15.04.1967
Neðri deild: 70. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Frv. þetta hefur hlotið afgreiðslu Ed., og fylgir því, eins og fyrir þm. liggur, mjög greinargóð skýring á störfum þeirrar n., sem hæstv. fyrrv. sjútvmrh. skipaði 28. apríl 1965 til að rannsaka rekstur Skipaútgerðar ríkisins og athuga möguleika á að koma honum á hagkvæmari grundvöll. Þessi n. starfaði síðan fram eftir s.l. ári, og seint á því skilaði hún endanlega sínu nál., sem síðar var um stund til athugunar hjá ríkisstj., en er útbýtt hér sem fskj. með þessu frv. Ég ætla mér ekki að ræða einstaka liði þeirrar niðurstöðu og ályktanir n., sem fram komu í hennar nál., til þess er vart tilefni, nema það verði síðar gefið. En eitt af því, sem n. þessi lagði til í sínum bráðabirgðatill., var, að skipuð yrði sérstök stjórn fyrir Skipaútgerð ríkisins, svo sem áður hafði verið lagt hér til á Alþ. árið 1952, en það frv. náði þá ekki fram að ganga. Það verður vart talið vansalaust, að jafnmikið þjónustufyrirtæki og Skipaútgerð ríkisins skuli hafa starfað án laga eða reglna af hálfu Alþ. nú um nærfellt 37 ára skeið, en þetta er þó eigi að síður staðreynd. Frv. þetta er ekki mikið að vöxtum og þarf ekki mikilla skýringa við. Það var mat þeirrar n., sem samdi umrætt nál., að sérstakt frv. bæri að samþykkja um starfsemi stofnunarinnar, og kemur tilgangur þeirrar lagasetningar ljóslegast fram í 4. gr. frv. Gert er ráð fyrir, að tvö rn, tilnefni menn í þessa stjórn auk oddamanns hennar, og er talið eðlilegt af n. hálfu, að það séu þau ráðuneyti, sem mest samskipti hafa við þetta fyrirtæki, þ.e.a.s. fjmrn. og samgmrn.

Ég tel ástæðu til að leggja á það áherzlu, að þetta frv. nái fram að ganga af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að það standa fyrir dyrum mjög veigamiklar breytingar á starfsemi stofnunarinnar, endurnýjun á skipaflota hennar, sem er nú í undirbúningi hjá þeirri bráðabirgðastjórn, sem stjórnar fyrirtækinu nú, þ.e.a.s. fulltrúum frá fyrrnefndum tveimur rn., auk forstjóra Skipaútgerðarinnar, sem er formaður þessarar stjórnar. Bæði liggur fyrir eð endurskipuleggja skipaflotann, og eru í undirbúningi útboðslýsingar með leyfi ríkisstj. að tveimur nýjum skipum í þessu skyni, auk þess sem grundvallarástæða er talin til þess að breyta aðstöðu þessarar stofnunar í landi og þá sérstaklega í aðalumskipunarhöfn hennar, Reykjavík, sem, talin er hafa verið mjög mikill þrándur í götu þess, að hagkvæmni væri hægt að koma þar við svo sem bezt yrði á kosið. Vegna þeirra umr., sem ég hygg, að öll dagblöð bæjarins hafi þegar haft um þetta frv., þegar það var upphaflega flutt, þar sem skýrt var hlutlaust frá efni þess, tel ég óþarft að orðlengja frekar um það nú, nema sérstakt tilefni gefist til, en legg á það áherzlu, að n. sú, sem málið fær til umr., hraði svo störfum sínum, að málið nái fram að ganga á þessu þingi.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.