17.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Samgmn. þessarar hv. d. hefur komið saman til að fjalla um frv. um Skipaútgerð ríkisins og hefur ekki getað orðið sammála um afgr. þess.

Frv. þetta má heita að sé aðeins um höfuðskipulagsatriði Skipaútgerðarinnar og bætir úr því ástandi, sem ríkt hefur síðan Skipaútgerðin hóf starfsemi sína, að um hana hafa engin l. verið til önnur en það, sem samþ. hefur verið í fjárlögum ár eftir ár, og þá venjulega um að ræða samþ. á því fé, sem ríkið þurfti að leggja til hennar.

Á allra síðustu árum hafa erfiðleikar þessarar útgerðar vaxið mjög verulega og tap á rekstri hennar aukizt. Hefur þetta leitt til þess, að ríkisvaldið hefur lagt mikla áherzlu á að rannsaka rekstur Skipaútgerðarinnar og reyna að finna möguleika til að koma honum á hagkvæmari grundvöll. Í þeim tilgangi var m. a. skipuð n. í apríl 1965, sem fjallaði mjög ýtarlega um málefni fyrirtækisins í heild. Þegar þessi n. hafði starfað um skeið, gekk hún á fund ráðh. og ræddi við hann um verkefni sitt. Benti hún þá þegar á, að engin l. væru til um Skipaútgerð ríkisins, og taldi, að rétt væri að bæta úr þeim ágalla. Þetta er raunar ekki í fyrsta skiptið, sem bent hefur verið á, að óeðlilegt væri, að ekki væri grundvallarlöggjöf um Skipaútgerðina. Frv. að l. um Skipaútgerðina mun hafa komið fram á þinginu 1852, en var þá ekki útrætt. Einnig lét mþn. í samgöngumálum frv. um þetta efni fylgja áliti sínu og till. til samgöngumála 1958, og hefur því verið rækilega bent á nauðsyn þess að lögfesta starfsgrundvöll fyrir Skipaútgerðina áður, þó að ekki hafi orðið úr því fyrr en nú.

Þá benti þessi n. ráðh. á, að mjög eðlilegt væri, að jafnstórt og þýðingarmikið fyrirtæki, sem ætti við jafn margvíslega erfiðleika að etja og Skipaútgerðin, hefði sérstaka stjórn, ekki sízt til þess að reyna að styrkja tengslin á milli fyrirtækisins og þeirra ráðuneyta, sem hafa með það að gera. Skv. þessum ábendingum skipaði ráðh. á sínum tíma 3 menn í stjórn fyrirtækisins, það mun hafa verið í marz 1966.

Það frv., sem hér liggur fyrir, bætir úr þessu tvennu, að sett verði grundvallarlöggjöf um starfsemi Skipaútgerðarinnar og að henni verði sett sérstök stjórn. Að sjálfsögðu má, deila um það, hvort ástæða er til þess að hafa slíkar stjórnir yfir ríkisfyrirtækjum, eða ekki, en að fenginni reynslu var gerð tilraun með það að setja slíka stjórn yfir Skipaútgerðina, og þann tíma, sem hún hefur starfað, liðlega ár, mun reynslan af þessari stjórn Vera góð og talin af þeim, sem bezt þekkja til, benda til þess, að í þessu tilfelli a.m.k. sé það mjög til bóta að hafa slíka stjórn. Skipaútgerðin er nú af ýmsum ástæðum á tímamótum. Miklar breytingar hafa orðið á samgöngumálum í landinu, og flugið hefur aukizt og dregið til sín stóraukinn fjölda farþega, þ. á m. frá Skipaútgerðinni og öðrum skipafélögum. Þá hafa samgöngur á landi batnað verulega og dregið til sín flutninga, sem áður fóru með ströndum fram. Verkefni Skipaútgerðarinnar eru því ekki þau hin sömu og áður. Nú eru algjörar nýjungar á leiðinni í skipulagi vöruflutninga um allan heim, og má því segja, að óvenjuleg og sérstök verkefni séu framundan hjá fyrirtækinu og því rík ástæða til þess að skapa því þann fasta grundvöll, sem það hefur ekki haft, og fá því sérstaka stjórn, sem reynslan sýnir þegar, að sé til bóta.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa í umr. um þetta mál hingað til aðallega talað um, hvernig þjónusta Skipaútgerðarinnar sé, og hafa haft margt við hana að athuga. Hæstv. sjútvmrh. hefur svarað þessum ásökunum og fullyrt það, skv. upplýsingum, sem hann hefur haft frá þeim embættismönnum, sem fyrirtækinu stjórna, að ásakanir um versnandi þjónustu hafi ekki við rök að styðjast. Meiri hl. samgmn. mælir með því, að þetta frv. verði afgr. óbreytt, en minni hl. skilar séráliti.