14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, fjárlög 1967

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Á þskj. 146 berum við hv. 6. þm. Sunnl. og ég fram tvær till. til breytinga við fjárlagafrv. Fyrri flm. hefur fjarvistarleyfi hér í dag, og þess vegna vil ég leyfa mér að mæla hér nokkur orð með þessum till. tveim. Þessar till. varða vatnsveitu Vestmannaeyjakaupstaðar, en framkvæmdir, sem hafnar eru þar og hófust á þessu ári, eru alveg einstæðar í sinni röð.

Erfiðleikar Vestmanneyinga til öflunar vatns hafa verið eitt mesta vandamál þeirra um langan tíma. Yfirleitt hefur það verið svo þar, að þeir hafa safnað rigningarvatni og notað síðan til heimilisþarfa. Þá hafa þeir sjóveitu, sem er allt að 35 ára gömul, og nota hana í sambandi við fiskiðnaðinn. Einnig hefur það komið fyrir, þegar þannig hefur staðið á um veðurfar, að vatn hefur verið flutt til Eyja frá landi með skipum. Hefur það að sjálfsögðu reynzt bæði mjög erfitt og dýrt. Þetta mikla vandamál hefur verið meðal Vestmanneyinga mjög til athugunar, og margvíslegar rannsóknir hafa átt sér stað á liðnum árum. Framkvæmdar hafa t.d. verið boranir dýrum dómum eftir vatni í eyjunum sjálfum, en þær ekki borið árangur. Loks var svo ákveðið og algjör samstaða um það í Vestmannaeyjum að sækja vatn til lands, undir Eyjafjöll, og leggja síðan leiðslur til eyjanna. Þetta mál varðar að mínum dómi og margra annarra ekki aðeins þá eyjaskeggja, heldur og alla landsmenn og það mjög miklu, þar sem um ræðir eina öflugustu verstöð og einn mesta útflutningsbæ landsins.

Ég veit um það, að í fjvn, á liðnum vikum hefur þetta mál verið íhugað og rætt. Í till. frá fjvn. sést, að hækkað er framlag af hálfu ríkissjóðs til vatnsveitna almennt upp í 6.8 millj. kr., og sú hækkun er að sjálfsögðu mjög þakkarverð á þessum lið, og væntanlega má gera ráð fyrir því, að um leið og þessi hækkun á sér stað, eigi nokkur hluti hennar og kannske verulegur að ganga til vatnsveitu Vestmanneyinganna. En við fim. þessarar till. teljum þó, að þessi fjárhæð, 6.8 millj., sé ekki meiri en svo, að hinar mörgu vatnsveitur aðrar, sem eru í framkvæmd eða nýlega hefur verið lokíð við, þurfi þá fjárhæð til sín að mestu eða öllu, ef fullnægja á að nokkru marki ákvæðum laga um aðstoð til vatnsveitna almennt.

Í Suðurlandskjördæmi er t.d. ein stór vatnsveita í framkvæmd og að mestu fulllokið. Það er svokölluð Þykkvabæjarveita. Þar, á þeim slóðum, var álíka erfitt um vik í sambandi við vatnsöflun og í Vestmannaeyjum, neyzluvatn varla til í Þykkvabænum, svo að viðunandi væri. En Djúpárhreppur lagði á s.l. ári í vatnsveituframkvæmdir, og eru vatnsleiðslur æðilangar. Vatnið er sótt upp í svokallað Selalækjarland á Rangárvöllum, og leiðslan liggur meðfram Ytri-Rangá að austanverðu langt niður eftir og síðan yfir ána og allt niður í Þykkvabæ. Mér hefur verið tjáð, að styrkur til þessarar vatnsveitu úr ríkissjóði þegar veittur sé 74 þús. kr. og vanti því 11/2 millj. til þess að ná því marki, sem ber samkv. ákvæðum laga um aðstoð við vatnsveitur, ef vel væri.

Fleiri stórvatnsveitur eiga ófenginn styrk að mestu. Það er því auðsætt, að það mun ekki veita af þessari upphæð, að mestu leyti, 6.8 millj., til hinna annarra vatnsveitna en Vestmannaeyjaveitunnar.

Öll erum við sammála um það, að vatnsveitumálið sé í fremstu röð félagsmála og undirstaða velferðar og heilbrigði landsmanna, og því fer víðs fjarri, að einmitt á þessum lið, til styrktar vatnsveitum, eigi að spara sérstaklega, ef til sparnaðar á að grípa á annað borð. Það hljóta allir að vera sammála um það, að margir aðrir liðir eru á fjárlögum, sem grípa mætti á í því skyni, ef menn kærðu sig um. Þegar litið er til þess, hversu gífurleg framkvæmd er hér á ferðinni að því er snertir stofnkostnað og alla aðstöðu við framkvæmdir, verður að taka myndarlega á af hálfu ríkisins. Verkefnið er svo óvenjulegt og engin hliðstæða, að heitið geti. Vatnsleiðslurnar eru, eins og okkur er öllum kunnugt um, langan veg, bæði á sjó og landi. Stofnkostnaður alls er áætlaður nú um 76 millj. kr., bæjarkerfið er ekki talið með í þessari fjárhæð og þess að gæta, að í stofnkostnaðaráætluninni er miðað við það verðlag, sem nú er, og kaupgjald. Mér er tjáð, að áætlaður kostnaður við framkvæmdir við vatnsveituna árið 1966 sé 13 millj. kr. og 1967 24 millj. kr. og þá sé á næsta ári ætlunin að leggja neðansjávarleiðsluna.

Margt hlýtur svo að koma fram við þessa einstæðu framkvæmd, sem er óséð og valdið getur auknum kostnaði fram yfir áætlanir og verkið af þeirri sök m.a. dregizt mjög á langinn. Auk þess mætti hugsa sér það, að dýrtíðar- og verðbólguvöxtur geti átt sér stað á framkvæmdatímabilinu, sem er áætlað 1966–1971, og vissulega ber ríka nauðsyn til þess að koma þessari vatnsveitu upp samkv. áætlun. Á þessu ári hefur framkvæmdum, eftir því sem ég hef heyrt, miðað vel áfram eftir atvikum. Þó hefur veðrátta á köflum verið æðistirð og fremur til óhægri verka við störfin, vatnspípur hafa reynzt nokkuð gallaðar á stundum, og tafsamt hefur verið að skipta um pípur eftir þrýstiprófanir og margt af þessu tagi komið fram, eins og gengur, en að öðru leyti hefur verkið, eftir því sem mér er tjáð, gengið vel og í raun og veru framar vonum.

Undir þessum mikla kostnaði, sem hér ræðir, á svo bæjarsjóður Vestmannaeyja að standa, sem þegar hefur sett á sína fjárhagsáætlun stórfé, síðan á lagður að sjálfsögðu vatnsskattur, lántökur og svo framlag úr ríkissjóði. Þetta eru höfuðundirstöður undir kostnaðargreiðslum við fyrirtækið. Bæjarsjóður hefur þegar, ætla ég mega segja, lagt í framkvæmdir milli 11 og 12 millj. kr. á þessu ári. Í áætlunum, sem liggja fyrir, sýnist mér gert ráð fyrir vatnsskatti, sem er allhár og mér sýnist í fljótu bili vera margfalt hærri en er t.d. í Reykjavík eða Akureyri, svo að ég taki dæmi, en þetta er einungis áætlun. En vatnsveitulögin, sem ég hef minnzt hér á og vitnað til, sýnast gera ráð fyrir því, að hóflegur vatnsskattur sé jafnan lagður á og ríkissjóður miði þá framlag sitt við slíkan skatt. Að sjálfsögðu er svo reiknað með því, að vatnsveitan taki stórlán, annaðhvort utan lands eða innan, nema hvort tveggja komi till. En um þetta atriði er það að segja, að enn sem komið er, er ekki fenginn, svo að vitað sé, neinn grundvöllur undir slíkar lántökur, og enginn vissa um það, hverjir eru lánamöguleikar né hvar þá er að finna eða með hverjum kjörum lán kunna að verða veitt.

Þegar alls þessa er gætt, sem ég hef leyft mér að rekja hér í örfáum dráttum, er auðsætt, að mikillar aðstoðar af ríkisins hálfu er þörf og hinnar fyllstu, sem með nokkru móti er auðið að inna af hendi.

Að áliti okkar flm. má styrkurinn alls ekki minni vera á fjárlögum fyrir næsta ár en vikið er að og farið fram á í tili. Vatnsveitulöggjöfin frá 1947 gerir ráð fyrir því, að ríkisframlag megi nema allt að 50% af heildarstofnkostnaði. Í þessum till. okkar er nokkuð miðað við það, að stuðningur ríkisins komist nærrí því marki og komi þá eftir hendinni nokkurn veginn eða eftir því sem framkvæmdir eiga sér stað.

Í till. okkar hinni fyrri, á nefndu þskj., 146, leggjum við til, að alls verði veittar til vatnsveitna á þessum ákveðna lið 10 millj. kr. og þar af til vatnsveitu Vestmannaeyja 5 millj., það verði hið beina framlag. Hin önnur till. okkar í lið IV á þskj. 146 er á þá leið að gefa bæjarsjóði Vestmannaeyja eftir aðflutningsgjöld af innfluttu efni til stofnæða, geyma og dælustöðva vatnsveitunnar.

Mér sýnist, að í þessum till. sé ekki stigið stærra spor en svo, að í fullu samræmi sé við þá löggjöf, sem við búum við í þessu landi um aðstoð til sveitarfélaga í sambandi við vatnsveitugerð, og jafnframt má segja það, að einnig sé í þessum till., sem eru verulegar hækkunartill., litið enn fremur til þess, hversu óvenjulega stórbrotin framkvæmd er hér á ferðinni.

Ég sé ekki, að í till. fjvn. varðandi þennan lið sé vatnsveita Vestmannaeyja nefnd. En hitt veit ég, að fjvn. ætlast til þess, að nokkur hluti og hann verulegur af þessari fjárhæð, 6.8 millj., gangi til vatnsveitu Vestmannaeyja. En það er ekki tekið af skarið í till. fjvn. um þetta atriði. Hins vegar höfum við flm. tekið sérstaklega fram, að af hækkun þeirri, sem við förum fram á, að gerð verði á þessum vatnsveitnalið, fari 5 millj. til vatnsveitu Vestmannaeyja, þannig að það sé bundið í lögum þetta framlag.

Ég sé, að hv. 10. landsk, þm., frsm. 2. minni hl. fjvn., flytur tvær till., sem eru líkar og þessi, sem ég hef hér greint. En till. okkar hv. 6. þm. Sunnl. ganga þó aðeins lengra og má segja nokkuð ákveðnari, en efnislegur munur er ekki neinn að marki. Ég sé það, að í till. hv. 10. landsk, í sambandi við heimildagr. er rætt um, að aðflutningsgjöld skuli endurgreiðast Vestmannaeyjakaupstað af efni til stofnæða og vatnsgeyma, en hjá okkur er einnig getið dælustöðva vatnsveitunnar.

Ég geri ráð fyrir, að brtt. okkar á þskj. 146 gangi á undan till. hv. 10. landsk. þm., svo að það má gera ráð fyrir því, að við eigum hans stuðning vísan ásamt stuðningi margra annarra, því að við flm. væntum þess, að þessum till. okkar tveim verði vel tekið og að hv. alþm. komi myndarlega til móts við hagsmuni Vestmanneyinga í hinu viðurhlutamikla stórmáli þeirra.