15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkrar aths. vegna ræðu hæstv. viðskmrh. hér áðan. Hann lagði áherzlu á, að fé, sem endurgreiðist af lánum með vísitölutryggingu, færi beint inn í húsnæðismálasjóðinn og gerði hann öflugri og með þessu væru þeir, sem byggju við þetta lánafyrirkomulag, að efla þennan sjóð og í rauninni að lána öðrum, er síðar kæmu. Þetta er út af fyrir sig sjálfsagt rétt og engin aths. út af fyrir sig við það. En hitt er, að þeir, sem fá þessi lán, hafa engin efni á því að lána öðrum. Það er mergurinn málsins. Og ef húsnæðismálasjóður getur ekki eflt sig á annan hátt, mundi ég segja, að illa væri farið, mjög illa.

Árið 1964, þegar júnísamkomulagið var gert og þessi lán komu inn, var einnig samið um launaskattinn. Sá skattur er greiddur að vísu af atvinnurekendum í hlutfalli við greidd laun, en það er ekkert leyndarmál. að möguleikar verkalýðshreyfingarinnar til þess að hækka kaup meðlima sinna rýrnuðu að sama skapi, sem upphæð þessa skatts nam. Það vita allir, sem að þeim málum stóðu. Þetta vissum við ósköp vel, þegar við sömdum. En við töldum, að einmitt launaskatturinn eða það, sem launafólkið raunverulega leggur af mörkum til þess að efla húsnæðismálasjóðinn, væri engu að síður réttlætanlegt, og einkanlega töldum við rétt, að þeir, sem þyrftu ekki á þessum lánum að halda og væru betur stæðir, menn, sem byggt hefðu á betri tímum og væru í ódýru húsnæði, það væri ekki óréttlátt, að þeir legðu af mörkum einmitt til þess að hjálpa hinum yngri og efla sjóðinn, þannig að í framtíðinni yrði hann megnugur þess að standa undir miklu meiri lánum en nú er. Ég tel, að það ætti frekar að efla húsnæðismálasjóðinn á allan annan hátt en þann, að þeir, sem þessi lán nú verða að taka, fari að greiða þau jafnháu verði og hlýtur að verða með vísitölubindingunni og á þann hátt láni öðrum, því að þeir eru sannarlega ekki aflögufærir.

Þá gat hæstv. menntm.- og viðskmrh. einnig um, að í raun og veru væri ekki neitt hér um að sakast, vegna þess að einmitt í sömu samningum hefði vísitölugreiðsla aftur komið á kaupið. Það er aldeilis rétt. En eins og ég gat um hér áðan, tel ég, að þrátt fyrir það að við höfum vísitöluna á kaupið, stendur það ekki undir þeim lánum, sem fólk óhjákvæmilega verður einhvern veginn að fá til þess að geta eignazt þak yfir höfuðið, þannig að þetta nægir engan veginn. Hann vildi meina, að það væri ekki verið að leggja óeðlilegar byrðar á lántakendur, einmitt vegna þess, að þeir hefðu vísitöluna á kaupinu. Þetta eru mjög óeðlilegar og ranglátar byrðar, meðan hér er aðeins um að ræða þessi lán. Að vísu, ég skal játa það, breytir málið nokkuð svip, ef allt í þjóðfélaginu, öll lán væru á sama hátt bundin vísitölu. Það má segja. En ég held, að með því móti séum við að fara inn á brautir, sem við vitum ósköp lítið um, til hvers muni leiða eða hvert muni liggja, og ég er mjög hræddur um það, að hæstv. viðskmrh., þrátt fyrir alla sína hagfræðimenntun, muni lenda í enn verri frumskógi hagfræðimálanna en þó nokkurn tíma við eigum þó við að búa hér núna, þótt slæmt sé, og ég efast um, að hann muni rata út úr þeim vanda, sem mun að okkur steðja.

Hann sagði mörg falleg orð um að minnka ranglætið í þessum efnum. Ég get út af fyrir sig undirstrikað það. Það er allt ákaflega fallega mælt og góð hugsun sem sagt, sem liggur að baki. En ég er ákaflega hræddur við og enda meira en hræddur, ég er sannfærður um, að þetta frv. mun ekki nægja til þess að tryggja kjör og stöðu hinna minni máttar í þjóðfélaginu i þessum efnum, og það mun ekki heldur taka verðbólgugróðann af þeim, sem hans hafa notið. Áreiðanlega munu þeir með allri sinni aðstöðu í þjóðfélaginu finna leiðir, þeir verða áreiðanlega fundvísari á leiðir í sínum vanda en ráðamenn þjóðfélagsins út úr þeim mikla vanda, sem ég trúi, að skapast muni með samþykkt þessa frv.