15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal gjarnan taka það fram, að ég er algerlega sammála hv. 5. þm. Reykv. um það, að verðtrygging á sparifé og lánum til langs tíma er engan veginn einhlít til að vinna gegn verðbólgu. Þetta held ég raunar, að ég hafi sagt alveg skýrt áður. En hinnar skoðunarinnar er ég, að verðtrygging sparifjár og verðtrygging fjárfestingarlána geti verið gagnleg sem einn liður í samræmdum heildaraðgerðum til þess að vinna gegn verðbólgu. Að því er það snertir, sem hann vitnaði til reynslunnar í Finnlandi, er það að segja, að það er rétt, að þeim þar í landi hefur þrátt fyrir eflaust góðan vilja ekki tekizt fremur en okkur hérna að vinna bug á verðbólgunni. En það, sem ég sagði um þetta efni áður, sem er nokkurt deilumál þar í landi, er það, hvern þátt verðtryggingin í Finnlandi hafi átt í því að halda verðbólgunni þó í þeim skefjum, sem tekizt hefur að halda henni í þar, að koma i veg fyrir, að hún yrði enn þá meiri. Það er, eins og ég hef sagt áður, atriði, sem mjög erfitt er að færa fullnægjandi og algerlega óyggjandi rök fyrir. Það er hætt við, að þar standi nokkuð staðhæfing gegn staðhæfingu. Hitt er rétt, sem ég sagði, að það mun vera skoðun flestra, a. m k. mjög margra manna þar, að þessar ráðstafanir hafi stuðlað að því í Finnlandi, að verðbólguþróunin þar hafi þó ekki orðið meiri en hún var í raun og veru.

Þetta er þó ekki aðalástæða þess, að ég kvaddi mér hljóðs, heldur hitt, sem hv. þm. beindi til mín varðandi það, hvernig ég teldi röð framkvæmda á þessu sviði eiga að vera, ef þetta frv. næði fram að ganga. Um þetta efni treysti ég mér ekki til að segja annað og meira en það, að það er skoðun mín, að nái frv. fram að ganga, eigi að vera um að ræða alhliða framkvæmd, samhliða framkvæmd á því, að sparifé, hvort sem það er í bönkum eða í lífeyrissjóðum, sé verðtryggt annars vegar og útlán hins vegar. Ég bendi á það, að það er á valdi stjórna lífeyrissjóðanna og fjárfestingarsjóðanna að hagnýta sér heimildir laganna, að fengnu samþykki hlutaðeigandi ráðh. og Seðlabankans, en valdið er hjá stjórnum þessara stofnana sjálfra og ríkisstj. er þar ekki úrslitaaðili að. En að því er snertir sparifé bankanna og útlán þeirra, yrði gert ráð fyrir samvinnu við fulltrúa viðskiptabankanna, og ég er þeirrar skoðunar, að í þeim efnum eigi engin spor að stíga nema þau, sem nokkurn veginn almennt samkomulag er um milli stjórnar Seðlabankans og stjórna viðskiptabankanna. Með þessu tel ég einmitt, að því markmiði verði náð, að tryggt sé, að ekki verði gripið til annarra ráðstafana í þessum efnum en þeirra, sem nokkurn veginn almenn samstaða er um hjá þeim, sem stjórna banka og peningamálum þjóðarinnar. — [Fundarhlé.]