21.10.1965
Efri deild: 5. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Með kjarasamningunum í júní 1964 má segja, að brotið hafi verið í blað í samskiptum launtaka og vinnuveitenda fyrir ýmiss konar milligöngu ríkisstj. Nú er það út af fyrir sig ekki nýtt atriði, að til afskipta ríkisvaldsins komi í slíkum kjaradeilum. Þvílík afskipti hafa átt sér stað að meira eða minna leyti hjá alla vega samsettum ríkisstj. á undanförnum árum. Það, sem var fyrst og fremst sérstakt við fyrrgreinda samningagerð og endurtók sig aftur á s.l. sumri, var milliganga ríkisins um félagslegar umbætur til lausnar þessum kjaradeilum. Hægt er að vísu að benda á hliðstæða hluti fyrr við svipaðar aðstæður, eins og með tilkomu atvinnuleysistryggingasjóðs til lausnar á langvinnri vinnudeilu árið 1955. Þrátt fyrir að finna megi einstöku atriði hliðstæð til lausnar kjaradeilum áður, munu þeir, sem bezt til þekkja, á einu máli um, að við lausn deilunnar s.l. sumar og árið 1964, hið svonefnda júnísamkomulag, þá hafi hin félagslega hlið samkomulagsins aldrei verið víðtækari og um leið áhrifameiri um niðurstöður samningsaðila.

Með þeirri lagabreytingu, sem átti sér stað á síðasta þingi og í meginatriðum var staðfesting á því, sem gerðist í júnísamkomulaginu 1964, ásamt því, sem enn bættist við í samningunum í júlí s.l., má segja, að umbæturnar felist fyrst og fremst í eftirfarandi atriðum varðandi húsnæðismál :

1) Hámarkslán voru hækkuð úr 150 þús. kr. í 200 þús. kr. og 280 þús. kr. fyrir þá, sem hófu byggingu á þessu ári. Á vegum byggingarsjóðs verkamanna voru hámarkslánin hækkuð úr 300 þús. kr. í 450 þús. kr., og hefur nú nýlega þar verið lokið við stærstu lánveitingu í allri starfssögu þeirrar lagasetningar.

2) Lánstíminn var lengdur um eitt ár, þannig að fyrsta árið er nú afborgunarlaust, aðeins eru þá greiddir vextir.

3) Heimilað er nú að lána bæjar- og sveitarfélögum, sbr. 1. gr. frv., til bygginga lítilla, en hagkvæmra leiguíbúða.

4) Sett er á stofn sérstök framkvæmdanefnd til fjöldaframleiðslu íbúða, sem einkum eru ætlaðar láglaunafólki í verkalýðsfélögum, og verður tilraun þessi hafin hér í mesta þéttbýlinu í Reykjavík, en fyrirhugað er að útbreiða þessa starfsemi, þegar reynsla og árangur liggja fyrir. Lán til þessara íbúða verða til 33 ára, 3 fyrstu árin afborgunarlaus, en greiðist síðan á 30 árum. Lán má nema allt að 80% af byggingarkostnaði.

5) Lofað er í samráði við verkalýðssamtökin allsherjar endurskoðun á allri lagasetningu um húsnæðismál til samræmingar og athugunar á því að setja upp nýtt heildarkerfi, er hafi með höndum alla stjórn og forustu þessara mála fyrir ríkisins hönd.

6) Vextir voru lækkaðir um nær helming, úr 8¼% í 4¼, en vísitöluákvæði eða verðtrygging sett inn, er reiknist á hverju ári. Höfuðrökin fyrir þessu ákvæði voru einkum tvenn: 1) Vísitöluútreikningur var á ný upp tekinn á launagreiðslur, og þótti þá samræmi í að gera það einnig á útlán. 2) Hlutur skyldusparnaðarins í árlegum tekjum byggingarsjóðs var hækkaður um rúmlega helming, úr 6% í 15%, en það fé er allt verðtryggt. Þannig hefði með áframhaldandi verðbólgu sífellt gengið á ráðstöfunarfé byggingarsjóðsins, ef ekkert hefði verið að gert honum til tryggingar.

7) Sérstök heimild var sett inn í lögin um viðbótarlán til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaga, og skal í því skyni heimilt að verja allt að 15–20 millj. kr. árlega.

Enn þá hefur ekki verið minnzt á eitt aðalatriði húsnæðismálavandans, en það eru þau kjör, sem leigjendur íbúðarhúsnæðis búa við, en þeir eru alls ekki fáir, einmitt meðal lægra launaða verkafólksins. Við búum í dag við algerlega úrelt lagaákvæði um hámark húsaleigu. Í lögum þessum er jafnvel talað um 9 og 11 krónu hámarksgjald á hvern fermetra á mánuði, og er jafnvel fyrirboðið að reikna húsaleiguvísitölu á þessar tölur. Þessi ákvæði eru svo fjarri raunveruleikanum, að vafalítið má telja, að ekki sé eftir þeim farið og beinlínis torveldi aukningu á þessari tegund húsnæðis, þ. e. leiguhúsnæði. Afleiðingarnar verða svo óhjákvæmilega þær, að framboð og eftirspurn ræður verðlaginu, en lagaákvæðin eru óvirk. Í framkvæmd verður því að greiða undir borði einhver afarkjör, sem enginn má vita, hver eru, ef nokkurt húsnæði á annað borð fæst. Fullvíst er á sama hátt, að engin leið er til þess að láta nýtt húsnæði standa undir sannanlegum kostnaði með fyrrgreindri leigu, svo fjarri öllum sanni eru þær tölur, miðað við nútíðarverðlag, ef leigja á íbúðir þannig, að leiga þeirra standi undir sannanlegu kostnaðarverði og rekstri. Þau sveitarfélög, sem kynnu að vilja notfæra sér fyrrgreinda lánsheimild, sbr. 1. gr. frv., til byggingar leiguíbúða, verða því knúin til lögbrota að óbreyttum lögum. Þá hafa mér verið nefnd nokkur dæmi um, að aðilar, sem gætu leigt frá sér húsnæði, geri það ekki, þar sem þeir vilja ekki gerast lögbrjótar, og líti þar af leiðandi íbúðirnar heldur standa auðar. Það ber því brýna nauðsyn til að endurskoða húsaleigul. og afnema núverandi löggjöf, sem vart nokkur maður mun fara eftir, og ef þörf er á talin, að undirbúa setningu nýrrar löggjafar um húsaleigu. Erindisbréf til húsnæðismálastjórnar, dags. 15. okt. 1965, um þessi efni er orðrétt svo hljóðandi. og tel ég rétt, að það sé lesið upp til þess að geta skýringar á því, að sú endurskoðun, sem ég áðan ræddi um, er þegar hafin, en erindisbréfið hljóðar svo orðrétt:

„Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. um húsnæðismál, sem gefin var í júlímánuði s.l. í sambandi við samninga verkalýðsfélaganna um kjaramál hefur ríkisstj. ákveðið að láta fram fara endurskoðun l. um verkamannabústaði og gildandi lagaákvæða um opinbera aðstoð vegna útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis með það fyrir augum að sameina til frambúðar í einum lagabálki opinbera aðstoð við húsnæðisöflun láglaunafólks, þ. á m. um þær íbúðabyggingar, sem um ræðir í 3. lið yfirlýsingarinnar.

Ríkisstj. hefur ákveðið að fela yður að framkvæma endurskoðun þessa, semja síðan frv. til l. um húsnæðismálin samkv. yfirlýsingunni. Jafnframt er þess óskað, að athugað verði í sambandi við endurskoðun þessa, hvort nauðsyn sé á lagaákvæðum um húsaleigu. Eins og yður er kunnugt, liggur nú fyrir Alþ. stjfrv., sem gerir ráð fyrir afnámi l. frá 1952, um hámark húsaleigu. Ef þér teljið, að nauðsyn sé á lagaákvæðum um þetta efni, er þess óskað, að þér látið gera frv. til l. um það eða fella ákvæði þar að lútandi inn í frv. það um húsnæðismálin, sem hér um ræðir, ef það þætti betur við eiga.

Rn. heimilar yður að ráða yður aðstoðarmenn við þetta verkefni og vill jafnframt tjá yður, að það mun vera yður til aðstoðar, eftir því sem þér kunnið að óska eftir.“ — Síðan eru undirskriftir.

Ákvörðun um að fela húsnæðismálastjórn framangreint verkefni var tekin í samráði við forustumenn A.S.Í., sbr. lokaorð margnefndrar yfirlýsingar ríkisstj. um húsnæðismál og um, að samráð yrði haft við verkalýðssamtökin um heildarendurskoðun þessa.

Um efni einstakra gr. frv., sem hér er til umr., get ég verið fáorður. Frv. er, svo sem fyrr er sagt, flutt til staðfestingar á þeirri yfirlýsingu, sem prentuð er með því. 1. og 5. gr. frv. eru nánast leiðréttingar vegna nafnabreytinga, sem átt hafa sér stað í öðrum l. Að auki er í 1. gr. frv. heimilað, að ríkisstj. gangist í samvinnu við sveitarfélög fyrir byggingu ódýrra íbúða í fjölbýlishúsum, svo sem nánar verður að vikið. Í júnísamkomulaginu 1964 var ákveðið, að ríkissjóður skyldi árlega leggja byggingarsjóði ríkisins eða húsnæðismálastjórn 40 millj. kr., sem aflað yrði með skatti á fasteignir eða á annan hátt, eins og sagt var í yfirlýsingu um húsnæðismál þá. Í framhaldi þessarar ákvörðunar var þá ákveðið að afla fjárins með þreföldun á fasteignamati til eignarskatts. Þessi tekjuöflun hefur nú í reynd sýnt sig að duga aðeins fyrir tæpum helmingi eða 50% af því, sem fyrirhugað var, og er því með 2. gr. frv. lagt til, að skattlagning þessi verði hækkuð um helming, úr þreföldun í sexföldun, í von um, að þá aflist ríkissjóði fé langdrægt fyrir umræddu framlagi. Mönnum kann að finnast, að ákvæði um þetta ætti fremur heima í l. um tekju- og eignarskatt. Á síðasta þingi var hins vegar talið rétt að hafa ákvæði þetta í l. um húsnæðismálástofnunina, þar sem um tekjuöflun til húsnæðismála væri að ræða.

3. og 4. gr. frv. eru meginefni þess. Þar eru ákvæði um hækkun hámarkslána, sem fyrr er á minnzt. Sérstök ástæða er til að skýra nánar ákvæði 4. gr., en þar er fjallað um hið nýja átak, sem fyrirhugað er að gera um byggingu hagkvæmra, en ódýrra íbúða, svo og lánakjör þeirra. Um það var samið á árinu 1964 að heimila sérstök viðbótarlán til efnalítilla meðlima verkalýðsfélaga fyrir allt að 15–20 millj. kr. árlega. Með samkomulaginu frá því í júní s.l. var hins vegar einnig samið um tilraun til byggingar hagkvæmra íbúða fyrir láglaunafólk í verkalýðsfélögum, sbr. 3. tölulið í yfirlýsingu ríkisstj., stafl. a—d. Það er um lánakjör á þessum íbúðum, sem 3. og 4. gr. frv. fjalla. Eins og þar greinir, eru lánakjörin ákveðin þannig, að lána má allt að 80% eða 4/5 hluta af verðmæti íbúðar til 33 ára, afborgunarlaust fyrstu 3 árin, en endurgreiðist síðan á 30 árum. Til þess að létta hinum væntanlegu eigendum íbúðanna erfiðasta hjallann í greiðslum fyrstu 3 árin er gert ráð fyrir, að aðeins verði greiddir vextir, en ekki afborganir. Þá er einnig í senn hugsað til tryggingar og að létta útborgunarerfiðleika væntanlegra íbúðaeigenda með því að dreifa útborguninni á því, sem mismuni láns- og kostnaðarverðs nemur, þannig, að a. m. k. 5% af verðmæti íbúðarinnar verði greidd einu ári áður en hlutaðeiganda er afhent íbúðin fullgerð.

Í margnefndu samkomulagi var ákveðið að hefja þessa tilraun hér í Reykjavík af eftirfarandi ástæðum: 1) Hér er byggingarkostnaður talinn hæstur á landinu og því mest að vinna til lækkunar á honum. 2) Hér eru nú mestir möguleikar til hagnýtingar á nýjustu tækni til sparnaðar og lækkunar á byggingarkostnaði, en 250 íbúðir á ári eru taldar nauðsynlegt lágmark til að gera slíkar tilraunir með fyrir fram tryggðu fjármagni. 3) Þau verkalýðsfélög, sem samningssvæði eiga í Reykjavik og nágrenni, lögðu að þessu sinni mesta áherzlu á úrlausn þessara mála. Sú ákvörðun um að hefja þessa tilraun hér í Reykjavík var, að ég tel, í huga allra, er að samningagerðinni stóðu, fyrst og fremst mótuð af framangreindum ástæðum. Á sama hátt tel ég, að í huga allra hafi verið að færa þessa auknu aðstoð út um land, strax og nægjanleg reynsla væri fengin af umræddum nýjungum í þessum afskiptum hins opinbera af húsnæðismálum. Þegar nauðsynleg reynsla í þessum efnum liggur fyrir, er því bæði eðlilegt og þjóðhagslega nauðsynlegt að snúa sér að þeim öðrum byggðarlögum, sem við mesta erfiðleika eiga að etja í þessum málum, með þær byggingaraðferðir, sem beztar hafa þá reynzt.

Í sambandi við þær nýju leiðir, sem hér er lagt inn á, tel ég ástæðu til að vara við allt of mikilli bjartsýni um skjótan og auðfenginn árangur, sem allan vanda okkar í þessum efnum leysi á skömmum tíma. Í þessu sambandi leyfi ég mér að vitna til Danmerkur, sem svipað átak gerði fyrir nokkrum árum, en þar var skýrt fram tekið, að fyrstu 5 árin í hinum nýju byggingarháttum mundu ekki sýna neina verulega lækkun byggingarkostnaðar. Að þeim tíma liðnum mundi hann árlega koma í ljós. Þetta stóðst hjá þeim hvað hin verksmiðjuframleiddu hús snerti. Það er öllum augljóst, að verði með umræddu átaki okkar lagt inn á verulega breyttar byggingaraðferðir, þurfa þær nýjungar ákveðinn aðlögunartíma fyrir iðnaðar- og verkamenn í byggingariðnaði og verulega breyttar kröfur væntanlegra íbúðareigenda til íbúðanna sjálfra, sem þó á ekki að þurfa að ganga út yfir sjálf gæði þeirra til íbúðar.

Þessir erfiðleikar, sem þegar eru fyrirsjáanlegir, ásamt ýmsum minni háttar atriðum, sem í dag eru e. t. v. ekki sjáanleg, eiga ekki og mega aldrei víkja okkur af vegi þeirrar nauðsynlegu og sífelldu leitar eftir lækkun byggingar- og húsnæðiskostnaðarins. Hvert skref í þá átt er áreiðanlega sú haldbezta kjarabót, sem völ er á í dag öllum almenningi til handa.

Það hefur stundum örlað á því, að of löngum tíma hafi verið í það eytt að þrátta um, hvaða ár byggingarkostnaður hafi aukizt mest og hverjir hafi þá setið í ríkisstj. Það er e. t. v. nauðsynleg og lýðræðisleg þjónusta við kjósendur að gera slíkan samjöfnuð, en lítið hefur það bætt byggingar- og húsnæðiskostnaðinn í landinu. Sú staðreynd blasir við, að þessi kostnaður hefur vaxið allt of hratt, hverjir sem í ríkisstj. hafa setið. Um það efni þurfa kjósendur engar upplýsingar eða flóknar samanburðartölur héðan frá hv. Alþ. Í því efni óska hlutaðeigendur eftir sem raunhæfustum tilraunum til úrbóta í þessu máli.

Ákvæði frv. til bráðabirgða er staðfesting á mjög mikilsverðum atriðum, sem um var samið s.l. sumar. En þau eru í fyrsta lagi, að á næstu 5 árum skuli hin almennu hámarkslán hækka um 15 þús. kr. á ári, jafnvel þótt vísitala byggingarkostnaðar hækki ekki um það, sem þeirri fjárhæð nemur. Í öðru lagi, þeir lánsumsækjendur, sem sannanlega hófu byggingarframkvæmdir á tímabilinu 1. apríl til 31. des. 1964, skulu eiga kost á viðbótarláni hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, allt að 50 þús. kr. á íbúð. Fyrra atriðið á að tryggja það, að eftir 5 ár verði almennu hámarkslánin orðin 355 þús. kr. á íbúð, jafnvel þótt byggingarvísitala hafi þá ekki hækkað að sama skapi. Á undanförnum árum hafa hámarkslánin tekið sífelldum breytingum til hækkunar og þá ávallt verið nauðsynlegt að breyta l., þar sem nauðsynlegt hefur verið talið að hafa tölulegt hámark í sjálfum l. Síðara atriðið, um 50 þús. kr. lánahækkunina á tilteknum byggingartíma, er fram komið I því skyni að koma til móts við þá umsækjendur, sem hófu byggingarframkvæmdir um og eftir að samningaviðræðurnar hófust og þangað til hið nýja lánahámark um hækkun úr 150 þús. í 280 þús. kr. tók gildi. Ríkisstj. hét því í margnefndri yfirlýsingu sinni að tryggja í þessu skyni viðbótarfjáröflun, er nemi því viðbótarfjármagni, sem lánahækkun þessi krefst, og mun það gert með lánsútvegun til byggingarsjóðs eða húsnæðismálastjórnar. Samkv. nýgerðri athugun á fjárþörf í þessu skyni, þ. e. til að mæta þessari 50 þús. kr. hækkun, er talið, að um 600–650 umsækjendur geti átt umræddan rétt og fjárþörfin í þetta atriði eitt yrði því á milli 30 og 35 millj. kr.

Til enn frekari fróðleiks fyrir hv. þdm. vil ég skýra frá því, að um þessar mundir hefur húsnæðismálastofnunin starfað í 10 ár, en hún hóf starf sitt í nóvemberbyrjun árið 1955 samkv. l., sem sett voru á Alþ. fyrr á því ári. Á þessum 10 árum virðist við lauslega athugun, sem gerð hefur verið um starf stofnunarinnar, svo sem lánað hafi verið til rúmlega 8600 íbúða fyrir samtals 834.5 millj. kr., eða að meðaltali rúml. 96 þús. kr. á íbúð. Í fyrstu voru almennt lánaðar 70 þús. kr. á íbúð, síðan hækkuð í 100 þús., og eftir 1. ágúst 1961 voru lánin aftur hækkuð í 150 þús. kr. á íbúð til 1. apríl 1964, þá voru hámarkslánin aftur, eins og fyrr er sagt, hækkuð í 200 þús. kr. út það ár eða til síðustu áramóta, en frá þeim tíma tóku núgildandi hámarkslán gildi með 280 þús. kr. hámarksláni, auk þess með ráðgerðri árlegri 15 þús. kr. hækkun næstu 5 árin, svo sem fyrr er greint. Hæst hafa árlegar fjárveitingar komizt í 160.5 millj. kr. á s.l. ári, en það sem af er þessu ári hafa verið veittar 146 millj. kr. Húsnæðismálastjórn undirbýr nú síðari lánveitingu þessa árs, og standa vonir til að hægt verði að fullnægja eldri lánsumsóknum og ganga nokkuð til móts við þessa árs umsóknir.

Í hinu margnefnda júnísamkomulagi frá 1964 var gert ráð fyrir möguleika á millifærslu fjár til eldri og nýrri lána fyrst í stað, meðan unnið væri að fullnægingu fyrirliggjandi lánsumsókna frá fyrri tímum. Það er skoðun mín, að sá augljósi árangur, sem þegar hefur náðst til fjárhagslegrar undirstöðu að stórlega auknum lánveitingum og þar með öðrum möguleikum húsnæðismálastjórnar til aukinna áhrifa á húsnæðisvandamál landsbyggðarinnar allrar, sé öllum þeim, sem þar hafa að komið, til sóma og virðingar. Um það munu e. t. v. komandi kynslóðir bezt geta vitnað.

Herra forseti. Það er ósk mín, að frv. þetta fái sem allra skjótastan framgang hér í hv. þd., m.a. vegna þess, að ýmis framkvæmdaatriði, sem ákveða verður í reglugerð, er ekki unnt að koma á fyrr en að lokinni afgreiðslu málsins, og ekki virðist heldur ástæða til þess að ætla, að stórfelldur ágreiningur þurfi að verða um frv. í heild, þar sem það er að meginefni staðfesting á samkomulagi, sem allir aðilar fögnuðu á sínum tíma.

Það er till. mín, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.