15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 3. landsk. þm. fyrir það, hvað eindregið hann tók undir þau ummæli, sem ég lét falla hér í gær, að verkalýðshreyfingin hefði samið af sér í júnísamningunum 1964, þegar hún féllst á vísitölubindingu húsnæðislána. En ég tel það vafalaust rétt hjá honum, að þetta hafi verkalýðshreyfingin gert í góðri trú og hún hafi haft fyrirheit ríkisstj. um það, eins og kom fram hjá honum, að ríkisstj. mundi sjá til þess, ef verkalýðshreyfingin féllist á þetta, að verðbólgan yrði stöðvuð að mestu eða öllu. En það hefur komið fram hér eins og í svo mörg önnur skipti, sem samið hefur verið við hæstv. ríkisstj., að henni hefur gengið illa að halda loforð sín. En fyrst nú svona er komið, að ríkisstj. hefur ekki staðið við það fyrirheit, sem hún gaf í sambandi við þessa samninga, þá eru þeir að sjálfsögðu úr gildi fallnir, og ef ríkisstj. vill ekki vinna að því að leiðrétta þetta hér á Alþ., sem væri að sjálfsögðu langeðlilegast og heppilegast, þá verður það vitanlega verkefni verkalýðshreyfingarinnar, hvort sem það tekur skemmri eða lengri tíma, að koma því til vegar, að þetta ákvæði verði látið falla niður.

Hæstv. viðskmrh. vildi nú seinast réttlæta þetta bindingarákvæði með því, að launþegum væri tryggt með vísitöluuppbót, að kaup hækkaði í samræmi við aukna dýrtið og þá að vísu aukinn húsnæðiskostnað líka. En ég hygg, að launþegar hafi þá reynslu, að það sé vafasamt að treysta á það, hvað þessi réttindi þeirra haldast lengi, þó að þau séu í gildi nú. Það eru ekki nema tæp 6 ár siðan núv. ríkisstj. taldi það eitt hið mesta hagræði, að vísitöluuppbætur á laun yrðu felldar úr gildi, og setti um það sérstök lög hér á Alþ., sem bönnuðu það að mestu leyti eða jafnvel öllu leyti, og það kostaði harða baráttu að fá þessi höft afnumin. Það getur enginn komið til með að segja, ef við búum áfram við óbreytta stjórn, sem maður að vísu reiknar ekki með, en ef svo illa kynni að takast til, þá geta launþegar að sjálfsögðu átt von á því hvenær sem er, að þessi stjórn fari aftur ofan í sama farið og 1960, þegar hún afnam þessar vísitöluuppbætur, og þó að sé ekki athugað nema þetta atriði eitt, þá er ekki mikið á það að treysta. Svo held ég, að það sé líka nokkurn veginn augljóst, a.m.k. eins og framfærsluvísitalan er nú, að þá koma þær hækkanir á húsnæðislánum, sem verða af völdum vísitölunnar, ekki inn í framfærsluvísitöluna, því að það vita allir, eins og hér hefur verið bent á af hv. 11. þm. Reykv., að húsnæðisliðurinn er algerlega rangur í framfærsluvísitölunni í dag og svo rangur, að slíkar breytingar eins og þessar, sem varða húsnæðislánin vegna vísitöluhækkana, koma alls ekki inn í framfærsluvísitöluna, eins og útreikningunum er háttað i dag. Það verður þá að gera breytingu á þeim frá því, sem nú er, á framfærsluvísitölunni, ef slíkar hækkanir á húsnæðislánum eiga að hafa nokkur áhrif á hana.

Ég tek undir það með hv. 11. þm. Reykv., að ég fagna að vissu leyti þeim undirtektum, sem fsp. mín og hv. 3. þm. Vestf. fengu hjá hæstv. viðskmrh. um það atriði, hvort hann væri samþykkur a.m.k. að nokkru leyti þeirri brtt., sem við leggjum fram.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri sjálfsagt, að ef farið væri að setja vísitöluákvæði á útlán lífeyrissjóða og stofnlánasjóða, þá yrði a.m.k. jafnframt eða áður byrjað á því að verðtryggja innlánsfé í bönkum og sparisjóðum. En þetta getur að sjálfsögðu verið nokkuð teygjanlegt orðalag. Ég túlkaði okkar till. þannig, að við ættum við, að það yrði áður að vera búið að verðtryggja meginhluta innlánsfjár í bönkum og sparisjóðum, og í samræmi við það höfum við breytt okkar till., svo að hún verði ekki misskilin að þessu leyti, en orð hæstv. ráðh. mátti hins vegar vel skilja þannig, að hann teldi þessu vera alveg fullnægt, þó að það væri kannske ekki búið að verðtryggja nema 5 eða 10% af innlánsfé í bönkum og sparisjóðum eða einhvern sáralitinn hluta. Þess vegna vil ég endurnýja spurningu mína í nokkuð ákveðnara formi en síðast, hvort hann teldi það ekki skilyrði, að áður þyrfti að vera búið að verðtryggja a.m.k. meginhluta innlánsfjár í bönkum og sparisjóðum, áður en farið væri að setja vísitöluákvæði á útlán stofnlánasjóða og lífeyrissjóða. En því miður gat ég ekki skilið hæstv. ráðh. þannig, því að hann talaði um það í annarri andránni, að það ætti alls ekki að verðtryggja eða setja vísitölubindingu á rekstrarlán. En ég held, að meginhluti þeirra útlána, sem viðskiptabankarnir veita, flokkist undir rekstrarlán, og ég sé ekki, hvernig hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. ætlar að framkvæma verðtryggingu á innlánsfé í bönkum og sparisjóðum, ef hún ætlar að láta öll rekstrarlánin vera undanþegin vísitölubindingunni. Ég vil þess vegna vænta þess, að hæstv. ráðh. útskýri þetta dálitið nánar, hann segi alveg ákveðið um það, hvort það sé ekki meining hans. að áður en verði farið að vísitölubinda útlán lífeyrissjóða og fjárfestingarsjóða atvinnuveganna, þá verði a.m.k. búið að verðtryggja ríflegan meiri hluta innlánsfjár í bönkum og sparisjóðum. Ég óska sérstaklega eftir því að fá skýr svör hjá hæstv. ráðh. um þetta efni, og ég tel líka víst, að ég muni fá þau, því að það má þessi hæstv. ráðh. eiga, að hann er yfirleitt fús til þess að gefa greinileg svör við því, sem hann er spurður um, og stendur að því leyti miklu framar en aðrir hæstv. ráðh. Ég sem sagt vænti þess að fá svo greinileg svör hjá hæstv. ráðh. um þetta efni, að það þurfi ekki að leika neinn vafi á um það, hvað hann meinar, að hann meini það t.d. ekki, að það fullnægi þessu sjónarmiði, ef aðelns 5 eða 10% af innlánsfénu er verðtryggt, heldur verður það a.m.k. að vera röskur helmingur þess, áður en gripið er til þess að setja vísitöluskuldbindingu á útlán stofnlánasjóða og lífeyrissjóða.

En þrátt fyrir þessi svör ráðh. og jafnvel þótt hann staðfesti þetta, sem ég nú hef verið að spyrja um, þá tel ég till. okkar hv. 3. þm. Vestf. eigi að síður nauðsynlega, vegna þess að ég álít að í því felist aukið öryggi. Þó að hæstv. núv. viðskmrh. kunni að vilja vel í þessum efnum, binda yfirlýsingar hans ekki hendur þeirra, sem siðar kynnu að koma, og hendur þess aðila, sem á að sjá um framkvæmd laganna, sem er Seðlabankinn, og þess vegna er fyllsta þörf fyrir það, að sú till. verði samþ., sem við hv. 3. þm. Vestf. höfum hér lagt fram.

Ég spurði hæstv. viðskmrh. um það, hvernig trygging á sparifé hefði gefizt í þeim tveimur löndum, þar sem hún hefur verið reynd, Ísrael og Finnlandi. Og mér fannst satt að segja vera heldur lítið að græða á svörum hans um það efni. Það kom t.d. mjög óljóst fram hjá honum, hann sagði, að það væri deiluatriði, hvort sparifjártryggingin í þessum löndum hefði orðið til þess að vinna gegn verðbólgu. Það má dæma nokkuð um það, hvern árangur t.d. verðtryggingin hefur borið í Finnlandi, með því að bera saman kaupsamninga, sem nýlega hafa verið gerðir þar og gerðir hafa verið í Svíþjóð, því að kaupsamningar bera venjulega nokkuð glöggt merki um það, hvort dýrtíð er í landinu og launþegar þykjast þess vegna þurfa að tryggja sig með háum kauphækkunum, verulegum kauphækkunum. Í báðum þessum löndum voru á þessum vetri gerðir kaupsamningar til þriggja ára. Í Svíþjóð, þar sem engin verðtrygging er, en ríkisstj. hefur hins vegar nokkuð gott taumhald á efnahagsmálunum, þar var niðurstaðan sú, að samkvæmt þeim samningum muni launagreiðslur atvinnurekenda hækka um 4% á þessu ári, um 3,9% á næsta ári og 1,9% á árinu 1969. Þetta mun okkur ekki þykja vera miklar hækkanir, en þetta eru hins vegar hækkanir, sem launþegar geta vel sætt sig við, þegar um það er að ræða, að dýrtið og verðbólgu er haldið sæmilega í skefjum, því að þá verða allar þessar hækkanir raunverulegar eða koma fram sem aukinn kaupmáttur. Í Finnlandi líta þessir kaupsamningar hins vegar talsvert öðruvísi út, sem þar hafa einnig verið gerðir til þriggja ára. Þar er niðurstaðan sú, að í ár á grunnkaupið að hækka um 3+2,4%, þ.e.a.s. það á að hækka í tveimur áföngum á árinu, fyrst um 3% og síðar á árinu um 2,4%. Á næsta ári á kaupið einnig að hækka um 3+3%, þ.e.a.s. það á fyrst að hækka um 3% og síðar á árinu um 3%. Og árið 1968 á það að hækka um 3+3,5%, þ.e.a.s. það á að hækka þá tvisvar á árinu, fyrst um 3% og síðar á árinu um 3,5%. Þessu til viðbótar eru vísitöluuppbætur á kaupgjald í Finnlandi, sem eru ekki í Svíþjóð, og auk þess fólust í þessum nýju samningum ýmsar nýjar greiðslur, sem atvinnurekendur taka á sig, eins og tillag til ýmissa sjóða. Mér virðist, að það sé ekki fjarri lagi að áætla, ef maður ber þetta saman í einu lagi, að samkv. þessum samningum eigi kaup að hækka um eitthvað tæplega 10% í Svíþjóð næstu 3 árin, en þær greiðslur, sem atvinnurekendur greiða, muni alltaf hækka um ein 30% í Finnlandi næstu 3 árin. Nú er talið, að strax á fyrstu 2 árunum muni þessar beinu kauphækkanir í Finnlandi hafa það í för með sér, að framfærsluvísitala þar hækki um 10%, og þá er ekki reiknað með þeim gagnverkandi áhrifum, sem þessar kauphækkanir hafa í för með sér, þannig að það virðist vera nokkuð augljóst mál. að samkv. þessum kaupsamningum, sem hafa verið gerðir í Finnlandi, muni veruleg dýrtíð og verðbólga haldast þar áfram næstu árin, alveg ólíkt því, sem horfurnar virðast í Svíþjóð. En mér sýnist, að þessi reynsla bendi alveg ótvírætt til þess, að þó að sparifjártrygging hafi verið reynd í einhverjum verulegum mæli í nokkur ár í Finnlandi, hafi hún ekki verkað á þann hátt að koma í veg fyrir kauphækkanir og hækkandi verðlag, heldur hafi hún siður en svo borið nokkurn árangur í þá átt, og sérstaklega kemur það í ljós, ef gerður er samanburður við Svíþjóð.

Þetta sýnir alveg ótvírætt, að þó að verðtrygging á sparifé geti verið réttlætismál til að tryggja hagsmuni sparifjáreiganda, þá er þar ekki um neitt verulegt vopn að ræða í baráttu við sjálfa verðbólguna. Hún heldur áfram að æða eftir sem áður, ef aðrar forsendur til að stöðva hana eru ekki fyrir hendi, sams konar forsendur og eru í Svíþjóð, og þess vegna mega þessar ráðstafanir, ef þær verða gerðar, — og ég hef mjög takmarkaða trú á þeim og í raun og veru mestu ótrú, — þá mega þær ekki verða til þess, að látið sé niður falla viðnám gegn verð. bólgunni. Það er jafnnauðsynlegt eftir sem áður. En það held ég, að sé eitt hið hörmulega einmitt í sambandi við þetta mál. að ríkisstj. ætli að þvo hendur sínar og segja: Hér er ég að stöðva verðbólguna, — og svo ætli hún ekki að gera neitt annað til að hafa áhrif í þá átt. Ég er alveg sannfærður um það, að með slíkum vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. kemur verðbólgan til með að vaxa hér áfram með svipuðum hætti og verið hefur á undanförnum árum. Þess vegna vil ég leggja áherzlu á það, eins og ég hef áður gert, að það þarf að taka upp allt önnur vinnubrögð í sambandi við þessi mál en átt hafa sér stað á undanförnum árum og hæstv. ríkisstj. ætlar að fylgja áfram. Það þarf að koma hér á, ef vel á að vera, sem viðtækustu samstarfi á milli stéttanna og flokkanna, á milli þings og ríkisstj. um viðnám gegn verðbólgunni, og ef ríkisstj, vill ekki taka að sér að hafa forustu um þetta, á hún engan tilverurétt, og þá vinnur hún ekki heldur í samræmi við þau loforð, sem hún gaf í síðustu kosningum, en meginloforðið var einmitt að vinna að stöðvun verðbólgunnar.

Ríkisstj. gerir sér einhverjar vonir um það, það hefur komið greinilega fram í ræðum hæstv. ráðh., — að þessar ráðstafanir, sem hún fyrirhugar hér, verði til að draga eitthvað úr þenslunni á vinnumarkaðinum, verði til að draga úr framkvæmdum. Ég hef ekki trú á, að svo verði að verulegu leyti, því að ég held, að framtakssamir menn haldi áfram með einhverjum ráðum að reyna að komast yfir atvinnutæki, eins og verið hefur, og ég er alveg viss um, að þrátt fyrir þau okurkjör, sem eru á húsnæðislánunum, kýs unga fólkið heldur að reyna að fara út í byggingar í þeim efnum en að hafa ekkert húsnæði. Neyðin neyðir það til þess.

Ég get aðeins sagt frá því sem litlu dæmi í þessu sambandi, hvernig ég held, að þetta mundi verka, að ég átti fyrir nokkru tal við gáfaðasta útgerðarmann landsins. Hann hafði fyrir nokkru fest kaup á síldarskipi, og því láni, sem hann tók, fylgdi sú klásúla, að ef gengislækkun verður, hækkar verulegur hluti lánsins í samræmi við það. Ég spurði hann að því, hvort hann væri ekki eitthvað smeykur við þetta. Hann hélt nú ekki, því að hann mundi aldrei koma til með að borga þetta. Og ég býst við, áð það hugsi margir þannig, sem taka þessi lán með vísitölubindingu, að þróunin verði sú í framtíðinni, að þeir komi ekki til með að þurfa að borga þetta, því að það verði gerðar einhverjar ráðstafanir til að leysa þá undan þessu oki. Ég held a.m.k., að fyrir hæstv. ríkisstj. væri hyggilegt að íhuga ummæli þessa gáfaða útgerðarmanns, áður en hún færi að treysta á það, að hér væri að ræða um vörn gegn verðbólgunni.