19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það er ekki margt, sem ég ætla að gera að umtalsefni í sambandi við þetta mál nú. Mig langar þó aðeins til þess að minnast á eitt atriði í sambandi við frv., sérstaklega með tilliti til þess, að hæstv. viðskmrh. er staddur hér f hv. d. Eins og hann lýsti í ræðu sinni hefur hæstv. ríkisstj. talsvert mikla trú á því, að samþykkt þessa frv. og lögin síðan í framkvæmd geti orðið til þess að draga að einhverju leyti úr verðbólgu, og í öðru lagi, að lögin í framkvæmd geti orðið til þess að draga úr því geysilega félagslega misrétti, sem verðbólgunni hefur verið samfara. Hér er óneitanlega um mjög mikilsvert mál að ræða, og ef hæstv. ríkisstj. hefur raunverulega þessa trú, þá skal mig ekki undra, þótt hún fylgi málinu nokkuð fast eftir. En þá undrar mig á því, að þetta frv. skuli koma fram í því formi sem það er, að það skuli koma fram í formi heimildarlaga. Ég fæ ekki betur séð en með því varpi hæstv. ríkisstj. áhyggjunum af sínum herðum og kasti þeim yfir á herðar annars aðila, og það er síðan komið undir þeim aðila, í fyrsta lagi, hvort ákvæði frv. verða nokkurn tíma framkvæmd og þá í öðru lagi, á hvern hátt þau verða framkvæmd. Ef hæstv. ríkisstj. trúir því í raun og veru, sem hún segir í sambandi við þetta frv., að hún hafi trú á því, að það verði til þess að draga úr verðbólgu og draga úr félagslegu misrétti, þá hefði mér fundizt, að hún hefði átt að ganga þannig frá því f frv., að þetta yrði tryggt í framtiðinni, að um verðtryggingu fjárskuldbindinga yrði að ræða, en það er ekki tryggt í þessu frv., að því er ég bezt fæ skilið. Hæstv. ráðh. reyndi undir lok ræðu sinnar að skýra, hvernig í þessu lægi, en satt að segja er ég litlu nær um rökin fyrir því af því, sem hann sagði.

Fyrir tveimur árum gekk hæstv. ríkisstj. mjög hart eftir því hér á hinu háa Alþ., að verðtryggð yrðu lán úr húsnæðismálasjóði ríkisins. Þá var ekki um það að ræða, að neitt væri í heimildarformi frá hálfu hæstv. ríkisstj. Það voru beinhörð lagaákvæði, lagafyrirmæli. Nú horfir svipað við. Það er verið að ræða um verðtryggingu útlána meðal annars. En þá bregður svo við, að hæstv. ríkisstj. vill helzt hvergi nærri koma og láta aðra aðila, þ.e.a.s. fyrst og fremst Seðlabankann, taka allar áhyggjurnar á sig. Í þessu finnst mér vera nokkurt ósamræmi, sérstaklega þegar litið er á áhuga hæstv. ríkisstj. á verðtryggingu lána úr húsnæðismálasjóði ríkisins. En ég taldi þá og tel enn, að það hafi verið ranglátt gagnvart fátækum húsbyggjendum, sem verða að leita lána úr þessum sjóði, að verðtryggja lánin, á meðan það væri ekki almennt gert um útlán í landinu. Ég er sömu skoðunar enn í dag, og mér þykir satt að segja hæstv. ríkisstj. taka mjög linlega á þessu máli nú, tveim árum síðar. Það kann vel að vera að hér sé um mikið vandamál að ræða í framkvæmd, en hæstv. ríkisstj. og Alþ. hafa fyrr leyst úr vanda. Það mátti t.d. fara hægt af stað, taka ákveðin lán til langs tíma og ákveða það hreinlega í lögum. Mér fannst tími til þess kominn, eftir að gengið hafði verið þannig frá lögum um húsnæðismálastjórn. En þetta hefur ekki verið gert, og ég verð að líta svo á, að hvorki Alþ. hæstv. ríkisstj. geti nú nokkuð um það sagt, hvort eitt einasta ákvæði úr lögum samkv. þessu frv. verði framkvæmt yfirleitt. Það er ekki vitað. Það á að fela þetta vissum aðila, og það er allt undir honum komið, hvort nokkuð af þessu kemst nokkurn tíma í framkvæmd.

Ég vildi sérstaklega vekja athygli á þessu nú, og ég vildi mælast til þess, ef hæstv. ráðh. treystir sér til, að hann gerði nánari grein fyrir þessum mun á afstöðu annars vegar til útlána almennt í þjóðfélaginu og hins vegar til útlána úr húsnæðismálasjóði, því að skýringu á því hef ég ekki fengið.