsmarkaðinn, til að velta þessum aukna kostnaði af sér nema að litlu leyti. Nú er alveg augljóst, að íbúðarhúsnæði verður að byggja og það í stærri stíl á næstu árum en verið hefur, og þetta verður byggt. Ef lánin verða vísitölubundin, er gefið mál, að aðstaða hinna smærri í þjóðfélaginu, hinna efnaminni, versnar til mikilla muna, og það yrðu sennilega færri en ella, sem legðu í íbúðarhúsabyggingar. Þær mundu þá mjög sennilega í miklu ríkara mælí færast yfir á hendur braskaranna. E.t.v. mundi þá einnig verða byggt meira af leiguhúsnæði en nú er, en það sjá allir, til hvers konar húsaleigu það mundi leiða, ef húsaleiga ætti að standa undir slíkum lánveitingum. Það yrði áreiðanlega ekki til að draga úr vexti dýrtíðarinnar.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér einstök atriði þessa frv., en eins og ég sagði í upphafi máls míns, tekur það ekki á þeim vanda, sem við þurfum að glíma við, þ.e.a.s. að reyna að hefta vöxt dýrtíðarinnar. Það er aðalatriði málsins, en þetta frv. stuðlar ekki að því.

Ef tækist að draga verulega úr vexti dýrtíðarinnar, er þetta frv. óþarft og þær ráðstafanir, sem það gerir ráð fyrir. Það hefur verið talað hér fagurlega um ýmislegt misrétti, sem verðbólgan hefur í för með sér, og einkanlega er þar og sérstaklega af hæstv. viðskmrh. minnzt á sparifjáreigendurna. Það er hverju orði sannara, þeir hafa orðið fyrir miklu misrétti, og það hefur að vísu verið með háum vöxtum reynt að bæta þeim sitt tap. En það hefur engan veginn nægt til, þó að vextirnir hafi verið mjög háir. Meðan verðbólga fer jafnört vaxandi í landi okkar og nú er, held ég, að það séu ákaflega vafasöm ráð til þess að bæta sparifjáreigendum, það séu í rauninni ekki nein önnur ráð til en af alvöru að sporna við sjálfum verðbólguvextinum.

Sparifjáreigendur í landinu eru býsna margir, en húsbyggjendur og þeir, sem eiga orðið íbúðir í þessu landi, eru einnig orðnir margir. Hvor hópurinn er stærri, skal ég ekki fullyrða um. En ég fullyrði það, að þeir, sem ætluðu sér, og þó alveg sérstaklega unga fólkið, að reyna að koma þaki yfir höfuðið á sér, væru verr staddir eftir samþykkt þessa frv. en nokkurn tíma sparifjáreigendurnir, þó að þeir séu sannarlega ekki of sælir af sínum kjörum í svo örum verðbólguvexti sem hér er.

Það eru margar orsakir að vexti dýrtíðarinnar, en áreiðanlega ein allra stærsta orsök dýrtíðarinnar og verðbólgunnar er einmitt sá mikli vandi, sem verið hefur í húsnæðismálunum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hve húsnæði er hér orðið ofsalega dýrt. Byggingarkostnaðurinn er mjög mikill, og það eru margir þættir, sem þarna koma inn í, alls konar brask. En það eru ekki hvað sízt lánamálin sjálf, hve menn verða að sæta afarkostum varðandi lánamál, hvað þeir verða að greiða íbúðarhúsnæði sitt upp á skömmum tíma. Ef menn íhuga kaupgjaldsbaráttu undanfarinna ára, skyldu menn muna, að einmitt hvað stærsti þátturinn þar og hve verkalýðsstéttin hefur orðið að vera þar kröfuhörð, það eru ekki hvað sízt húsnæðismálin, sem þar hafa knúið á. Ungt fólk getur ekki sætt sig við það kaupgjald, sem víðast hvar hefur verið á boðstólum, svo framarlega sem það hefur ætlað sér að koma sómasamlega yfir sig þaki. Það tvennt getur ekki farið saman. Menn verða að hafa meiri tekjur en hið lága kaupgjald hefur boðið upp á. Þetta hefur leitt til óhóflega langs vinnutíma og sífellt knúið á með auknar kaupkröfur. Það er ekki neitt leyndarmál. að einmitt vöxtur verðbólgunnar hefur hjálpað þessu fólki, og það hefði verið algjörlega útilokað fyrir margan manninn að standa undir sinum skuldbindingum, ef ekki hefði komið til þessi vöxtur verðbólgunnar. En að sjálfsögðu eru til önnur og miklu ódýrari og hagkvæmari ráð fyrir þjóðarbúskapinn til þess að aðstoða menn til að eignast þak yfir höfuðið en sú leið. Það þarf fyrst og fremst að hækka lánin og lengja lánstímann. Og það verður að færa íbúðarhúsabyggingar miklu meira yfir á félagslegan grundvöll en nú er. Það er eina ráðið, sem getur komið í veg fyrir hið mikla brask, sem á sér stað með íbúðarhúsnæði.

Hæstv viðskmrh. hefur lagt á það æðimikla áherzlu í orðum sínum hér, að það verði að koma í veg fyrir hið þjóðfélagslega ranglæti, sem þróazt hefur með verðbólguvextinum, dýrtíðaraukningunni. Út af fyrir sig er ég fyllilega sammála því. En ég er þeirrar trúar, að með samþykkt þessa frv. og þeim ráðstöfunum, sem það gerir ráð fyrir, muni hið þjóðfélagslega ranglæti alls ekki minnka, heldur þvert á móti vaxa. Við vitum, að þeir, sem bezta hafa aðstöðuna í þjóðfélaginu, munu alltaf finna ráð til þess að velta af sér þeim kvöðum, sem þeir byndust með samþykktum þessa frv. Þau munu áreiðanlega finnast. Hins vegar mundu þeir smáu í þjóðfélaginu finna fyrir ráðstöfunum.

Með júnísamkomulaginu, sem var gert við ríkisstj. 1964, var farið inn á verðtryggingu eða vísitölubindingu á lánum húsnæðismálasjóðs. Eins og hér hefur verið tekið fram fyrr í þessari umr., var af hálfu verkalýðshreyfingarinnar þetta samkomulag gert í trausti þess, að verulegar ráðstafanir væru gerðar af hálfu ríkisvaldsins til þess að sporna við vexti dýrtíðarinnar, og verkalýðshreyfingin hafði áður boðið ríkisvaldinu samstarf í þeim efnum. Nú vita allir, að þetta hefur ekki orðið. Ég veit ekki, hvort rétta orðið er að segja, að það hafi mistekizt, því að tilraunirnar hafa bókstaflega ekki verið gerðar. Þar með er að sjálfsögðu fallinn algjörlega sá grundvöllur, sú forsenda, sem var fyrir því samkomulagi, sem gert var í júní 1964. Og það samkomulag um verðtryggingu hefur orðið til þess að auka óréttlætið, — auka hið þjóðfélagslega óréttlæti miklu frekar en hið gagnstæða. Það hefur vaxið stórkostlega. Og það er að sjálfsögðu öllum orðið ljóst, að vísitölubinding á húsnæðismálalánum getur ekki staðið lengur. Það er aldeilis útilokað.

Það var sagt hér í gær, að vísu heyrði ég það ekki, en sé það í Tímanum í dag, að verkalýðshreyfingin hafi samið af sér 1964 með því að gera þetta samkomulag. Að vísu fólst ýmislegt fleira í þessu samkomulagi, sem var mjög dýrmætt fyrir húsbyggjendurna, en hvað þetta atriði snertir, þá má raunar segja, að við höfum samið af okkur vegna þess, að það hefur ekki verið staðið við það, sem lofað var á móti. Einmitt vegna þess sjáum við, að þetta hefur ekki orðið húsbyggjendunum til góðs, ekki þessi hluti samkomulagsins, heldur hefur það orðið til þess að gera lánin dýrari og gera óréttlætið meira en áður. Það liggur nú fyrir þessari hv. deild frv. um að fella þetta úr gildi, og ég vildi mega vænta þess, að það verði tekið mjög alvarlega á því máli hér. Ef það verður ekki gert, er augljóst, að slíkt framhald þessara lánskjara hlýtur að leiða til vandræða og gagnráðstafana af hálfu verkalýðssamtakanna. Það er alveg gefið mál. að með því að gera húsnæðismálalánin jafndýr og þau verða með vísitölubindingu, þegar ekkert er gert til þess að reyna að sporna við vexti dýrtíðarinnar, jafnvel þvert á móti eru nú á döfinni ráðstafanir, sem stuðla að hinu gagnstæða og hækka þessi lán alveg sjálfkrafa, eins og niðurfellingin á niðurgreiðslum, lánin hækka alveg sjálfkrafa um leið og verða dýrari, — það er náttúrlega alveg augljóst, að verkalýðssamtökin hljóta að mæta þessu með auknum kaupkröfum. Að vísu kemur til, eins og sjálfsagt mundi verða tekið fram, að kaupið hækki

samkv. vísitölu einnig. En menn skyldu bara muna það, að það er algjörlega vonlaust að standa undir þessum lánum með þeirri kaupgetu, sem er nú hjá fólki. og ef ekki skeður annaðhvort, — og það á ekki að vera neitt álitamál, hvort muni ske, — að verðbólgan haldi áfram og hjálpi fólki á þann hátt, eða þá hitt, sem náttúrlega er skynsamlegra og verður að gera, svo framarlega sem við ætlum ekki að komast í hrein vandræði og alltaf að standa í eilífum vandræðum við lausn þessara mála, það er að hækka lánin og lengja lánstímann og bæta vaxtakjörin. Það er þetta, sem verður að gerast. Það er áreiðanlega langódýrast fyrir þjóðfélagið í heild. Það er ódýrast fyrir atvinnuvegina, ég tala nú ekki um útflutningsatvinnuvegina, og það er að öllu leyti hagkvæmast.

Með samþykkt þessa frv. sýnist mér, að enginn vandi sé leystur, síður en svo. Það er ekki heldur í raun og veru verið að leysa vandamálið sjálft, heldur er verið að káka víð afleiðingarnar af sjálfum vandanum. Fyrir þjóðfélagið í heild mundi ég telja, að hér væru stigin röng skref, og ég er sannfærður um, að hinir minni máttar í þjóðfélaginu, sem á lánum þurfa að halda, verða verr staddir en áður, og ranglætið og mismunurinn gagnvart þeim verður áreiðanlega ekki minni.

Ég held, að menn ættu að hugsa sig mjög rækilega um, áður en menn samþykkja það frv., sem hér er nú á dagskrá. Ég held, að menn geri sér ekki grein fyrir, í hvaða vanda við getum komizt. Við vitum, að sjálf verðbólgan er mikið vandamál. Við þekkjum þann vanda og ættum í raun og veru að geta tekið á honum. En við þekkjum ekkert þann vanda, sem kynni að mæta okkur, þegar væri búið að fara út á þessar brautir, og verður þá ekki líka sjálft verðbólguvandamálið miklu erfiðara og örðugra að leysa. Það er mín skoðun, og þess vegna er ég mjög eindregið fylgjandi því, að þetta mál verói engan veginn afgreitt á þessu þingi, a.m.k. verði það skoðað miklu rækilegar en nú hefur verið gert.